Samfylkingin krefst fullveldisafsals... til hvers?
17.7.2008 | 08:30
Samfylking er sá flokkur sem hvað harðast gengur fram í því að afsala okkur fullveldinu, og virðist njóta í þeim tilgangi liðsinnis einstaka Framsóknarmanns og erlendra leigupenna. Reyndar hefur það verið svo að þegar líður að kosningum þá stingur Samfylkingin ESB umræðunni ofan í skúffu og dregur upp umhverfis-snobb hattinn sem passar svo prýðilega á höfuð formannsins í aðdraganda kosninga, en sá háttur hverfur jafnharðan ofan í skúffu aftur þegar kosningum er lokið og hægt er að snúa sér að "atkvæðalega meira ögrandi málefnum".
Það er ekkert launungarmál að þau "rök" sem Samfylkingin og sértrúarsöfnuðurinn í kringum ESB notar halda ekki vatni þegar í er rýnt.
Gjaldmiðill landsins er ekki vandamálið, gjaldmiðillinn er einfaldlega mælieining á ástand hagkerfisins hverju sinni, og vandamálið er hagkerfið, ekki mælieiningin. Þetta er soldið eins og ef hinir lágvaxnari fyrirmenn Samfylkingarinnar vildu ólmir leggja niður metrakerfið því það væri handónýtt fyrir þann hluta þjóðarinnar sem er undir meðalhæð.
Vextir á Íslandi í dag eru nákvæmlega þeir vextir sem hagkerfið "spýtir út". Þjóðin hefur verið á neyslufylleríi (háir vextir hafa lítið með útrás bankanna að gera eða framkvæmdir fyrir austan); venjulegt launafólk hefur lifað um efni fram og tekið lán fyrir lífsgæðakapphlaupinu án forsjár en af þeim mun meira kappi, og nú er komið að skuldadögum. En auðvitað er það erfitt fyrir varaformann Samfylkingarinnar að mæta í sjónvarp og segja sannleikann, miklu betra að nota tækifærið og viðra áhugamál sitt. Svo væri líka ómögulegt fyrir Eirík Bergmann að koma sér daglega í pressuna án þess að hafa neitt annað fram að færa en brennandi áhuga sinn á því að komast til Brussel. Innganga í ESB myndi þýða annað tveggja, annað hvort sveiflast hagkerfið hérna í takt við ESB og þá eru vextir hér alltaf "réttir"... en til hvers þá að ganga í ESB því ef við sveiflumst í takt við sambandið þá yrðu vextir í krónuhagkerfi hvort eð er hinir sömu? Nú eða þá, sem er líklegra því hagkerfi Íslands og ESB sveiflast svo að segja andstæð hvor öðru, að hér yrðu alltaf "rangir" vextir miðað við ástand efnahagsmála, sem þýðir að þegar er niðursveifla væru vextir lágir (sem myndi dýpka niðursveifluna) eða of háir þegar er uppsveifla (sem ýtir undir verðbólgu). Og þar sem stjórnvöld hefðu ekki lengur stjórn á vöxtum væri stýring í gegnum atvinnuþátttöku eina úrræði stjórnvalda til að halda verðbólgu niðri, þ.e.a.s. ríkið myndi segja upp fólki í stórum stíl.
Ef ganga í ESB til að lækka tolla á innflutning, af hverju getum við ekki gert það sjálf, án þess að ganga í ESB? Ráðum við ekki okkar tollum og álögum sjálf í dag? Er eitthvað líklegra að ráðherrar lækki tolla með því að ganga í ESB frekar en að lækka tollana sjálfir? Þarna vill Samfylkingin saga af sér fótinn til að skipta um skó.
Í dag mega erlendar verslanir opna útibú hér á landi eins og þeim sýnist. Halda menn að Tesco eða SPAR muni opna búðir hérna, bara rétt si svona, þegar við erum komin í báknið í Brussel? Varla. Fyrst ekki sjá þau tilganginn núna, þá sjá þau hann ekki eftir að við erum búin að afsala okkur fullveldi.
Málið er það að margir "embættismenn" vinna við það á Íslandi í dag að vera hluti af þessu tilgangslausa bákni ESB og verja það með oddi og egg. Auðvelt starf og þægilegt.
Hugsið um eitt, fyrir 3 árum eða svo greiddu þjóðir ESB atkvæði um nýja stjórnarskrá sambandsins. Lýðræðislegri kosningu. Íbúar nokkurra landa felldu stjórnarskrána og höfnuðu ESB í þeirri mynd sem einhver fámennur fyrirmennaklúbbur evrukrata hafði kokkað upp. Í ár var stjórnarskráin barasta lögð fram aftur, rétt si svona, en nú var sagt við kjósendur landanna: "þið fáið ekki að kjósa um þetta aftur, við vitum hvað er ykkur fyrir bestu". Nema á Írlandi, þar sem kjósendur fengu að segja sína skoðun. Og höfnuðu stjórnarskránni. Og hvað segir svo Nicolas Sarkozy í gær? Jú, að mikilvægt sé að Írar kjósi aftur!
ESB stundar lýðræði og vill að kjósendur segi sína skoðun, en bara ef hún er "rétt" og fellur ESB í geð. Aðrar skoðanir eru ekki leyfðar.
Soldið eins og Samfylkingin. Kosning um stækkun álversins í Straumsvík? Skipti engu, því álverið stækkar samt sem áður með aðstoð Samfylkingarinnar. Flugvöllinn burt? Ingibjörg Sólrún breytti reglunum eftir á til að fá "rétta" niðurstöðu. Ásakanir um að ESB umræðan sé kæfð og Sjálfstæðisflokkurinn ekki búinn að "gera upp hug sinn"? Nei, margir eru bara einfaldlega á móti ESB aðild Íslands, en það getur Samfylkingin ekki viðurkennt eða virt. Þeir sem eru ekki sammála Samfylkingunni eiga bara að hugsa málið áfram alveg þangað til þeir verða sammála Eiríki og Ágústi Ólafi. Því að vera ósammála þeim er einfaldlega ekki skoðun.
Kafað og kortlagt fyrir Evrópuumræðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvað er fullveldi ? Að sitja ein og áhrifalaus á kanti veraldar og trúa því að við ráðum öllu...getum allt og séum klárust ? Fullveldi er að taka þátt í samfélagi þjóðanna og hafa áhrif....Við erum með EES samning þar sem 80% þess sem hér gerist er ákveðið af öðrum án okkar aðkomu....
Hvað öld er hjá þér væni ??????
Jón Ingi Cæsarsson, 17.7.2008 kl. 09:31
Fullveldi er t.d. það að ráða því sjálf hvaða tollar gilda á Íslandi. Að hafa utanríkisstefnu sem markast ekki af því hvað kanslara Þýskalands finnst hverju sinni. Að lög þau sem fulltrúar okkar á þingi okkar setja gildi hér á landi, en ekki lög franskra atvinnu-bjúrókrata.
Ég vil þakka þér fyrir að sanna fullyrðingu mína þess efnis að þeir sem hvað harðast ganga fram í ESB prédikununum gera svo í krafti rangfærslna og hreinna og beinna lyga, enda virðist málstaðurinn ekki þola neitt minna. "80% þess sem hér gerist er ákveðið af öðrum án okkar aðkomu...." segir margt um þín rök. Kannski áttu við að við höfum tekið upp 80% af lögum um hinn innri markað ESB, sem er satt og rétt, en er langt í frá að vera 80% af lögum ESB (eins og sumir minni prestanna í ykkar hjörð halda fram) og þaðan af síður eru það 80% af ÖLLU sem gerist hér.
Hvernig er það annars í huga ykkar ESB aðdáenda, á sama tíma og þið jarmið hvað hæst um að við hreinlega VERÐUM að fara í ESB, þá eru ykkar stjórnmálamenn á fullu að fá undanþágur frá reglum sem við þó höfum skuldbundið okkur að fara eftir? Eruð þið ESB sinnar bara svona "allt-í-plati-ESB" gaurar, sem viljið ganga í ESB en bara fá öll réttindin en hafna öllum skyldunum? Það væri svo sem krötunum líkt að fara fram á slíkt.
Kannski er munurinn á okkur sem viljum EKKI í ESB og ykkur sem viljið fyrir alla muni inn í ESB sá að við vitum að við fáum ekki undanþágur frá öllu sem við viljum, á meðan þið haldið að ESB sé einhvers konar hlaðborð þar sem hægt er að velja og raða.
Hjá mér er að endingu 21. öldin, og 64 ár síðan landið fékk fullveldi. Mér finnst ansi hart að þið sem eruð litlu eldri en lýðveldið skulið vilja færa okkur aftur til 19. aldar og undir forræði yfirvalds á meginlandi Evrópu.
Liberal, 17.7.2008 kl. 09:51
Kærar þakkir fyrir góðan pistil Liberal
Íslendingar virðast almennt halda að ESB sé einhverskonar gjaldmiðill. En svo er ekki. ESB er að verða elliheimili þar sem vonir um miklar og góðar skattahækkanir fyrir alla munu halda áfram að rætast, alveg af sjálfu sér. Það verður nú munur þegar þegnum í ESB verður gefinn kostur á að kjósa sig til auðæfa Íslendinga. Þá verður nú glatt á hjalla.
Gleðifréttir úr gamla heiminum í ESB
Írar líta nú öfundaraugum til íslensku krónunnar - þ.e. til þeirra kosta að vera sjálfstæð þjóð með eigin gjaldmiðil sem getur gefið eftir þegar á þarf að halda. Núna eru þeir með steypuklossa um hálsinn sem heitir evra.
If all else fails, then maybe it's time to ditch the euro
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 17.7.2008 kl. 11:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.