Blöff ESB trúboðanna kallað

Nú eiga sér stað merkir atburðir.  Í fyrsta lagi að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ákveðið að kanna með afsal hluta fullveldis til Báknsins í Brussel í fullri alvöru og því ýjað að því að nú sé fullreynt með fullveldi þjóðarinnar og líklegast séu Þjóðverjar og Frakkar betur til þess fallnir að ákveða hvað megi og hvað ekki á Íslandi.   Gott og vel, það er svo sem skoðun.

Í öðru lagi er það að ESB trúboðarnir sem hafa staðið í júníformi undanfarna mánuði og reynt að notfæra sér ástand í efnahagsmálum heimsins til að þröngva landinu inn í ríkjasamband Evrópu - samband sem er í gríðarlegri tilvistarkreppu sem ekki sér fyrir endann á.  Hin lymskulegu rök sem ESB trúboðið hefur notað er að krónan sé ónýt og það verði að taka upp aðra mynt, ósjálfstæða.  Stærri.  Því einhvern veginn er það mælieiningu á heilsu hagkerfisins að kenna að hér ári illa.  Þetta eru svo sem rök sem maður ætti ekki von á frá lágvöxnu fólki - að kenna metrakerfinu um að það sé lágvaxið og nauðsynlegt sé að taka upp aðra mælieiningu.  Eins og það breyti einhverju.

Svo þegar tekið er undir blöffið hjá trúboðunum og sagt, "ok, gefum okkur að krónan sé ónýt, hvað þá með að taka upp dollar?" Neineinei, það er alveg ómögulegt, evran er málið.  "En hvað með samnorræna mynt, svona í ljósi þess að rétt um 25% okkar viðskipta eru í evru, svipað og með norrænu myntirnar?" Neineinei, það er líka alveg ómögulegt.

Það er ekki að krónan sé ónýt, málið er að kaffistofukverúlantarnir á Bifröst vilja komast til Brussel.  Það má bara ekki segja beint út: "mér finnst að Ísland eigi að afsala sér fullveldi um aldur og ævi, og ómerkja þannig starf fjölmargra sjálfstæðishetja undagenginna alda, svo ég geti fengið að sitja í nefndum og ráðum með júrókrötum í Brussel".  Það er stílbrot, einhvern veginn.  

Málið er einfaldlega að ESB aðild er, þegar allt er til tekið, líklegast slæm fyrir Ísland.  Krónan er ekki vandamálið, heldur það sem gerir það að verkum að krónan sveiflast svona mikið.  Og ástæður sveiflunnar hverfa ekkert þó við tökum upp evru.  Við sitjum samt sem áður uppi með utanríkisráðherra sem eyðir milljörðum í framboð til SÞ, samgönguráðherra sem borar göng í gegnum afskekkt fjöll, heilbrigðis- og menntakerfi sem sýgur til sín fjármagn í skjóli ríkiseinokunar og óráðsíu.  Við fáum engar erlendar matvörubúðir, matur á ekkert eftir að lækka.  

Mér finnst það of mikil fórn til þess eins að einhverjir fótgönguliðar í Samfylkingunni geti fengið áskrift að nefnalaunum í Brussel.

Kannski ætti Samfylkingin, og Björn Bjarnason, að gera þá kröfu að við, sem þjóð, lærum að fara með fullveldi okkar og fjárræði, áður en við hlaupum í pilsfaldinn hjá ESB og biðjum um að fá að fara á spenann. 


mbl.is Ríkisstjórnin ræði evrumál við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rosalega ertu vitlaus :)  húrra fyrir þér :)

Einar (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 12:53

2 identicon

Einar: Vitsmunir þínir virðast vera gífurlegir, enda góð rök á ferð hjá þér.

Gulli (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 18:20

3 identicon

Jamm - vitsmunir mínir eru a.m.k. nægilega miklir til að hafa vit á því að eyða ekki tíma í að svara svona rugli.  Held meiraðsegja að ég hafi skrifað meira af viti í minni 1 línu en Liberal í þessu allt of langa rausi sínu.  Allveg til í að rökræða málin við verðuga andstæðinga, en það sem stendur hér að ofan gefur bara ekkert tilefni til þess að halda að hægt sé að ræða málin að viti.  Þess vegna segi ég "Húrra fyrir þér", því það er árangur að vera svo út í hött að enginn nenni að ræða við menn málefnalega.  Þetta rugl endurspeglar ALLT sem er rangt við evrópu-umræðuna í dag - óháð því hvort menn séu með eða á móti.  Bara í 1. málsgrein tekst Liberal að koma með 5 staðreyndarvillur.  Órökstutt bull... 

Einar (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 09:24

4 Smámynd: Liberal

Ég hvet hinn rökfasta og skynsama Einar (IP tala skráð) að benda mér á þessar 5 rökvillur í minni fyrstu málsgrein.

Í málsgreininni fullyrði ég að við afsölum okkur fullveldi, sem er óumdeilt enda myndi stjórnarskrá Íslands ógildast sem æðsta skjal í löggjöf landsins, og ákvarðanavald í mörgum málum myndi færast frá Alþingi til Brussel.

Svona nú, Einar (IP tala skráð), varla ertu ómerkingur orða þinna?!

Það sem einkennir ESB umræðuna er tvennt.  Annars vegar þessir heittrúuðu sem mega ekkert slæmt heyra um ESB, og hins vegar að þessir sömu vilja meina að allir sem eru ekki á sömu skoðun og þeir séu að "kæfa umræðuna" eða "séu ekki búnir að gera upp hug sinn".

Það er mjög fámennur hópur sem langar inn í ESB í dag af þeim 300 milljónum sem búa í Evrópu.  Á meðan íbúar sambandsins hafna því hvernig málum er þar háttað og hvert sé stefnt, þá eru kratar og allaballar á Íslandi blindir af ESB dýrkun sinni og taumlausri þrá í að afsala sér fullveldinu sem við höfðum svo mikið fyrir að ná.

Einar, ég er kannski vitlaus en ég hef þó sjálfsvirðingu og metnað, sem er meira en sagt verður um þig (sem ESB sinna, þú ert eflaust ágætis meðalmaður í eigin persónu). 

Liberal, 15.7.2008 kl. 21:33

5 identicon

Villurnar 5 í fyrstu málsgrein eru:
1) "Sjálfstæðisflokkurinn hefur ákveðið að kanna".  Þrátt fyrir BB slái einhverju fram þá hefur ekki átt sér stað stefnubreyting hjá flokknum.
2) "nú sé fullreynt með fullveldi þjóðarinnar".  Þetta er bara þín túlkun og telst vart sannleikur.  ESB er ríkjasamstarf fullvalda þjóða.  Ef hagsmunum okkar er betur varið innan ríkjasamstarfsins, þá er það hlutverk okkar sem fullvalda þjóð að taka þátt í slíku samstarfi.  Í fullveldinu fellst einnig að sá möguleiki er til staðar að slíta samstarfinu.  Það dettur engum í hug að halda því fram að Danmörk sé eitthvað síður fullvalda þjóð en Ísland þrátt fyrir að þeir séu í ESB.  Með inngöngu værum við ef eitthvað er að endurheimta fullveldið sem tapaðist með EES þar sem við gætum haft virkan aðgang að ákvörðunarferlum ESB í stað þess að vera í dag aðeins í hlutverki innleiðenda evróputilskipana.
3) "...Þjóðverjar og Frakkar betur til þess fallnir að ákveða hvað megi og hvað ekki á Íslandi".  Þjóðverjar og Frakkar stjórna ekki evrópusambandinu.  Sjálfur sit ég í 2 nefndum undir hatti ESB, og ég get fullyrt að mikrófónninn hjá þjóðverjanum er ekkert hærra stilltur en minn.  Það er einfaldlega hlustað á þau rök sem menn koma fram og eitthvað vit er í.  Þetta er bara maður að ræða við mann.  Ekki þjóð að takast á við stærri þjóð.  Ef eitthvað er, þá verður maður frekar einmitt var við tortryggni gagnvart stærstu þjóðunum sem verður til þess að þeir þurfa að leggja enn meira á sig til að sannfæra aðrar þjóðir um ágæti þeirra tillagna sem þeir vilja ná í gegn.
4) "...Þjóðverjar og Frakkar betur til þess fallnir að ákveða hvað megi og hvað ekki á Íslandi".  Önnur villan í þessu snýr að "betur til þess fallnir".  Staðreyndin er sú að í dag er það ESB sem leggur okkur línurnar svo til á öllum sviðum nema e.t.v. í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum og utanríkismálum.  Hér er því ekki um að ræða neitt sérstakt endurmat á því hver sé betur til þess fallinn.  Reyndar verð ég að viðurkenna að ef spurningin um traust á stjórnvaldi til að fara með lagasetningarvald í ofangreindum málaflokkum, þá tel ég ESB mun hæfara til að leggja okkur línurnar en þeim sem í dag fara með sérhagsmunagæslu á þessum sviðum.
5) "Nú eiga sér stað merkir atburðir...".  Það telst vart til merkra atburða að BB rausi eitthvað á bloggi sínu.  Sérstaklega ekki þar sem þingmenn flokksins hafa nú verið sérlega duglegir að henda fram alls kyns hugmyndum til að dreifa umræðunni - allt undir hattinum "Allt nema ESB".
Mér finnst fyndið hvernig þú lýsir sjálfum þér: "Liberal er talsmaður einstaklingsfrelsis, afnámi hafta, og lágmörkunar ríkisafskipta. Liberal er talsmaður skynsemi og frjálslyndis."  Þessi lýsing fer einstaklega illa saman við andstöðu við ESB.  Innleiðing Evru eykur einmitt einstaklingsfrelsi - við verðum ekki lengur bundin íslenskum bankastofnunum með sama hætti, markaðssvæðið stækkar, netverslun okkar innan ESB ætti að geta eflst til muna.  Höftin munu vissulega minnka með inngöngu í ESB.  Þrátt fyrir að ESB sé að einhverju leiti "bákn", þá eru þær reglur sem þar er unnið að fyrst og fremst miðaðar við að tryggja jafnan samkeppnisgrundvöll, sérstaklega á milli þjóða.  Krafturinn sem hefur komist í einkageiran undanfarin ár má rekja til innleiðingar á reglum frá ESB í gegnum EES samningin.  Það er því ljóst að sú skynjun sem þú hefur á sjálfum þér er algjörlega á skjön við málflutninginn.
Ég get ekki séð hvernig sjálfsvirðing og metnaður tengist þess máli.  Það er aðeins út af því að þú hefur einhverja brenglaða sýn á þjóðernishyggju að þér dettur í hug að segja þetta.  Ertu með þessu að segja að bankastjórarnir okkar hafi ekki metnað?  Ertu með þvessu að segja að t.d. Ingibjörg Sólrún hafi ekki sjálfvirðingu?  Ég veit ekki hver þú ert en ég hugsa að það sé engin munur á metnaði okkar og sjálfsvirðingu þó svo að þú viljir ekki ganga í ESB og ég vil það.
Eitt er þó rétt sem þú segir.  Ég er ágætis meðalmaður :)

Einar (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 10:17

6 Smámynd: Liberal

1) Sjálfstæðisflokkurinn hefur víst ákveðið að kanna þetta, bæði með nefndinni sem nú starfar og líka með því að Geir hefur lýst því yfir að hugmyndir Björns skuli skoða nánar. 

2) Það er óumdeilt að aðild að ESB felur í sér afsal fullveldis.  Danir eru ekki fullvalda þjóð í sama skilningi og við því þeir taka við ákvörðunum og tilskipunum frá ESB í mun meiri mæli en við í gegnum okkar EES aðild.  Ef við fáum að ráða okkar málum í dag, en við inngöngu í ESB færist ákvarðanatökuvaldið til ESB.  Ekkert voðalega flókið.

3)-4) tvítelur, þessar þjóðir eru stærstar í ESB og hagsmunir þeirra ráða þar af leiðandi mestu. 

5) Jú, það er merkilegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli íhuga að afsala sjálfstæði þjóðarinnar.

Annars útskýrir margt að þú skulir uppljóstra að þú sért á ESB spenanum.

Liberal, 16.7.2008 kl. 13:31

7 identicon

Er ekki á neinum ESB spena.  Stunda bara mína vinnu að kappi og fæ ekki krónu greidda aukalega fyrir að vera fulltrúi í þessum nefndum.  Hvaða hagsmuni telur þú þig vera að vernda með því að vera ekki í ESB?  Þú slærð um þig með áróðursorðum eins og afnám fullveldis og ESB bákn, en hvað er málið?  Þetta tvennt hefur nákvæmlega engin áhrif á þig og þitt líf.  Hugsaðu aðeins málið hvað það er sem raunverulega býr á bakvið þessari ESB andstöðu... getur það verið að þú hafir apað skoðunina upp eftir Dabba og búinn að grafa þér of djúpar skotgrafir til að komast upp aftur?

Einar (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 13:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband