Ráðleysi míns flokks í borginni

Sjálfstæðisflokkurinn í borginni er ekki svipur hjá sjón.  Í raun er það mín skilgreining að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík sé hreint ekki Sjálfstæðisflokkurinn, heldur eitthvert samansafn pólitískra viðrina sem bera ekkert skynbragð á stjórnmál og eru algerlega og fullkomlega einangruð frá hinum almenna borgara.

Borgarstjórinn okkar er sennilega óhæfasti embættismaður sem sögur fara af, hann þorir ekki að mæta í fjölmiðla og standa fyrir sínu máli, og vogar sér svo að senda fótgönguliða sína fram á völlinn að krefjast þess að heilindi hans og dyggð verði ekki dregin í efa.  Nokkrum dögum eftir að hann réð til sín æskuvin sinn og pólitískan sálufélaga fyrir tugi milljóna á ári í laun.  Hvernig í ósköpunum fórum við að því að enda uppi með Ólaf F. Magnússon sem borgarstjóra?  Aðila sem rétt um 99% kjósenda hafa megnustu andúð á?  Þar er ábyrgð Sjálfstæðisflokksins mikil.

Vilhjálmur, gamli góði Villi, talar um að umræðan hafi verið Sjálfstæðismönnum erfið og annað slíkt.  Hann reynir að skapa fjarlægð á milli gengis flokksins annars vegar og hins vegar áliti kjósenda á honum persónulega, og liðinu sem er með honum.  Vilhjálmur minn, það er ekki umræðan sem er ástæða fylgishruns míns flokks í borginni, það eru ekki málefnin sem eru ástæða fylgishrunsins... það eruð þið sjálf.  Þið sjálf berið ábyrgð á þessu klúðri, þið berið ekkert skynbragð á stjórnmál og það er ekki bara þannig að þið getið ekki leyst eitt einasta vandamál sem til ykkar kemur, þið leggið lykkju á leið ykkar til að búa til ný vandamál þess á milli.

Fólk treystir þér ekki, Villi.  Hefur ekki gert síðan þú klúðraðir REI málinu svo konunglega.  Og það að þú skulir skella skollaeyrum við kröfum Sjálfstæðismanna (ekki bara kjósenda almennt, heldur kjósenda þess flokks sem þú átt víst að tilheyra) segir okkur bara það að þú telur þig yfir allt og alla hafinn.  Og þess vegna hrynur fylgið.  Þess vegna, og líka vegna þess að þú hefur sýnt það að þú getur ekki stjórnað fyrir fimmaura.

Kjartan Magnússon geislar af svikum og spillingu, maður bara fær það á tilfinninguna í hvert sinn sem hann birtist á skjánum að hann sé að ljúga.  Ég myndi EKKI kaupa notaðan bíl af þessum manni.  Aldrei.  

Gísli Marteinn gengst upp í "hlæjandi skólastrákurinn" gervinu, og það er orðið álíka þreytt og fyrsta breiðskífa Aha! flokksins.  Gísla er ekki hægt að taka trúanlegan, hann virðist ekki taka neitt alvarlega, og þegar hann gerir það, þá virkar hann eins og formaður málfundafélags.

Jórunn Frímannsdóttir er helst minnisstæð fyrir að láta eins og fúll smákrakki þegar Bingó sprengdi fyrsta meirihlutann "Við söknum þín sko ekki neitt!".  Hún er farþegi í borgarstjórn.

Júlíus Vífill er farþegi, hefur ekkert gert og axlar enga ábyrgð.

Það er kannski helst Hanna Birna sem sýnir smá lit, en eftir að vera í þessum arfaslaka hópi í borgarstjórn á hún sér ekki viðreisnar von.  

Þetta fólk hefur eyðilagt Reykjavík.  Ekki bara fyrir Sjálfstæðisfólki heldur fyrir borgarbúum öllum.  Þar sem áherslan liggur á að kaupa ónýta hjalla til að friða óvinsælasta borgarstjóra allra tíma.  Þar sem borgin drabbast niður í skít og ógeði eftir þaulsetu vinstrimanna áraraðir.  Þar sem skattar eru hæstu hæðum og peningarnir notaðir til að gambla út um allan heim í áhættufjárfestingum.

Þar sem uppgjafa Stuðmaður er ráðinn inn sem atvinnu-vinur borgarstjóra, því hann virðist ekki geta aflað sér bandamanna án þess að kaupa þá dýrum dómum.

Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn fái mun minna í næstu kosningum en 30%, ef þetta sama fólk vogar sér að fara aftur í framboð.  Helsti gallinn á kerfinu sem við búum við er sá, að mínu mati, að við getum ekki mætt á kjörstað og kosið GEGN einum flokki, því það er það sem ég myndi vilja gera.  

Frumskylda Sjálfstæðismanna er að tryggja framgang skynsemi og einstaklingsfrelsis í þjóðfélaginu, og í þeim efnum er stór hluti að koma í veg fyrir valdatöku vinstrimanna, sem eru boðberar hafta, skattpíningar, og almennrar óreglu.  Núverandi borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, botnfall íslenskra stjórnmála, hafa hins vegar ákveðið að hefja þessa lesti til hæstu hæða.  

Kjósendur eiga ekki að kjósa flokk sem þykist vera hægrisinnaður, en er svo vinstrisinnaðri en allt sem vinstrisinnað er, og í raun ofan í pilsfaldi Svandísar Svavarsdóttur, ef menn vilja vinstrimenn geta menn bara kosið einn þeirra fjölmörgu flokka sem hafa rottað sig saman á vinstrivængnum. 

Ég vona líka að minn flokkur sjái sóma sinn í því að taka þessa sjömenninga úr umferð hið snarasta og hreinlega banna þeim að bjóða sig fram í nafni Sjálfstæðisflokksins eftir 2 ár.  Ef það gerist ekki, þá mun ég bíða með að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þangað til gamli flokkurinn minn birtist aftur, ég hef ekkert með ræfilslegan vinstrimannaflokk að gera á mínum kjörseðli. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband