Sjálfstæðisstefnan er horfin, miðstéttin er án talsmanns

Ef vel hefði verið við hlustir lagt hefði mátt heyra þrusk í kirkjugörðum landsins síðustu vikur og mánuði, þegar öflugustu kyndilberar einstaklingsfrelsis og sjálfstæðis í gegnum söguna sneru sér við í gröfum sínum, allt frá Jóni Sigurðssyni.

Sjálfstæðisflokkurinn, minn flokkur í gegnum tíðina, hefur gengið að sjálfstæðishugsjóninni dauðri og breytt flokknum mínum í klasturskennt miðjumoð sósíaldemókratísks lýðskrums.  Í mínum huga er enginn munur í dag, eftir fréttir um fjárlagafrumvarpið, á Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum tíðina lagt sig í líma við að tryggja frelsi einstaklingsins og minnka umsvif hins opinbera.  Sjálfstæðisflokkurinn undanfarin 3-4 ár, eða svo, hefur lagt sig fram um að skerða rétt einstaklinga og nú síðast með þjóðnýtingu vel rekins fyrirtækis og svínaríi á ellefu þúsund hluthafa fyrirtækisins sem eru margir hverjir rúnir varasjóði sínum.

Áður en gáfnaljós eins og Egill Helgason fara að tjá sig um þetta mál af valinkunnri vanþekkingu, þá má líkja ástandi fjármálamarkaða við eftirfarandi dæmisögu sem allir geta skilið, svona ef við rýnum í söguna eins og hún hefur verið sett fram í fjölmiðlum undanfarna daga:  Þú ert í góðri vinnu og hefur fjármálin á hreinu, svona eins og frekast er unnt í óðaverðbólgu og óvissu.  Þú ert reyndar með yfirdrátt í bankanum upp á 300þ sem er ekkert stórmál, þú ætlar bara að borga hann niður hægt og rólega ásamt öllum öðrum skuldum þínum og hefur til þess plan (hafa vinnu, spara peninga, eyða ekki um efni fram o.s.fr.).  Nú er 15. dagur mánaðarins og allt í einu hringir bankinn í þig og segir að þú hafir 7 daga til að borga niður yfirdráttinn, verði það ekki gert muni hann ganga að eigum þínum.  Þú hváir og segir að þú fáir nú ekki útborgað fyrr en eftir 15 daga, þú þurfir einfaldlega meiri tíma.  Nei, segir bankinn, þú skalt borga innan viku annars verði húsið þitt selt á uppboði.  Þú ferð í aðra banka og reynir að fá yfirdrátt þar, í von um að þeir verði sanngjarnari, en allt kemur fyrir ekki.  Enginn er til í að lána þér, frekar en nokkrum öðrum.  Að lokum ferðu til "ríkisbankans" í von um að þar verði þér sýnd sanngirni.  Sem og gerist.  Ríkisbankinn gerir þér það kostaboð að kaupa af þér húsið þitt á 300þ krónur svo þú getir borgað bankanum þínum, og svo máttu búa í húsinu eitthvað aðeins áfram, en færð engu ráðið um hvernig það mun koma til með að líta út eða hvort einhver einstök herbergi verði leigð út til annara.  Og þjónustufulltrúi ríkisbankans kemur svo fram nokkrum dögum síðar og segir að þarna hafi þeir sko gert "dúndur bisness!".

Glitnir ert þú, í þessari sögu.  Menn geta alltaf sagt að kannski hefðir þú, eða bankinn, ekki átt að taka yfirdráttinn til að byrja með.  Kannski ætti aldrei neinn að taka lán.  Það væri þá áhugaverður heimur.  

Pétur Blöndal er þjónustufulltrúinn og talar um þjóðnýtingu sem "dúndur bisness".  Það er ekki sjálfstæðisstefnan.

Davíð Oddsson og Geir Haarde þjóðnýta vel rekið fyrirtæki þegar aðrar leiðir ku hafa verið færar, að mati þeirra sem hafa tjáð sig um þau mál síðustu daga.  Þjóðnýting með það að leiðarljósi að láta ríkið græða er ekki sjálfstæðisstefna.  Það er það sama og Pútín gerði með Yukoz olíufyrirtækið. 

Og nú síðast leggur Árni Matt fram fjárlagafrumvarp sem miðar að því að reka ríkissjóð með sextíuþúsundmilljóna tapi á næsta ári.  Engin tilraun er gerð til að skera niður útgjöld ríkisins samhliða minnkandi tekjum.  Bara reka með tapi og láta svo kjósendur borga brúsann.  Þegar allir aðrir eru beðnir um að spara, skera niður, sýna ráðdeild, þá kemur ríkið (stærsti einstaki þátttakandinn í íslensku hagkerfi) og fer í þveröfuga átt.  Eykur þenslu (sem mun seinka vaxtalækkun Seðlbankans og auka verðbólgu) með tilheyrandi verðhækkunum á mat og nauðsynjum til almennings.  En það verður væntanlega allt þess virði þegar við fáum sæti í Öryggisráðinu og getum fjölgað í sendinefnd okkar hjá SÞ upp í 40 manns eða svo.  Það verður gott til þess að vita þegar bensínlítrinn verður kominn í 200 krónur og mjólkurlítrinn í 150 kr.  

Á næsta ári ætlar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að eyða um 600 milljónum af almannafé (1% af fjárlagahallanum) í íslenska skálann á heimssýningunni í Peking.  Af því að henni finnst það svo góð hugmynd.  Ekki dettur ríkisstjórninni í hug að spara, eins og krafa er gerð á almenning um að gera, þegar að kreppir.  Þá fara kratarnir af stað og vilja eyða eins og enginn sé morgundagurinn.

Ég hef því tekið þá ákvörðun að ég ætla ekki að eyða atkvæði mínu á vinstrimenn frekar en áður, vera trúr mínum hugsjónum.  Ég ætla því ekki að kjósa Sjálfstæðisflokkinn framar í kosningum nema snúið verði aftur á braut þeirra hugsjóna sem ég, og þúsundir annara frjálshyggjumanna höfum aðhyllst og barist fyrir.  Ef ég vildi kjósa kommúnista og sósjalista, þá myndi ég kjósa Samfylkinguna eða Vinstri Græna, ekki kommúnista og sósjalista sem dulbúast sem Sjálfstæðismenn. 


mbl.is Reiknað með halla á fjárlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Johnny Bravo

Sæll,

Vertu alveg rólegur menn eru bara að bíða af sér þessa ríkistjórn, það þarf að semja til að koma einhverju til öðru til leiðar.

Við urðum að grípa þennan vonlausa banka, að það sé bissness var bara bónus.

Það á að selja þetta aftur enda eru þetta bara hlutabréf, ekki ohf eða annað.

En ég vill heldur ekki sjá að menn séu með halla, það er 1% atvinnuleysi og spáð er lítilli eftirspurn og atvinnuleysi á næsta ári.En halli heldur verðbólgunni bara sterkri og er engin lausn til langs tíma.

Davíð tók við 1990 lokaði sjóðasukki og vildi ekki halla, við fengum vaxandi atvinnuleysi til 1995 og þetta gaf svo samfelt góðæri í frá 1994-2007 með 4% launahækkunum umfram verðbólgu. í allt 60% meira fyrir peningana.  Allt þetta af því að hann trúði í liberalisman og þorði að framkvæma það sem hann trúði á.

Ingbjög Sólrún er 6ma. konan, var borgarstjóri í 10ár og skyldi eftir sig 60ma. aukningu á skuldum.

Við erum næstum alveg sammála um flest en segðu ekki að Glitnir sé vel rekið fyrirtæki, þeir þykjast hafa verið með veðpakka, en þetta var banki með fallandi eiginfjárhlutfall og stærsti viðskiptavinurinn var gjaldþrota papírusfyrirtæki. Þetta lítur bara vel út að gera þetta svona styrkir lánamarkaðinn þar sem lánstraustið er aðalatriðið. Við þurfum að fá peningana til að flæða inn aftur, hægt og rólega.

Johnny Bravo, 1.10.2008 kl. 09:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband