Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008
Allir vinna... nema íslenskir neytendur
27.5.2008 | 18:20
Til hamingju Vinstri Grænir, nú hafið þið unnið sigur í þessu mikilvæga máli gegn íslenskum neytendum. Við höfðum möguleika á að fá mun ódýrari matvæli en hið ónýta landbúnaðarkerfi skammtar okkur, en ykkur tókst af miklu harðfylgi að koma í veg fyrir að við fengjum meira fyrir aurinn.
Því útlenskt kjöt er svo baneitrað, segið þið. Stórhættulegt. Ekki fólki bjóðandi. Alla vega ekki Íslendingum (því við erum víst betri en allar aðrar þjóðir). Það er víst ótrúlegt að við sem ferðumst í útlöndum skulum yfirleitt lifa af ferðalagið og ekki hreinlega springa í loft upp af öllu eitrinu.
Íslenskir bændur vilja þetta auðvitað ekki, því þeir búa í ónýtu kerfi og geta ekki (og vilja ekki) keppa við erlent kjöt sem er bæði betra og ódýrara en það sem þeir bjóða. Kjúklingabringur skulu sko kosta 2500 kr/kg og engar refjar.
Vinstri Grænir vilja auðvitað ekkert innflutt, því það gerir það að verkum að ríkisrekið landbúnaðarkerfi minnkar að umsvifum, og allt sem minnkar aðkomu ríkisins er bannað í huga Vinstri Grænna.
Takk, Vinstri Grænir, fyrir að bregða fæti fyrir neytendur og standa vörð um miðaldakerfi sem heldur bændum og heimilum í fjötrum. Það má alltaf stóla á ykkur til að standa vörð um ónýt kerfi og skammtakerfi.
Matvælafrumvarpi frestað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þessi lögga verður vonandi án atvinnu á morgun
27.5.2008 | 15:48
Algerlega óverjandi með öllu. Enda myndi ég segja að það væri óásættanlegt ef þessum aðila yrði ekki vikið úr starfi strax.
En það gat auðvitað verið að umræða færi að snúast upp í það að lögreglan sem heild sé óhæf, og einhvern veginn vilja menn blanda inn í þessa umræðu tazer byssum.
Svo á örugglega einhver eftir að krefjast þess að Björn Bjarnason segi af sér út af þessu, því það verða jú alltaf til hálfvitar.
Eitt rotið epli í lögreglunni (og þau eru örugglega fleiri) er engin ástæða til að banna eðlilegan útbúnað lögreglunnar, sem er nú þegar vanbúin í átökum við harðsvíraða krimma. Auðvitað á að láta lögregluna frá stuðbyssur (sem eru sennilega öruggasta varnartækið sem lögreglan getur fengið, þó svo að útúrsnúningar á rannsóknum séu ofarlega í huga VGista).
Það verða alltaf óhæfir aðilar í lögreglunni, það eru til kennarar sem eru algerlega misheppnaðir í starfi (og sem beita nemendur ofbeldi), prestar, læknar, götusóparar. Eigum við að láta setja upp eftirlitsmyndavélar í skólastofum bara vegna þess að einn kennari gerist sekur um ofbeldi? Hvað með að gelda alla presta? Bara svona til öryggis.
Margir virðast algerlega ófærir um að hafa hlutina í samhengi og keppast um titilinn, Dramadrottning Bloggsins, og eru þar margir tilkallaðir. En skynsemin segir okkur að þarna hafi aðili gerst sekur í starfi, á því skal tekið (það er sjálfsögð krafa), og honum vikið úr starfi sínu. Punktur. Framferði þessa aðila segir ekkert um mögulegt framferði allra hinna 99.5% lögreglumanna sem standa vörð um okkar öryggi.
Lögregla fer yfir atvik í 10/11 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nú? Allar fimm?
27.5.2008 | 13:03
Frjálslynt Nýtt Afl er nú svona örflokkur, nýtur lítils sem einksis fylgis, og þegar maður deilir í þá sem elta þetta fyrirbæri með tveimur (til að fá út fjölda kvenna) þá er sennilega fjöldinn hlægilega lítill.
En hvað um það.
Þessi lög eru hið mesta þarfaþing og í raun leiðrétting á mjög slæmri tvísköttun sem átt hefur sér stað. Fyrirtæki greiða tekjuskatt af hagnaði sínum, og fyrirtæki sem hafa hagnað af sölu hlutabréfa borga nú skatt af hagnaði við söluna, og svo aftur skatt af hagnaði fyrirtækisins, fyrst 10% og svo 18% af því sem eftir er.
Rasistunum í Nýju afli finnst þetta eflaust sanngjarnt, en þegar betur er að gáð er það viðhorf (eins og önnur sem þessi flokkur hefur uppi) óverjandi.
Það má hins vegar alveg færa rök fyrir því að fella eigi niður fjármagnstekjuskatt alfarið, og/eða koma á flötum 15% skatti á allar tekjur, sama hvaðan þær koma. Ég væri vel fylgjandi því.
En niðurfelling skatta er nokkuð sem ég er alfarið fylgjandi, og betra að það sé að hluta til en alls ekki.
Kvenfélagið í Frjálslyndu Nýju Afli má vel nöldra fyrir mér, en það er kannski mál að árétta að málflutningur þess hefur engan hljómgrunn nema í örþröngum hópi kvótaáhugafólks og illa gefinna trukkabílstjóra.
Konur í Frjálslynda flokknum senda forseta Íslands áskorun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Landlægur misskilningur nöldraranna
27.5.2008 | 12:46
Nöldrararnir halda því fram að nú sé verið að steypa skattgreiðendum í skuldir með þessu. En það virðast ekki margir skilja að ríkið fær lán og borgar vexti, en lánar svo peningana áfram og fær af því vaxtatekjur og kemur því út á núlli (í versta falli), og lántakinn er Seðlabankinn sem svo borgar vexti til ríkisins, en endurlánar til banka og annara aðila, sem svo á móti borga Seðlabankanum vexti.
Þeir sem því borga brúsann eru þeir sem taka lán á endanum og væntanlega nota peningana í eitthvað þarft, t.d. fjárfesta í verkefnum og eignum, og borga svo lánin sín til baka.
Þetta virðast sumir ekki skilja. Sumir virðast halda að ríkið muni bara setja peningana í hvelfingar í Seðlabankanum og þar muni seðlabúntin rykfalla á meðan almenningur borgar vexti í formi skatta.
Meira að segja gæti maður haldið að nöldurskjóður á launum hjá HÍ tryðu þessu. Alla vega er einn kverúlant með spjallþátt á RÚV sem trúir þessu.... sennilegast.
Nú er um að gera að láta ekki afturhaldsseggina og hræðsluáróðurinn stjórna ferðinni, heldur skynsemina og þorið. VG hefur ekkert í umræðuna að gera, og þaðan af síður einhverjir aflóga prófessorar sem aldrei hafa stigið út fyrir bómullarhnoðra akademíunnar.
Verkefnið að verja árangur undanfarinna ára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Og af hverju ætti að biðjast afsökunar?
27.5.2008 | 12:41
Þetta fólk var á sínum tíma raunveruleg ógn við öryggi landsins, og ef maður skoðar orðræðuna á þessum tíma var ansi stór hópur, hávær í hið minnsta, sem hefði á augabragði selt okkur í hendur Stalín án þess að blikna.
Bara vegna þess að nú er Sovét fallið og hugmyndafræði hinna hleruðu horfin veg allrar veraldar er ekki þar með sagt að í samhengi tímans hafi ekki verið fullkomlega réttlætanlegt að hlera þessa aðila og fylgjast með ferðum þeirra.
Svona var þetta á þessum tíma, og því verður ekki breytt. Það er enginn að hlera þetta fólk núna, enda hafa fæstir áhuga á þeirra skoðunum í dag, en það breytir ekki því að þeir sem eru ógn við öryggi landsmanna eiga að vera undir eftirliti þeirra sem tryggja eiga öryggi okkar, hvar og hvenær sem er.
Og ógnin við okkur varð nú sjaldan meiri en þegar gömlu kommarnir reru að því öllum árum að koma okkur inn undir pilsfaldinn hjá Stalín og sáu þar fyrirheitna landið í hillingum.
Engin afsökunarbeiðni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Og.... vandamálið er?
27.5.2008 | 10:28
Álfheiður Ingadóttir og kumpánar hennar í Afturhaldsflokknum ógurlega koma fram með sitt fyrirsjáanlega upphlaup út af þessu máli.
Að mati kommúnistanna er bara einn aðili sem má gera nokkurn skapaðan hlut á Íslandi, og það er Ríkið.
Einkaaðilar mega helst ekki reka fyrirtæki og græða, því það er svo ósanngjarnt. Einkaaðilar mega helst ekki efnast, því það er svo ósanngjarnt. Fólk má helst ekki velja um eitt eða neitt, annað en það sem Ríkið ákveður að fólk megi velja, því það er svo ósanngjarnt.
Og nú vill Álfheiður að skattfé okkar sé notað til að fjárfesta í áhættuverkefnum erlendis (ekki mótmælir Svandís Svavarsdóttir mikið þegar skattfé sem er í OR er notað til þróunarverkefna í Afríku) og að það sé algerlega ótækt að aðrir en ríkið fái að byggja stíflumannvirki á Íslandi, hvað þá að selja neytendum rafmagn.
Þess utan eru Vgistar á móti því að aðrir en ríkið sjái um heilbrigðisþjónustu, kennslu, sölu áfengis, lánveitingar, og gott ef þeir eru ekki á móti því að aðrir en ríkisstyrktir bændur fái að framleiða ofan í okkur mat.
Síðast í morgun hlustaði ég á "forstýru" Jafnréttisstofu tala um að það væri allt að því synd að ekki væri hægt að setja lög um það að pör skiptu jafnt á milli sín heimilisstörfum. En maður skynjaði að hana langaði mikið til þess að það væri hægt.
Það er hið besta mál að einkavæða í orkugeiranum, í raun á að einkavæða þar allt annað en rekstur hinna eiginlegu dreifimannvirkja, þau eiga að vera áfram í eigu ríkisins því þar er um að ræða svokallaða náttúrulega einokun.
En allt annað... bara losa þetta út og það strax.
Orkufrumvarp opnar á einkavæðingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ótrúlegt væl
27.5.2008 | 09:24
Alveg er það ótrúlegt hvað þetta er mikið væl, ef rétt er eftir henni haft.
Hillary er að sönnu rauðsokka og tekur upp fasískan tón sem einkennir rauðsokkur hvar sem þær leynast, þær heimta það að fá allt upp í hendurnar af því að þær eru konur (og á einhvern hátt eiga þær að fá umbun fyrir að konur hafa verið kúgaðar kynslóðum saman), og ef ekki er að því gengið, þá er það ekkert annað en karlremba og kvennakúgun.
Íslenskir femínistar eru nákvæmlega svona. Ryðjast fram og krefjast þess að fá sérmeðferð í krafti kynferðis síns (en á sama tíma mótmæla harðlega að karlmenn skuli fá sérmeðferð í krafti síns kynferðis). Og ef þær fá ekki það sem þær heimta, þá er karlmönnum um að kenna og vonska heimsins fótumtreður þær.
Flestar íslenskar rauðsokkur sem hafa sig í frammi á blogginu eru dyggir stuðningsmenn Hillary, en ekki vegna þess að þær hafi kynnt sér neitt sérstaklega málflutning hennar og borið saman við málflutning Obama eða McCain. Nei, af því að hún er kona. Góð leið til að reka rauðsokkurnar á gat er að spyrja þær hvort þeim finnist mikilvægt að kona sé í valdaembætti (og þær svara auðvitað já), og þá hvort þær horfi til Möggu Thatcher sem íkons í kvennabaráttunni og baráttuhetju rauðsokka (og þá geta þær litlu svarað, því Magga var jú hægrisinnaðri en allt sem hægrisinnað er á meðan rauðsokkur eru upp til hópa róttækar vinstrimanneskjur, og Magga var þess utan kölluð járnfrúin og enginn átti breik í hana). Kvenleg nálgun? Varla.
Hillary fórnarlamd kynjamisréttis? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hættir Þorvaldur að nöldra núna?
26.5.2008 | 20:45
Já, ég er hreint ekki frá því.
Hann er baksýnisspegils kverúlant og í einhverri heilagri krossferð gegn ímynduðum vindmyllum í formi Sjálfstæðisflokksins.
Merkilegt hvað Þorvaldur virðist ekki vera með á nótunum. Hann hefur talað (réttilega) um það undanfarnar vikur að efla þurfi gjaldeyrisvaraforðann og nú þegar það er gert, þá finnur hann því allt til foráttu og fer að tala um að stjórn Seðlabbiankans sé ekki treystandi fyrir svona fjármunum. Nú er það? Hvað heldur Þorvaldur að Seðlabankinn ætli að gera? Byrja í minkarækt eða kaupa fótanuddtæki?
Þorvaldur segir að aðrir Seðlabankar hafi "þumalputtareglu" að gjaldeyrisvaraforði eigi að vera jafn skammtímaskuldum. Og sú fullyrðing hans kemur bankastjórn Seðlabankans í opna skjöldu og enginn þar kannast við slíka reglu. Þá er það spurning, hvort á að taka marka á "wannabe" aktívista í hagfræði sem hefur alla sína tíð hímt makindalega í áhættulausu umhverfi akademíunnar, eða á bankastjóra í Seðlabankanum sem hefur alla sína tíð lifað og hrærst í raunveruleikanum.
Svo virðist fólk ekki alveg skilja hvað verið er að gera, og vinsælt er að tala um að "verið sé að bjarga bönkunum."
Sem segir auðvitað bara það að fólk skilur engan veginn hvað er verið að gera. Hagkerfið hefur stækkað gríðarlega, og til að hagstjórn sé eðlileg þarf umfang hennar að stækka líka. Og til þess þarf gjaldeyrisvaraforða sem styður við sjálfstæðan gjaldmiðil. Nú skal ekki rætt sérstaklega af hverju hér eru háir vextir (það er neytendum sjálfum að kenna sem og eyðsluglaðri ríkisstjórn) eða gengi krónunnar of veikt (sem er verðbólgunni að kenna og ráðleysi opinberra aðila í svörum til erlendra greiningaraðila, nokkuð sem eru sjálfgefin viðbrögð þegar við höfum Krata í stjórn), heldur að Seðlabankinn þarf að halda í við hagkerfið.
Ríkið tekur lán, en peningurinn situr ekki bara í koffortum við Arnarhól og þjóðin borgar vextina, þrátt fyrir að vitlausari hluti bloggheima og akademíunnar virðist halda svo. Nei, ríkið lánar peningana til Seðlabankans (sem borgar sömu vexti og ríkið, þannig að almenningur borgar í raun ekki krónu, heldur Seðlabankinn), og Seðlabankinn lánar svo peningana áfram til t.d. bankanna og annara hæfra aðila (og þeir svo borga hið minnsta sömu vexti fyrir peningana).
Þannig að almenningur situr ekki uppi með eitt eða neitt, annað en krónu sem verður sterkari (núverandi gengi endurspeglar of veika krónu), og stöðugara umhverfi (að því gefnu að ríkisstjórnin hætti að eyða peningum og þenja út báknið).
Heimild til að taka 500 milljarða lán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Rétt upp hönd
21.5.2008 | 22:17
... þeir fjárfestar sem vilja láta REI passa peningana sína. Einmitt það. Grunaði það. Enginn, sem sagt?
Besta dæmið um það hversu gjörsamlega veruleikafirrtir þessir bjánar í borgarstjórn eru (allir, sama hvar í flokki þeir standa). Þeir trúa því örugglega innilega að einhver hafi snefil af áhuga á að vinna með þeim.
Ég myndi ekki treysta þessu liði til að segja mér rétt til um hvað klukkan er, hvað þá meira, og ég skora á alla sanna Sjálfstæðismenn að sitja heima í næstu kosningum ef þessir labbakútar bjóða sig fram aftur.
REI skal selja með húð og hári og OR á að sjá um að útvega okkur vatn og rafmagn. Punktur. Ekki meira. OR á ekki að virkja, það eiga einkaaðilar að gera. OR á ekki að byggja hitaveitu í Langtíburtistan. Það geta einkaaðilar gert. OR á ekki að bjóða upp á nettengingar. Það geta einkaaðilar gert. OR á að eiga og reka línur og pípur, og ekkert meira. OR á ekki að vera í áhættufjárfestingum og ekki í samkeppni við einkaaðila. Punktur. Og þessir búálfar sem þykjast vera þess umkomnir að stjórna borginni halda annað, og þess vegna á að senda þá í pólitíska útlegð um aldur og ævi. Og best væri ef þeir gætu tekið minnihlutann í borgarstjórn með sér.
Og að lokum vil ég hía vel og hressilega á alla Chelsea aðdáendur :)
Sátt um REI í stjórn OR | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórn A og stjórn B
21.5.2008 | 14:41
Það er stórbrotið að fylgjast með stjórnarandstöðunni á þingi, unaðslegt voga ég mér að segja. Þvílíkt samansafn af hirðfíflum og labbakútum hefur ekki sést í lengri tíma, enda bættust snillingarnir í Framsókn við þá hjörð í fyrra.
Það vantar ekki stóru orðin hjá þessu fólki, en spurning hvort þau stóru orð nái að hylja að fullu hið gagngera þekkingarleysi á málefnum þjóðarinnar sem virðist vera gegnumsneytt hjá því.
Siv virðist einhverra hluta vegna vera alfarið á móti því að ríkið, sem seljandi og kaupandi heilbrigðisþjónustu, viti hvað hlutirnir kosti. Það er víst eitthvað tabú í Framsókn að vita fyrir hvað maður er að borga og reyna að gera góð kaup.
Valgerður... hvað er orðið um Valgerði?
Guðni Ágústsson virðist hafa komið sér vel fyrir í einhverri annari vídd en við hin, og ryðst af og til í pontu og talar um eitrað útlenskt kjöt og kemur með sífellt lengri myndlíkingar sem virðast engum tilgangi þjóna. Rétt upp hönd sem botnar í Guðna.... nei, ég hélt ekki.
Frjálslynt-Nýtt-Afl er auðvitað hið pólitíska viðrini, soldið eins og brunahaninn í ævintýrinu um Öskubusku (og nú kann einhver að benda á að það voru engir brunahanar í ævintýrinu um Öskubusku, og það er nákvæmlega það sem ég á við). Fiskur og slor, og svo þess á milli er djöflast í útlendingum. Bravó, Jón Magnússon. Það tók þig nógu langan tíma að troða þér á þing (þú varst þolinmóðari en þjóðin sem vildi þig ekki), og nú situr þú uppi með botnfall íslenskra stjórnmála.
Steingrímur vill banna mengandi bíla, og segir það öllum sem vilja heyra (og ekki) hvar sem er á landinu og þeysist á sínum stóra mengandi jeppa í þeim tilgangi hvert á land sem er.
Ögmundur Jónasson er svona á móti öllu, alltaf. Og alltaf hneykslaður. Alltaf fúll. Ég er viss um að hann gæti efnt til mótmæla gegn sjálfum sér í annars tómu herbergi. Líklega leiðinlegasti maður landsins.
Eitt sem ég spái í að lokum, ætli einhver geti látið Stefán Friðrik Stefánsson (sjálfsskipaðan "ofur"bloggara) fá skoðanir að láni, því hann virðist ekki eiga neinar sjálfur.
Tvær ríkisstjórnir við völd? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |