Magnús Þór Hafsteinsson - Messías stjórnmálanna (að eigins sögn)

Það er stórkostlegt að lesa pistil Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, varaformanns í Frjálsyndu-Nýju-Afli-Flokknum, á eyjan.is.  Stundum hef ég heyrt af fólki með Napóleonskomplexa, en ég efast um að nokkur komist með tærnar þar sem hann hefur hælana.

Gleymum ekki að Magnús fannst ótækt að Íslands tæki á móti flóttamönnum (einstæðum mæðrum) sem búa í tjöldum í flóttamannabúðum í Írak, það væri svo bágborið ástand á Skaganum að miklu betra væri bara að hjálpa fólkinu þar sem það er í dag, gefa því kannski skó og iPod.  Eða eitthvað.  En hvað um það, þjóðin þekkir öll afstöðu "Frjálslyndra" til innflytjenda; útlendingar eru víst hið besta fólk og þeim ber að sinna af kostgæfni... bara ekki hér.

En skoðun skrif Magnúsar, og spennið beltin, lesendur góðir: 

"Við vorum góður hópum sem bjó til framboðslista og við skelltum okkur í bæjarstjórnarslaginn. Þetta var og er gott lið - með örfáum undantekningum sem eru Karen og Helga systir hennar. Sennilega er ekki ofmælt að ég hafi verið potturinn og pannan á bak við það framboð. Hin voru öll algerlega óreynd í pólitík. Ég kenndi þeim og leiðbeindi. Á framboðsfundum var það ég sem hélt ræðurnar. Karen Jónsdóttir hefur aldrei geta haldið skammlausa ræðu eða skifað pólitíska grein. En ég taldi rétt að hafa hana í fyrsta sæti. Gefa ungri konu tækifæri og allt það...."

 Magnús var góðhjartaður og sá aumur á þessum viðvaningum, Magnús var heilinn á bak við allt pólitíska bröltið.  Reyndar voru þessar Helga og Karen einhver skoffín, Karen greinilega ótalandi og óskrifandi (hið týna -r- í skrifaði er ritun Magnúsar, gott að tala um hvað einhver sé lélegur að skrifa og stafsetja svo skammirnar vitlaust).  En Magnús, af því að hann er svo góður gæi, gaf henni séns.  Af því að hún er kona.

"Í aðdraganda Alþingiskosninga fyrir rúmu ári skarst í odda. Hún heimtaði að einhver frá Akranesi færi í annað sæti á framboðslista Frjálslynda flokksins í Norðvestur kjördæmi. Lýðræðisleg niðurstaða kjördæmisráðs var hins vegar sú að Kristinn H. Gunnarsson færi í það sæti."

Kristinn, sem er pólitískur sígauni og hefur komið við, held ég, í öllum stjórnmálaflokkum landsins (og er þar þangað til menn fá nóg af honum) fékk afhent annað sætið í kjördæminu á eftir formanninum, og þar með voru 2 efstu menn á listanum frá Vestfjörðum; í kjördæmi sem spannar frá Akranesi til Sauðárkróks (held ég).  Þvílík ósvífni að fara fram á að fulltrúar flokksins kæmu frá öðrum stöðum en kjálkanum.

"Mér fannst Gísli ágætis karl, hann gjörþekkti Skagann og hafði mikla reynslu af félagsmálum bæði í sveitarstjórn og á Alþingi. Bæjarstjóraspurningin var opin, en þegar Sjálfstæðismenn stungu upp á því tveim dögum eftir kosningar að Gísli yrði bæjarstjóri þá samþykkti ég það. Ég kenndi að vissu leyti í brjósti um karlinn. Hann sem fyrrverandi þingmaður var í volæði inni í álveri á Grundartanga. Nöturleg örlög fyrir gamla manninn. Hvers vegna ekki að leyfa karlinum að spreyta sig?

Ég sagði JÁ, og frelsaði Gísla þar með úr rykinu í álverinu.
"

Þetta er uppáhaldshlutinn minn.  Magnús frelsaði gamla manninn úr ánauð í álverinu, þar sem hann var að dauða kominn.  Magnús kominn, frelsarinn sjálfur, og bjargaði honum!  Húrra fyrir Magnúsi!

Ég vil svo að lokum birta ummæli eftir Magnús títtnefndan sem Hafrún Kristjánsdóttir birtir á bloggi sínu á eyjunni.is, og sýnir kannski enn betur þankagang varaformanns Frjálslynds-Nýs-Afls

"Ekki gleyma því að svína á Hellisheiðina, fara gegnum Þrengslin, lenda svo Spittfærnum á Kaldaðarnesmelum, fljúga svo norður í Eyjafjörð yfir Kjöl, sprengja Stebbafr og Halldór Blöndal til helvítis, snúa svo til baka yfir heiðina og bomba Björn Bjarna og borgarstjórnarminnihlutann hálfa leið til andskotans og lenda svo við gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli og hrynja í það á kránum í Miðbænum."

Já, tökum barasta hringinn og myrðum óbreyttan borgara fyrir að tjá skoðanir sínar (eða ekki, þar sem Stefán er nú ekki mikill skoðanamaður, meira svona jórturdýr bloggsins), og ráðherra og aðra embættismenn, og endum svo góðan dag með því að deyja áfengisdauða í miðbænum.  Segir varaformaður Frjálslynda flokksins.   

En hvernig er það, Stefán og Halldór eiga að fara "til helvítis" en Björn og borgarfulltrúarnir bara HÁLFA leið til andskotans.  Þýðir það þá að Björn og borgarfulltrúarnir eiga að ganga í Frjálsynda flokkinn? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband