Fullyrðingar Ágústs um kosti ESB hraktar

Varaformaður Samfylkingarinnar skrifar svo á bloggi sínu í dag:

"Í stuttu máli mætti segja að helstu kostirnir við aðild eru aukin áhrif, lægra matvælaverð, aukinn stöðugleiki, lægri vextir, sanngjarnara landbúnaðarkerfi, auknar erlendar fjárfestingar, minni gengisáhætta og gengissveiflur, lægri skólagjöld erlendis, minni viðskiptakostnaður og bætt félagsleg réttindi. Ekki má gleyma að Íslendingar eru evrópsk þjóð sem á heima í samfélagi annarra Evrópuþjóða."

Er það virkilega svo?  Lítum á málið.

".... aukin áhrif..." á hvað?  Lagasetningu?  ESB telur nú rétt um 250 milljónir manna, við erum 300þ, eða sem nemur 0.1% af íbúafjölda bandalagsins.  Hin nýja stjórnarskrá, sem íbúar landa sambandsins höfnuðu, en leiðtogarnir tróðu engu að síður í gegn, færir atkvæðavægi meira í áttina til íbúafjölda en áður, þannig að við höfum engin áhrif á hvernig lög þróast í ESB.  Við höfum eiginlega meira um það að segja í dag, sem aðilar að EFTA og í gegnum tvíhliða samninginn við ESB, að nafni EES.  

Ágúst segir að við höfum nú þegar tekið upp mest alla löggjöf ESB, sem er rangt, við höfum tekið upp stærsta hluta af lögum um INNRI MARKAÐ, sem er langt í frá að vera öll löggjöf ESB.

"... lægra matvælaverð..." hvernig þá?  Í gegnum lægri tolla á matvæli?  En hvernig er það, ráðum við ekki í dag hvaða tollar eru í gangi?  Þurfum við að ganga í ESB til að lækka tolla á innflutt matvæli?  Hvernig væri að vinur Ágústs, hann Björgvin, og Árni Matt settust bara niður og afgreiddu málið snaggaralega og lækkuðu tolla á þessar vörur?  Að ganga í ESB til að þvinga fram lægra verð er soldið eins og að saga af sér fótinn til að losna við ljóta sokka.

Gleymum heldur ekki að matvælaverð stjórnast af meiru en kostnaðarverði, álagning spilar þar stóra rullu, og það er ekkert í dag sem bannar erlendum verslunum að opna útibú á Íslandi, en smæð markaðarins kemur í veg fyrir það.  Íslendingar verða 300,000 eftir inngöngu í ESB, rétt eins og þeir eru fyrir inngöngu í ESB.

".... aukinn stöðugleiki...", á hvaða mælikvarða?  Það verður mun meira atvinnuleysi, það er vitað, enda atvinnuleysi mun meira innan ESB en á Íslandi.  Það verður minna flökt á krónunni, en er það hinn eini sanni stöðugleiki?

"... lægri vextir...." er vinsælt.  Vextir eru verðmiði á peninga, eftir því sem eftirspurnin er meiri eftir peningum, þeim mun dýrari eru þeir.  Horfið á götur bæjarins... horfið á Innlit/Útlit.... skoðið hversu margir eru að fara utan í sumarfrí í ár... þetta fólk hefur keypt peninga til að fjármagna þessa hluti, eftirspurnin er miklu meiri en framboðið, því enginn sparar.  Því er verðið á peningum alveg rétt í dag, og þegar þeir sem vilja halda áfram að kaupa peninga barma sér og kvarta yfir verðinu, þá eiga menn bara að segja að svona sé lögmálið um framboð og eftirspurn.  Ekki rjúka upp til handa og fóta og ráðast í aðgerðir til að þvinga jafnvægið niður, svo menn geti haldið áfram að skuldsetja sig í botn.  Þessi rök Ágústs ganga ekki upp, og einkennast af örvæntingafullri tilraun manns til að höfða til óábyrgrar hegðunar neytenda til þess eins að fá sínu áhugamáli framgengt.

"... sanngjarnara landbúnaðarkerfi...."  Hvernig þá?  Stjórnum við ekki okkar kerfi í dag?  Hvað kemur í veg fyrir að við sjálf breytum þá kerfinu, fyrst það er svona ósanngjarnt?  Eitt er víst, við fáum enga styrki frá ESB fyrir landbúnaðinn, þeir fara nú þegar allir til A-Evrópu.  Spyrjið bara bændur í Frakklandi og á Spáni sem eru búnir að missa áskriftina að styrkjunum.  Ekki eru þeir sérlega kátir.  Það þarf að skera upp landbúnaðarkerfið á Íslandi, en af hverju getum við ekki gert það sjálf og borið ábyrgð á því sjálf?  Af hverju vill Ágúst að einhverjir Brusselistar geri það?  Og af hverju vill Ágúst ekki að við tökum ábyrgð á kerfinu okkar sjálf?

"... auknar erlendar fjárfestingar...." af hverju?  Af hverju ættu erlendar fjárfestingar að aukast hérna?  Erlendir aðilar geta fjárfest hérna í dag og aldrei horft á eina íslenska krónu.  Þeir greiða fyrir allt í erlendri mynt og hafa sínar tekjur í erlendri mynt ef því er að skipta.  Skattkerfið ræður þar mestu um, og það virðist ekki mikill vilji hjá vinstriflokkum á Íslandi að lækka skatta.

".... minni gengissveiflur...." jú, það er rétt.  En ef við tökum aftur til afsögunar samlíkingarinnar, þá er þetta eins og að saga af sér lappirnar og vera ánægður með passa loksins í buxurnar frá því maður var lítill.

".... lægri skólagjöld erlendis....", og hvað?  Eigum við að afsala okkur fullveldi og láta allt ofangreint yfir okkur ganga, bara svo við getum borgað nokkrum þúsundköllum minna í skólagjöld í Bretlandi?

"... minni viðskiptakostnaður....", ekki endilega. 

"... bætt félagsleg réttindi....", bíddu ráðum við því ekki sjálf í dag?  Getur Jóhanna ekki bara lagt til breytingar í átt til þess sem menn eru sáttir við?  Af hverju þarf að ganga í ESB?

Nei, þessi "rök" Ágústs einkennast af flótta og leti.  Hann vill flýja í ábyrgðarleysi ESB, þar sem við ráðum engu og hann getur bara yppt öxlum þegar illa gengur og bent til Brussel, og svo þakkað sjálfum sér þegar vel gengur og talað um eigin fyrirhyggju að ganga í ESB.  Og leti, því hann vill ekki breyta hlutum sjálfur sem eru í dag á okkar valdi að breyta, hann bara gagnrýnir og talar um hvernig hann vill að hlutirnir séu öðru vísi, en er ekki tilbúinn að breyta þeim sjálfur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Promotor Fidei

bravó!

Promotor Fidei, 13.5.2008 kl. 10:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband