Brýn verkefni borgarinnar, að mati Sóleyjar Tómasdóttur
28.4.2008 | 10:59
Sóley Tómasdóttir, fulltrúi Vinstri Grænna, telur upp eftirfarandi á bloggsíðu sinni sem brýn verkefni opinberrar stjórnsýslu:
"Þau nýju verkefni sem borgarstjórinn telur óþörf lúta m.a. að eftirfarandi:
- Vinna gegn kynbundnu ofbeldi
- Efla aðgengi innflytjenda að samfélaginu með áherslu á gagnkvæma aðlögun.
- Átak í atvinnumálum fatlaðra hjá borginni.
- Útrýma kynbundnum launamun hjá borginni.
- Gera húsnæði borgarinnar aðgengilegt fyrir alla.
- Vinna gegn staðalímyndum kynjanna, innflytjenda, fatlaðra og samkynhneigðra.
- Hafa áhrif á erlendum vettvangi sem fyrirmyndarborg á sviði mannréttinda."
Tilefnið er það að núverandi borgarstjórn hefur ákveðið að skera niður ómarkviss og rándýr verkefni, sem virðast hafa haft það eitt að markmiði að ráða inn flokksgæðinga af vinstri væng stjórnmálanna sem eru nýútskrifaðir úr kynjafræðum.
En bíðum nú við. Ef við gefum okkur að þessi málefni séu öll brýn, af hverju þarf að stofna sérsakt batterí fyrir marga milljónatugi á ári til þess að sjá um þau?
Sér ekki lögreglan um að taka á ofbeldi í samfélaginu, kynbundnu sem öðru? Þarf kynjafræðing eða alþjóðafræðing til þess, svona til viðbótar við lögregluna? Er ekki nær að lögreglan vinni gegn þessu ofbeldi sem öðru?
Er skattpeningum okkar vel varið í að aðlaga innflytjendur að samfélagi okkar? Er ekki best að þeir sjálfir sjái um það, fari á tungumálanámskeið og annað slíkt, fyrir sinn eigin pening, fyrst þeir taka á annað borð ákvörðun um að flytja hingað? Hversu margir Íslendingar sem hafa flutt utan hafa fengið ríkisstyrki til að "aðlagast" samfélaginu þar sem þeir bjuggu?
Átak í atvinnumálum fatlaðra er nokkuð sem fjölmörg félagasamtök vinna að. Þarf virkilega að bæta enn einni "skrifstofunni" við, bara svo hægt sé að búa til aðeins fleiri "verkefnastjóra" hjá borginni?
Væri nú ekki gott að sýna fram á að kynbundinn launamunur sé yfirhöfuð til? Það hefur aldrei verið sýnt fram á að kynbundinn launamunur sé til staðar í stórum stíl, algeng aðferð til að "sanna" tilvist hans er að segja að karlar og konur séu með ólík laun þegar búið er að leiðrétta fyrir aldri, menntun, vinnutíma, og starfsheiti. Allir aðrir þættir, s.s. eðli starfs, eðli starfsmannsins sjálfs, starfsumhverfi, ábyrgð í starfi eru hunsaðir og flokkaðir sem "kynjabreyta".
Er það ekki á ábyrgð eignasviðs borgarinnar að sjá til þess að allir hafi aðgengi að byggingum borgarinnar? Þarf mannréttindanefnd til þess?
Vinna gegn staðalímyndum? Hvernig þá? Til hvers? Staðalímynd er hvernig fólk sér hópa eða einstaklinga, og er það ekki þeirra sjálfra að breyta því? Mér finnst t.d. Vinstri Grænir vera hópur ábyrgðarlausra stjórnmálamanna sem krefjast ríkisforræðis og hatast út í einkaframtakið. Á Mannréttindaskrifstofa að breyta því, eða er það á forræði Vinstri Grænna að sýna mér fram á að þeir séu ekki eins og ég upplifi þá?
Hafa áhrif á erlendum vettvangi sem fyrirmyndarborg á sviði mannréttinda? Til hvers? Erum við með eitthvað slæma ímynd fyrir sem höfuðborg mannréttindabrota og kúgunar? Við höfum hingað til verið ansi mikið laus við slíka gagnrýni, en hver veit hvað gerist í framtíðinni ef Vinstri Grænir fá sínum vilja framgengt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.