Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008
Ráðleysi míns flokks í borginni
14.5.2008 | 09:21
Sjálfstæðisflokkurinn í borginni er ekki svipur hjá sjón. Í raun er það mín skilgreining að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík sé hreint ekki Sjálfstæðisflokkurinn, heldur eitthvert samansafn pólitískra viðrina sem bera ekkert skynbragð á stjórnmál og eru algerlega og fullkomlega einangruð frá hinum almenna borgara.
Borgarstjórinn okkar er sennilega óhæfasti embættismaður sem sögur fara af, hann þorir ekki að mæta í fjölmiðla og standa fyrir sínu máli, og vogar sér svo að senda fótgönguliða sína fram á völlinn að krefjast þess að heilindi hans og dyggð verði ekki dregin í efa. Nokkrum dögum eftir að hann réð til sín æskuvin sinn og pólitískan sálufélaga fyrir tugi milljóna á ári í laun. Hvernig í ósköpunum fórum við að því að enda uppi með Ólaf F. Magnússon sem borgarstjóra? Aðila sem rétt um 99% kjósenda hafa megnustu andúð á? Þar er ábyrgð Sjálfstæðisflokksins mikil.
Vilhjálmur, gamli góði Villi, talar um að umræðan hafi verið Sjálfstæðismönnum erfið og annað slíkt. Hann reynir að skapa fjarlægð á milli gengis flokksins annars vegar og hins vegar áliti kjósenda á honum persónulega, og liðinu sem er með honum. Vilhjálmur minn, það er ekki umræðan sem er ástæða fylgishruns míns flokks í borginni, það eru ekki málefnin sem eru ástæða fylgishrunsins... það eruð þið sjálf. Þið sjálf berið ábyrgð á þessu klúðri, þið berið ekkert skynbragð á stjórnmál og það er ekki bara þannig að þið getið ekki leyst eitt einasta vandamál sem til ykkar kemur, þið leggið lykkju á leið ykkar til að búa til ný vandamál þess á milli.
Fólk treystir þér ekki, Villi. Hefur ekki gert síðan þú klúðraðir REI málinu svo konunglega. Og það að þú skulir skella skollaeyrum við kröfum Sjálfstæðismanna (ekki bara kjósenda almennt, heldur kjósenda þess flokks sem þú átt víst að tilheyra) segir okkur bara það að þú telur þig yfir allt og alla hafinn. Og þess vegna hrynur fylgið. Þess vegna, og líka vegna þess að þú hefur sýnt það að þú getur ekki stjórnað fyrir fimmaura.
Kjartan Magnússon geislar af svikum og spillingu, maður bara fær það á tilfinninguna í hvert sinn sem hann birtist á skjánum að hann sé að ljúga. Ég myndi EKKI kaupa notaðan bíl af þessum manni. Aldrei.
Gísli Marteinn gengst upp í "hlæjandi skólastrákurinn" gervinu, og það er orðið álíka þreytt og fyrsta breiðskífa Aha! flokksins. Gísla er ekki hægt að taka trúanlegan, hann virðist ekki taka neitt alvarlega, og þegar hann gerir það, þá virkar hann eins og formaður málfundafélags.
Jórunn Frímannsdóttir er helst minnisstæð fyrir að láta eins og fúll smákrakki þegar Bingó sprengdi fyrsta meirihlutann "Við söknum þín sko ekki neitt!". Hún er farþegi í borgarstjórn.
Júlíus Vífill er farþegi, hefur ekkert gert og axlar enga ábyrgð.
Það er kannski helst Hanna Birna sem sýnir smá lit, en eftir að vera í þessum arfaslaka hópi í borgarstjórn á hún sér ekki viðreisnar von.
Þetta fólk hefur eyðilagt Reykjavík. Ekki bara fyrir Sjálfstæðisfólki heldur fyrir borgarbúum öllum. Þar sem áherslan liggur á að kaupa ónýta hjalla til að friða óvinsælasta borgarstjóra allra tíma. Þar sem borgin drabbast niður í skít og ógeði eftir þaulsetu vinstrimanna áraraðir. Þar sem skattar eru hæstu hæðum og peningarnir notaðir til að gambla út um allan heim í áhættufjárfestingum.
Þar sem uppgjafa Stuðmaður er ráðinn inn sem atvinnu-vinur borgarstjóra, því hann virðist ekki geta aflað sér bandamanna án þess að kaupa þá dýrum dómum.
Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn fái mun minna í næstu kosningum en 30%, ef þetta sama fólk vogar sér að fara aftur í framboð. Helsti gallinn á kerfinu sem við búum við er sá, að mínu mati, að við getum ekki mætt á kjörstað og kosið GEGN einum flokki, því það er það sem ég myndi vilja gera.
Frumskylda Sjálfstæðismanna er að tryggja framgang skynsemi og einstaklingsfrelsis í þjóðfélaginu, og í þeim efnum er stór hluti að koma í veg fyrir valdatöku vinstrimanna, sem eru boðberar hafta, skattpíningar, og almennrar óreglu. Núverandi borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, botnfall íslenskra stjórnmála, hafa hins vegar ákveðið að hefja þessa lesti til hæstu hæða.
Kjósendur eiga ekki að kjósa flokk sem þykist vera hægrisinnaður, en er svo vinstrisinnaðri en allt sem vinstrisinnað er, og í raun ofan í pilsfaldi Svandísar Svavarsdóttur, ef menn vilja vinstrimenn geta menn bara kosið einn þeirra fjölmörgu flokka sem hafa rottað sig saman á vinstrivængnum.
Ég vona líka að minn flokkur sjái sóma sinn í því að taka þessa sjömenninga úr umferð hið snarasta og hreinlega banna þeim að bjóða sig fram í nafni Sjálfstæðisflokksins eftir 2 ár. Ef það gerist ekki, þá mun ég bíða með að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þangað til gamli flokkurinn minn birtist aftur, ég hef ekkert með ræfilslegan vinstrimannaflokk að gera á mínum kjörseðli.
Stórsigur Sjálfstæðismanna
13.5.2008 | 18:34
Ég lít á þetta sem stórsigur fyrir Sjálfstæðismenn, þ.e.a.s. að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins skuli fá þvílíka útreið í þessari könnun.
Af hverju?
Jú, því ég lít á þessa pólitísku liðhlaupa sem þekja borgarfulltrúastólana sem allt annað en Sjálfstæðismenn. Hvert eitt og einasta þeirra má kalla pólitísk viðrini, fólk sem á nákvæmlega ekkert erindi í stjórnmál, og því er gott að enn eina ferðina skuli hamrað á því við þau að kjósendur vilja ekki sjá þau.
Sá dagur getur ekki komið nógu fljótt að Sjálfstæðismenn fái frelsi undan því oki sem Vilhjálmur og skósveinar hans hafa skellt á kjósendur Sjálfstæðisflokksins í borginni.
Þegar hárprúði læknirinn er orðinn að betri valmöguleika en fulltrúar Sjálfstæðismanna, þá er fokið í flest skjól og deginum ljósara að fulltrúar í borgarstjórn eru botnfall íslenskra stjórnmála, og meðaltalið skánaði einungis agnarögn þegar Björn Ingi hraktist á braut.
Ekki svo að skilja að þau sem í hinum flokkunum standa séu hótinu betri? Svandís er á hraðri leið með að setja Norðurlandamet í frekju, Guð má vita fyrir hvað hann-þarna-Bergsson stendur fyrir, borgarstjórinn er nú mesta furðufyrirbæri sem maður hefur í annan tíma séð, og leiðtogi Samfylkingarinnar kann manna best að blaðra og segja ekkert.
Við erum í þeirri aðstöðu að hafa handónýta pólitíkusa í borginni, í öllum flokkum, en kerfið sem við búum við neyðir okkur til að velja einhvern, því ef við sitjum heima, þá er hættan sú að verst gefnu kjósendurnir (þessir lengst til vinstri) fái sínu framgengt, og frumskylda hvers kosningabærs einstaklings er að koma í veg fyrir að vinstrimenn komist til valda.
En ég fagna þessu, og vona að þetta verði til þess að hin stjórnmálalegu viðrini sem svívirða Sjálfstæðisflokkinn með nærveru sinni í ráðhúsinu hypji sig sem allra fyrst á braut.
Og þá fáum við kannski Sjálfstæðisflokkinn til baka, þann hinn sama og rétt um helmingur borgarbúa var stoltur af því að kjósa.
![]() |
Fylgi Sjálfstæðisflokks minnkar mikið í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fullyrðingar Ágústs um kosti ESB hraktar
2.5.2008 | 13:43
Varaformaður Samfylkingarinnar skrifar svo á bloggi sínu í dag:
"Í stuttu máli mætti segja að helstu kostirnir við aðild eru aukin áhrif, lægra matvælaverð, aukinn stöðugleiki, lægri vextir, sanngjarnara landbúnaðarkerfi, auknar erlendar fjárfestingar, minni gengisáhætta og gengissveiflur, lægri skólagjöld erlendis, minni viðskiptakostnaður og bætt félagsleg réttindi. Ekki má gleyma að Íslendingar eru evrópsk þjóð sem á heima í samfélagi annarra Evrópuþjóða."
Er það virkilega svo? Lítum á málið.
".... aukin áhrif..." á hvað? Lagasetningu? ESB telur nú rétt um 250 milljónir manna, við erum 300þ, eða sem nemur 0.1% af íbúafjölda bandalagsins. Hin nýja stjórnarskrá, sem íbúar landa sambandsins höfnuðu, en leiðtogarnir tróðu engu að síður í gegn, færir atkvæðavægi meira í áttina til íbúafjölda en áður, þannig að við höfum engin áhrif á hvernig lög þróast í ESB. Við höfum eiginlega meira um það að segja í dag, sem aðilar að EFTA og í gegnum tvíhliða samninginn við ESB, að nafni EES.
Ágúst segir að við höfum nú þegar tekið upp mest alla löggjöf ESB, sem er rangt, við höfum tekið upp stærsta hluta af lögum um INNRI MARKAÐ, sem er langt í frá að vera öll löggjöf ESB.
"... lægra matvælaverð..." hvernig þá? Í gegnum lægri tolla á matvæli? En hvernig er það, ráðum við ekki í dag hvaða tollar eru í gangi? Þurfum við að ganga í ESB til að lækka tolla á innflutt matvæli? Hvernig væri að vinur Ágústs, hann Björgvin, og Árni Matt settust bara niður og afgreiddu málið snaggaralega og lækkuðu tolla á þessar vörur? Að ganga í ESB til að þvinga fram lægra verð er soldið eins og að saga af sér fótinn til að losna við ljóta sokka.
Gleymum heldur ekki að matvælaverð stjórnast af meiru en kostnaðarverði, álagning spilar þar stóra rullu, og það er ekkert í dag sem bannar erlendum verslunum að opna útibú á Íslandi, en smæð markaðarins kemur í veg fyrir það. Íslendingar verða 300,000 eftir inngöngu í ESB, rétt eins og þeir eru fyrir inngöngu í ESB.
".... aukinn stöðugleiki...", á hvaða mælikvarða? Það verður mun meira atvinnuleysi, það er vitað, enda atvinnuleysi mun meira innan ESB en á Íslandi. Það verður minna flökt á krónunni, en er það hinn eini sanni stöðugleiki?
"... lægri vextir...." er vinsælt. Vextir eru verðmiði á peninga, eftir því sem eftirspurnin er meiri eftir peningum, þeim mun dýrari eru þeir. Horfið á götur bæjarins... horfið á Innlit/Útlit.... skoðið hversu margir eru að fara utan í sumarfrí í ár... þetta fólk hefur keypt peninga til að fjármagna þessa hluti, eftirspurnin er miklu meiri en framboðið, því enginn sparar. Því er verðið á peningum alveg rétt í dag, og þegar þeir sem vilja halda áfram að kaupa peninga barma sér og kvarta yfir verðinu, þá eiga menn bara að segja að svona sé lögmálið um framboð og eftirspurn. Ekki rjúka upp til handa og fóta og ráðast í aðgerðir til að þvinga jafnvægið niður, svo menn geti haldið áfram að skuldsetja sig í botn. Þessi rök Ágústs ganga ekki upp, og einkennast af örvæntingafullri tilraun manns til að höfða til óábyrgrar hegðunar neytenda til þess eins að fá sínu áhugamáli framgengt.
"... sanngjarnara landbúnaðarkerfi...." Hvernig þá? Stjórnum við ekki okkar kerfi í dag? Hvað kemur í veg fyrir að við sjálf breytum þá kerfinu, fyrst það er svona ósanngjarnt? Eitt er víst, við fáum enga styrki frá ESB fyrir landbúnaðinn, þeir fara nú þegar allir til A-Evrópu. Spyrjið bara bændur í Frakklandi og á Spáni sem eru búnir að missa áskriftina að styrkjunum. Ekki eru þeir sérlega kátir. Það þarf að skera upp landbúnaðarkerfið á Íslandi, en af hverju getum við ekki gert það sjálf og borið ábyrgð á því sjálf? Af hverju vill Ágúst að einhverjir Brusselistar geri það? Og af hverju vill Ágúst ekki að við tökum ábyrgð á kerfinu okkar sjálf?
"... auknar erlendar fjárfestingar...." af hverju? Af hverju ættu erlendar fjárfestingar að aukast hérna? Erlendir aðilar geta fjárfest hérna í dag og aldrei horft á eina íslenska krónu. Þeir greiða fyrir allt í erlendri mynt og hafa sínar tekjur í erlendri mynt ef því er að skipta. Skattkerfið ræður þar mestu um, og það virðist ekki mikill vilji hjá vinstriflokkum á Íslandi að lækka skatta.
".... minni gengissveiflur...." jú, það er rétt. En ef við tökum aftur til afsögunar samlíkingarinnar, þá er þetta eins og að saga af sér lappirnar og vera ánægður með passa loksins í buxurnar frá því maður var lítill.
".... lægri skólagjöld erlendis....", og hvað? Eigum við að afsala okkur fullveldi og láta allt ofangreint yfir okkur ganga, bara svo við getum borgað nokkrum þúsundköllum minna í skólagjöld í Bretlandi?
"... minni viðskiptakostnaður....", ekki endilega.
"... bætt félagsleg réttindi....", bíddu ráðum við því ekki sjálf í dag? Getur Jóhanna ekki bara lagt til breytingar í átt til þess sem menn eru sáttir við? Af hverju þarf að ganga í ESB?
Nei, þessi "rök" Ágústs einkennast af flótta og leti. Hann vill flýja í ábyrgðarleysi ESB, þar sem við ráðum engu og hann getur bara yppt öxlum þegar illa gengur og bent til Brussel, og svo þakkað sjálfum sér þegar vel gengur og talað um eigin fyrirhyggju að ganga í ESB. Og leti, því hann vill ekki breyta hlutum sjálfur sem eru í dag á okkar valdi að breyta, hann bara gagnrýnir og talar um hvernig hann vill að hlutirnir séu öðru vísi, en er ekki tilbúinn að breyta þeim sjálfur.
Loksins
2.5.2008 | 08:26
Það er löngu orðið tímabært að koma Verkamannaflokknum frá völdum í Bretlandi, því miður er sá flokkur orðinn fánaberi alls þess sem ber að fordæma í fari vinstriflokka.
Forræðishyggjan og veruleikafirringin er allsráðandi í herbúðum Verkamannaflokksins, þar sem menn trúa stöðugt á það að boð og bönn séu almennri skynsemi yfirsterkari.
Það verður nú seint sagt að Íhaldsflokkurinn hafi sterka leiðtoga í sínum röðum, en kannski, bara kannski, ber Gordon Brown gæfu til að koma Verkamannaflokknum undir græna torfu (no pun intended) þar sem hann getur húkt í einhverja áratugi.
![]() |
Verkamannaflokkurinn tapaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Skoðanaleysisstjórnmál Samfylkingarinnar bíða skipbrot
1.5.2008 | 18:21
Það er aðeins ein ástæða fyrir þessu afhroði Samfylkingarinnar; einörð skoðanaleysisstefna hennar í öllum málum. Samfylkingin tekur aldrei afstöðu í neinu máli, og það róttækasta sem sá flokkur gerir er að skipa nefndir. Samfylkingin stendur fyrir lítið í íslenskum stjórnmálum, sem vekur upp gremju þeirra sem hana kusu síðast í ljósi digurbarkalegra yfirlýsinga forsprakka flokksins.
Ástæðan fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn hrynur ekki líka er einfaldlega sú að þó svo að Geir og Árni séu arfavondir stjórnmálamenn, þá er einfaldlega ekkert annað í boði í dag. Sjálfstæðisflokkurinn er lélegur og tvístígur á miðju íslenskra stjórnmála og reynir að vera öllum allt, en skynsamir kjósendur hafa einfaldlega ekkert val.
Ef þú kýst Samfylkinguna, ertu að kjósa ráðleysi og skoðanaleysi, þá geturðu allt eins bara kosið Sjálfstæðisflokkinn, þú veist að hann fer alla vega ekki lengra til vinstri en hann er í dag.
Ef þú kýst Vinstri Græna ertu að kalla yfir þig myrkar miðaldir kommúnismans, skattpíningu, miðstýringu, þjóðnýtingu og fjárhagslegt sem og hugmyndafræðilegt gjaldþrot Íslands.
Ef þú kýst Framsókn ertu að kjósa sama gamla bændaflokkinn sem ól af sér menn eins og Björn Inga og Guðna Ágústsson, meira þarf ekki að segja.
Ef þú kýst Frjálslynda ertu týpa sem hefur áhuga á kvótakerfinu, hlustar á Útvarp Sögu og hefur skoðun á handboltaferli Jónínu Ben. Þú getur allt eins bara stimplaði þig sem lúser strax.
Ergó, Sjálfstæðisflokkurinn heldur velli og á líklegast eftir að styrkjast, því allt annað sem er í boði er eins og lélegt álegg komið langt fram yfir síðasta söludag.
![]() |
Fylgi við Samfylkingu og ríkisstjórn minnkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íslandsmeistaramót í gífuryrðum og upphrópunum
1.5.2008 | 15:15
Forkólfar verkalýðsfélaganna keppast í dag við að slá um sig með stórum orðum og útúrsnúningum. Ögmundur og aðrir horfa með löngunaraugum til þess tíma þegar allir höfðu það jafnskítt, og fordæma að nú skuli allir hafa það miklu betra, en sumir betra en aðrir. Betra er að allir hafi það ömurlegt en að allir hafi það gott, þó misgott.
Það er ótrúlegt hvernig sumir geta talið sjálfum sér trú um að hér hafi aldrei verið stéttaskipting eða að hér hafi einu sinni allir verið jafnir. Hér á landi hefur alltaf verið stéttaskipting, það er bara fyrst núna sem fólk er farið að viðurkenna það.
Ég sé ekkert rangt eða óeðlilegt við það að þeir sem leggi hart að sér uppskeri eins og þeir hafa til sáð, og þaðan af síður sé ég neitt óeðlilegt við það að þeir sem ekki nenna t.d. að mennta sig eða leggja á sig vinnu, skuli þurfa að fara á mis við munaðinn í lífinu.
Á Íslandi eru nefnilega sárafáir fátækirk, en ansi margir blankir; Ögmundur og félagar gera engan greinarmun á þessu.
Eru það sjálfsögðu mannréttindi að eiga bíl, tjaldhýsi, geta farið í utanlandsferðir, átt GSM síma, verið með áskrift að stöð 2? Fjölmargir þeirra sem ég heyri barma sér hvað mest og hæst er einmitt fólk sem á ekki pening, ekki vegna þess að það sé fátækt, heldur vegna þess að það hefur tilhneygingu til að sanka að sér hlutum sem það hefur engin not fyrir og hefur ekki efni á.
Fjöldinn allur af fólki í dag er í erfiðleikum; það getur ekki borgað af nýju eldhúsinnréttingunni, tjaldvagninum, VISA kortið er að sliga það, nýi jeppinn eyðir svo miklu og er svo dýr í rekstri... þessu fólki vill Ögmundur að ríkið hjálpi. Blanka fólkinu.
Kannski ef fólk hætti að væla og færi að leggja á sig vinnu og sýna skynsemi, þá hefðu miklu fleiri það miklu betra, þá væru kannski færri blankir.
![]() |
Formaður SFR: Splundruð þjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
BSRB í boði Vinstri Grænna
1.5.2008 | 13:00
Það er hverjum ljóst, hvort sem menn viðurkenna eður ei, að BSRB er skuggaráðuneyti Vinstri Grænna, og hverjum þeim félagsmanni sem er í félaginu er skylt að greiða til málpípu vinstrisinna. Ef þú ert meðlimur í BSRB þá borgar þú fyrir málflutning Vinstri Grænna, hvort sem þér líkar betur eða verr, og sama hvar í flokki þú stendur.
Stjórnmálaflokkur hefur tekið verkalýðsfélag í gíslingu, sem er svo sem ekki ný frétt.
Hver man ekki eftir því t.d. þegar hinn "óháði" formaður BSRB mótmælti harðlega, fyrir hönd verkalýðsfélagsins, að hér skyldu sett vatnalög í fyrra, og mætti svo síðar sama dag og flutti sömu ræðuna sem þingmaður Vinstri Grænna?
Vandinn er vissulega heimatilbúinn að nokkru leyti, en má þó rekja eingöngu til þess að vinstristefna hefur fengið að grassera of lengi í stjórn landsmála, fyrst hjá Framsókn og síðar hjá Samfylkingu, og Sjálfstæðisflokkurinn hefur einfaldlega ekki spyrnt á móti.
Skattar hafa ekki verið lækkaðir nægjanlega, þannig að við sitjum uppi með ríkissjóð, skuldlausan, og stjórnmálamenn sem vilja fyrir alla muni moka peningum út frekar en að skila þeim til eigenda sinna.
Tökum sem dæmi: Samið var við kennara um 25% launahækkun á einu ári, hvað gerir það til að lækka verðbólguna? Kristján Möller ætlar að stækka flugbrautina fyrir norðan og sprengja göng, í miðjum kröfukór um aðhald, Vegagerðin greinir stolt frá því að aldrei hafi fleiri göng verið í undirbúningi en akkúrat núna, Ingibjörg Sólrún eyðir milljónahundruð í að komast í Öryggisráð SÞ, til þess eins að geta tvöfaldað kostnað við utanríkisþjónustuna.
Já, þetta er heimatilbúið, og þetta angar af byggðastefnu (sem er hreinræktuð vinstristefna) og tilgerðapólitík, sem er aðalsmerki Samfylkingarinnar. Og Sjálfstæðisflokkurinn spyrnir ekki á móti.
Ef mönnum er alvara með að ríkið bregðist við núverandi aðstæðum er eftirfarandi tilvalið:
Lækkum skatta, ríkið eyðir hvort eð er peningunum og enginn munur á verðbólguþrýsting hver eyðir peningunum, en skattgreiðendur myndu kannski einhverjir nota auknar ráðstöfunartekjur til að borga niður sínar eigin skuldir. Til hvers á ríkið að taka til sín fúlgur fjár sem það hefur engin not fyrir, enda skuldlaust, og fjármagna vitleysu eins og Ár Kartöflunnar, þegar almenningur gæti vel nýtt peningana í eitthvað viturlegra.
Gerum gangskör í einkarekstri, og spörum þannig útgjöld ríkissjóðs. Fáum fagaðila í rekstri til að sjá um sjúkrahúsin og skólana.
Afnemum lög um aðstoðarmenn þingmanna. Hversu margir gera sér grein fyrir því að Vinstri Grænir greiddu atkvæði á móti frumvarpinu um aðstoðarmenn, en þegar það varð að lögum hafa þingmenn þess flokks ráðið helming þeirra sem ráðnir hafa verið? Sóun á almannafé.
Vinstri Grænir geta nöldrað eins og þeir vilja, hvort sem er í gegnum þingflokkinn eða verkalýðshreyfinguna, en þeir virðast ekki skilja vandann, og boða lausnir sem eru ekkert annað en enn meira af sama ruglinu sem Samfylkingin og Framsókn hafa matreitt.
Er til of mikils ætlast að Sjálfstæðisflokkurinn taki aftur upp merki hægristefnu og skynsemi, og segi hingað og ekki lengra við sósíalistana?
![]() |
BSRB: Vandinn heimatilbúinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |