BSRB í boði Vinstri Grænna

Það er hverjum ljóst, hvort sem menn viðurkenna eður ei, að BSRB er skuggaráðuneyti Vinstri Grænna, og hverjum þeim félagsmanni sem er í félaginu er skylt að greiða til málpípu vinstrisinna.  Ef þú ert meðlimur í BSRB þá borgar þú fyrir málflutning Vinstri Grænna, hvort sem þér líkar betur eða verr, og sama hvar í flokki þú stendur.

Stjórnmálaflokkur hefur tekið verkalýðsfélag í gíslingu, sem er svo sem ekki ný frétt.

Hver man ekki eftir því t.d. þegar hinn "óháði" formaður BSRB mótmælti harðlega, fyrir hönd verkalýðsfélagsins, að hér skyldu sett vatnalög í fyrra, og mætti svo síðar sama dag og flutti sömu ræðuna sem þingmaður Vinstri Grænna?

Vandinn er vissulega heimatilbúinn að nokkru leyti, en má þó rekja eingöngu til þess að vinstristefna hefur fengið að grassera of lengi í stjórn landsmála, fyrst hjá Framsókn og síðar hjá Samfylkingu, og Sjálfstæðisflokkurinn hefur einfaldlega ekki spyrnt á móti.

Skattar hafa ekki verið lækkaðir nægjanlega, þannig að við sitjum uppi með ríkissjóð, skuldlausan, og stjórnmálamenn sem vilja fyrir alla muni moka peningum út frekar en að skila þeim til eigenda sinna.

Tökum sem dæmi: Samið var við kennara um 25% launahækkun á einu ári, hvað gerir það til að lækka verðbólguna?  Kristján Möller ætlar að stækka flugbrautina fyrir norðan og sprengja göng, í miðjum kröfukór um aðhald, Vegagerðin greinir stolt frá því að aldrei hafi fleiri göng verið í undirbúningi en akkúrat núna, Ingibjörg Sólrún eyðir milljónahundruð í að komast í Öryggisráð SÞ, til þess eins að geta tvöfaldað kostnað við utanríkisþjónustuna.

Já, þetta er heimatilbúið, og þetta angar af byggðastefnu (sem er hreinræktuð vinstristefna) og tilgerðapólitík, sem er aðalsmerki Samfylkingarinnar.  Og Sjálfstæðisflokkurinn spyrnir ekki á móti.

Ef mönnum er alvara með að ríkið bregðist við núverandi aðstæðum er eftirfarandi tilvalið:

Lækkum skatta, ríkið eyðir hvort eð er peningunum og enginn munur á verðbólguþrýsting hver eyðir peningunum, en skattgreiðendur myndu kannski einhverjir nota auknar ráðstöfunartekjur til að borga niður sínar eigin skuldir.  Til hvers á ríkið að taka til sín fúlgur fjár sem það hefur engin not fyrir, enda skuldlaust, og fjármagna vitleysu eins og Ár Kartöflunnar, þegar almenningur gæti vel nýtt peningana í eitthvað viturlegra.

Gerum gangskör í einkarekstri, og spörum þannig útgjöld ríkissjóðs.  Fáum fagaðila í rekstri til að sjá um sjúkrahúsin og skólana.

Afnemum lög um aðstoðarmenn þingmanna.  Hversu margir gera sér grein fyrir því að Vinstri Grænir greiddu atkvæði á móti frumvarpinu um aðstoðarmenn, en þegar það varð að lögum hafa þingmenn þess flokks ráðið helming þeirra sem ráðnir hafa verið?  Sóun á almannafé.

Vinstri Grænir geta nöldrað eins og þeir vilja, hvort sem er í gegnum þingflokkinn eða verkalýðshreyfinguna, en þeir virðast ekki skilja vandann, og boða lausnir sem eru ekkert annað en enn meira af sama ruglinu sem Samfylkingin og Framsókn hafa matreitt. 

Er til of mikils ætlast að Sjálfstæðisflokkurinn taki aftur upp merki hægristefnu og skynsemi, og segi hingað og ekki lengra við sósíalistana?


mbl.is BSRB: Vandinn heimatilbúinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband