Og af hverju ætti að biðjast afsökunar?
27.5.2008 | 12:41
Þetta fólk var á sínum tíma raunveruleg ógn við öryggi landsins, og ef maður skoðar orðræðuna á þessum tíma var ansi stór hópur, hávær í hið minnsta, sem hefði á augabragði selt okkur í hendur Stalín án þess að blikna.
Bara vegna þess að nú er Sovét fallið og hugmyndafræði hinna hleruðu horfin veg allrar veraldar er ekki þar með sagt að í samhengi tímans hafi ekki verið fullkomlega réttlætanlegt að hlera þessa aðila og fylgjast með ferðum þeirra.
Svona var þetta á þessum tíma, og því verður ekki breytt. Það er enginn að hlera þetta fólk núna, enda hafa fæstir áhuga á þeirra skoðunum í dag, en það breytir ekki því að þeir sem eru ógn við öryggi landsmanna eiga að vera undir eftirliti þeirra sem tryggja eiga öryggi okkar, hvar og hvenær sem er.
Og ógnin við okkur varð nú sjaldan meiri en þegar gömlu kommarnir reru að því öllum árum að koma okkur inn undir pilsfaldinn hjá Stalín og sáu þar fyrirheitna landið í hillingum.
![]() |
Engin afsökunarbeiðni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Og.... vandamálið er?
27.5.2008 | 10:28
Álfheiður Ingadóttir og kumpánar hennar í Afturhaldsflokknum ógurlega koma fram með sitt fyrirsjáanlega upphlaup út af þessu máli.
Að mati kommúnistanna er bara einn aðili sem má gera nokkurn skapaðan hlut á Íslandi, og það er Ríkið.
Einkaaðilar mega helst ekki reka fyrirtæki og græða, því það er svo ósanngjarnt. Einkaaðilar mega helst ekki efnast, því það er svo ósanngjarnt. Fólk má helst ekki velja um eitt eða neitt, annað en það sem Ríkið ákveður að fólk megi velja, því það er svo ósanngjarnt.
Og nú vill Álfheiður að skattfé okkar sé notað til að fjárfesta í áhættuverkefnum erlendis (ekki mótmælir Svandís Svavarsdóttir mikið þegar skattfé sem er í OR er notað til þróunarverkefna í Afríku) og að það sé algerlega ótækt að aðrir en ríkið fái að byggja stíflumannvirki á Íslandi, hvað þá að selja neytendum rafmagn.
Þess utan eru Vgistar á móti því að aðrir en ríkið sjái um heilbrigðisþjónustu, kennslu, sölu áfengis, lánveitingar, og gott ef þeir eru ekki á móti því að aðrir en ríkisstyrktir bændur fái að framleiða ofan í okkur mat.
Síðast í morgun hlustaði ég á "forstýru" Jafnréttisstofu tala um að það væri allt að því synd að ekki væri hægt að setja lög um það að pör skiptu jafnt á milli sín heimilisstörfum. En maður skynjaði að hana langaði mikið til þess að það væri hægt.
Það er hið besta mál að einkavæða í orkugeiranum, í raun á að einkavæða þar allt annað en rekstur hinna eiginlegu dreifimannvirkja, þau eiga að vera áfram í eigu ríkisins því þar er um að ræða svokallaða náttúrulega einokun.
En allt annað... bara losa þetta út og það strax.
![]() |
Orkufrumvarp opnar á einkavæðingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ótrúlegt væl
27.5.2008 | 09:24
Alveg er það ótrúlegt hvað þetta er mikið væl, ef rétt er eftir henni haft.
Hillary er að sönnu rauðsokka og tekur upp fasískan tón sem einkennir rauðsokkur hvar sem þær leynast, þær heimta það að fá allt upp í hendurnar af því að þær eru konur (og á einhvern hátt eiga þær að fá umbun fyrir að konur hafa verið kúgaðar kynslóðum saman), og ef ekki er að því gengið, þá er það ekkert annað en karlremba og kvennakúgun.
Íslenskir femínistar eru nákvæmlega svona. Ryðjast fram og krefjast þess að fá sérmeðferð í krafti kynferðis síns (en á sama tíma mótmæla harðlega að karlmenn skuli fá sérmeðferð í krafti síns kynferðis). Og ef þær fá ekki það sem þær heimta, þá er karlmönnum um að kenna og vonska heimsins fótumtreður þær.
Flestar íslenskar rauðsokkur sem hafa sig í frammi á blogginu eru dyggir stuðningsmenn Hillary, en ekki vegna þess að þær hafi kynnt sér neitt sérstaklega málflutning hennar og borið saman við málflutning Obama eða McCain. Nei, af því að hún er kona. Góð leið til að reka rauðsokkurnar á gat er að spyrja þær hvort þeim finnist mikilvægt að kona sé í valdaembætti (og þær svara auðvitað já), og þá hvort þær horfi til Möggu Thatcher sem íkons í kvennabaráttunni og baráttuhetju rauðsokka (og þá geta þær litlu svarað, því Magga var jú hægrisinnaðri en allt sem hægrisinnað er á meðan rauðsokkur eru upp til hópa róttækar vinstrimanneskjur, og Magga var þess utan kölluð járnfrúin og enginn átti breik í hana). Kvenleg nálgun? Varla.
![]() |
Hillary fórnarlamd kynjamisréttis? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hættir Þorvaldur að nöldra núna?
26.5.2008 | 20:45
Já, ég er hreint ekki frá því.
Hann er baksýnisspegils kverúlant og í einhverri heilagri krossferð gegn ímynduðum vindmyllum í formi Sjálfstæðisflokksins.
Merkilegt hvað Þorvaldur virðist ekki vera með á nótunum. Hann hefur talað (réttilega) um það undanfarnar vikur að efla þurfi gjaldeyrisvaraforðann og nú þegar það er gert, þá finnur hann því allt til foráttu og fer að tala um að stjórn Seðlabbiankans sé ekki treystandi fyrir svona fjármunum. Nú er það? Hvað heldur Þorvaldur að Seðlabankinn ætli að gera? Byrja í minkarækt eða kaupa fótanuddtæki?
Þorvaldur segir að aðrir Seðlabankar hafi "þumalputtareglu" að gjaldeyrisvaraforði eigi að vera jafn skammtímaskuldum. Og sú fullyrðing hans kemur bankastjórn Seðlabankans í opna skjöldu og enginn þar kannast við slíka reglu. Þá er það spurning, hvort á að taka marka á "wannabe" aktívista í hagfræði sem hefur alla sína tíð hímt makindalega í áhættulausu umhverfi akademíunnar, eða á bankastjóra í Seðlabankanum sem hefur alla sína tíð lifað og hrærst í raunveruleikanum.
Svo virðist fólk ekki alveg skilja hvað verið er að gera, og vinsælt er að tala um að "verið sé að bjarga bönkunum."
Sem segir auðvitað bara það að fólk skilur engan veginn hvað er verið að gera. Hagkerfið hefur stækkað gríðarlega, og til að hagstjórn sé eðlileg þarf umfang hennar að stækka líka. Og til þess þarf gjaldeyrisvaraforða sem styður við sjálfstæðan gjaldmiðil. Nú skal ekki rætt sérstaklega af hverju hér eru háir vextir (það er neytendum sjálfum að kenna sem og eyðsluglaðri ríkisstjórn) eða gengi krónunnar of veikt (sem er verðbólgunni að kenna og ráðleysi opinberra aðila í svörum til erlendra greiningaraðila, nokkuð sem eru sjálfgefin viðbrögð þegar við höfum Krata í stjórn), heldur að Seðlabankinn þarf að halda í við hagkerfið.
Ríkið tekur lán, en peningurinn situr ekki bara í koffortum við Arnarhól og þjóðin borgar vextina, þrátt fyrir að vitlausari hluti bloggheima og akademíunnar virðist halda svo. Nei, ríkið lánar peningana til Seðlabankans (sem borgar sömu vexti og ríkið, þannig að almenningur borgar í raun ekki krónu, heldur Seðlabankinn), og Seðlabankinn lánar svo peningana áfram til t.d. bankanna og annara hæfra aðila (og þeir svo borga hið minnsta sömu vexti fyrir peningana).
Þannig að almenningur situr ekki uppi með eitt eða neitt, annað en krónu sem verður sterkari (núverandi gengi endurspeglar of veika krónu), og stöðugara umhverfi (að því gefnu að ríkisstjórnin hætti að eyða peningum og þenja út báknið).
![]() |
Heimild til að taka 500 milljarða lán |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Rétt upp hönd
21.5.2008 | 22:17
... þeir fjárfestar sem vilja láta REI passa peningana sína. Einmitt það. Grunaði það. Enginn, sem sagt?
Besta dæmið um það hversu gjörsamlega veruleikafirrtir þessir bjánar í borgarstjórn eru (allir, sama hvar í flokki þeir standa). Þeir trúa því örugglega innilega að einhver hafi snefil af áhuga á að vinna með þeim.
Ég myndi ekki treysta þessu liði til að segja mér rétt til um hvað klukkan er, hvað þá meira, og ég skora á alla sanna Sjálfstæðismenn að sitja heima í næstu kosningum ef þessir labbakútar bjóða sig fram aftur.
REI skal selja með húð og hári og OR á að sjá um að útvega okkur vatn og rafmagn. Punktur. Ekki meira. OR á ekki að virkja, það eiga einkaaðilar að gera. OR á ekki að byggja hitaveitu í Langtíburtistan. Það geta einkaaðilar gert. OR á ekki að bjóða upp á nettengingar. Það geta einkaaðilar gert. OR á að eiga og reka línur og pípur, og ekkert meira. OR á ekki að vera í áhættufjárfestingum og ekki í samkeppni við einkaaðila. Punktur. Og þessir búálfar sem þykjast vera þess umkomnir að stjórna borginni halda annað, og þess vegna á að senda þá í pólitíska útlegð um aldur og ævi. Og best væri ef þeir gætu tekið minnihlutann í borgarstjórn með sér.
Og að lokum vil ég hía vel og hressilega á alla Chelsea aðdáendur :)
![]() |
Sátt um REI í stjórn OR |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórn A og stjórn B
21.5.2008 | 14:41
Það er stórbrotið að fylgjast með stjórnarandstöðunni á þingi, unaðslegt voga ég mér að segja. Þvílíkt samansafn af hirðfíflum og labbakútum hefur ekki sést í lengri tíma, enda bættust snillingarnir í Framsókn við þá hjörð í fyrra.
Það vantar ekki stóru orðin hjá þessu fólki, en spurning hvort þau stóru orð nái að hylja að fullu hið gagngera þekkingarleysi á málefnum þjóðarinnar sem virðist vera gegnumsneytt hjá því.
Siv virðist einhverra hluta vegna vera alfarið á móti því að ríkið, sem seljandi og kaupandi heilbrigðisþjónustu, viti hvað hlutirnir kosti. Það er víst eitthvað tabú í Framsókn að vita fyrir hvað maður er að borga og reyna að gera góð kaup.
Valgerður... hvað er orðið um Valgerði?
Guðni Ágústsson virðist hafa komið sér vel fyrir í einhverri annari vídd en við hin, og ryðst af og til í pontu og talar um eitrað útlenskt kjöt og kemur með sífellt lengri myndlíkingar sem virðast engum tilgangi þjóna. Rétt upp hönd sem botnar í Guðna.... nei, ég hélt ekki.
Frjálslynt-Nýtt-Afl er auðvitað hið pólitíska viðrini, soldið eins og brunahaninn í ævintýrinu um Öskubusku (og nú kann einhver að benda á að það voru engir brunahanar í ævintýrinu um Öskubusku, og það er nákvæmlega það sem ég á við). Fiskur og slor, og svo þess á milli er djöflast í útlendingum. Bravó, Jón Magnússon. Það tók þig nógu langan tíma að troða þér á þing (þú varst þolinmóðari en þjóðin sem vildi þig ekki), og nú situr þú uppi með botnfall íslenskra stjórnmála.
Steingrímur vill banna mengandi bíla, og segir það öllum sem vilja heyra (og ekki) hvar sem er á landinu og þeysist á sínum stóra mengandi jeppa í þeim tilgangi hvert á land sem er.
Ögmundur Jónasson er svona á móti öllu, alltaf. Og alltaf hneykslaður. Alltaf fúll. Ég er viss um að hann gæti efnt til mótmæla gegn sjálfum sér í annars tómu herbergi. Líklega leiðinlegasti maður landsins.
Eitt sem ég spái í að lokum, ætli einhver geti látið Stefán Friðrik Stefánsson (sjálfsskipaðan "ofur"bloggara) fá skoðanir að láni, því hann virðist ekki eiga neinar sjálfur.
![]() |
Tvær ríkisstjórnir við völd? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trukkasnillingurinn Sturla hefur enn í hótunum
21.5.2008 | 11:03
af dv.is
"Sturla sver af sér óorðna atburði
Sjálfsagt hefur einhverjum brugðið í brún síðdegis þegar útvarpsstöðin Bylgjan spilaði auglýsingu þar sem Sturla Jónsson vörubílstjóri kynnti sig til leiks. Síðan staðfesti hann, það sem alþjóð, veit að hann hafi staðið fyrir mótmælum undanfarið en vildi að það kæmi skýrt fram að hann bæri enga ábyrgð á atburðum sem munu eiga sér stað á laugardaginn.
Ætla mætti að vörubílstjórar, eða aðrir hópar, væru að ráðgera aðgerðir á laugardaginn sem eru svo svakalegar að sjálfur Sturla, sem hefur ekki gefið þumlung eftir í mótmælum hingað til, treysti sér ekki til þess að koma nálægt þeim.
Sturla sagðist í samtali við dv.is ekki hafa hugmynd um hvað væri í vændum á laugardaginn og neitaði að tjá sig frekar um málið."
Svo mörg voru þau orð. Sturla virðist vera orðinn skyggn, því hann segir að hann hafi aldrei planað neitt, hlutirnir bara gerist (svona collective awareness hjá trukkurunum). Nú hefur hann væntanlega dreymt að eitthvað gerist á laugardaginn, eitthvað sem er honum algerlega óviðkomandi. Þá er það spurningin hvað Sturla ætlar að gera á laugardaginn sem hann ber enga ábyrgð á og kemur honum ekkert við.
Hvernig er það, er enginn til þess að ala þennan ofvaxna smákrakka upp?
"Ræða ítarlega" = drepa með öllum mögulegum ráðum
20.5.2008 | 08:57
Stjórnarandstaðan á Íslandi (sem er í raun bara þingflokkur Vinstri Grænna) notar orðasamböndin "ræða ítarlega" eða "ná þverpólitískri sátt" þegar hún krefst þess að fá að ráða þó svo að hún sé ekki í stjórn. Sem er alltaf.
Vinstri Grænir, sem gangast upp í því að vera alltaf á móti öllu, sama hvað það er, hafa engan áhuga á að ræða eitt né neitt eða ná sátt um eitt né neitt.
Hugmyndir VG um pólitíska sátt eru af sama meiði og hugmyndir Samfylkingarinnar um opna ESB umræðu; annað hvort gera menn eins og VG vill í einu og öllu (eða eru sammála Samfylkingunni um hversu meiriháttar æðislegt ESB er), annars sýna menn valdníðslu og yfirgang.
VG virðist ekki skilja að þeir ráða ekki, en samt heimta þeir alltaf að fá að ráða.
Vonandi verður hægt að afgreiða frumvarp um sjúkratryggingar á þessu þingi, mér finnst alger óþarfi að ræða þetta mál í þaula við stjórnarandstöðuna sem hefur hvort eð er ekkert merkilegt fram að færa.
Það þarf að kenna þessari stjórnarandstöðu að hún hefur ekkert um málin að segja og ef hún vill láta taka mark á sér þá ætti hún að fara að haga sér af skynsemi og leggja fram málefnalegar tillögur, en þegja ella.
![]() |
Annasamir dagar á Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Skaðar umræðustjórnmálastefnu Samfylkingarinnar
19.5.2008 | 21:06
Samfylkingin hefur aldrei verið hrifin af því að Ísland stundi sjálfstæði sitt að neinu marki, og sennilega sér hin hæstvirta utanríkisráðfrú þetta sem hugmyndafræðilega atlögu að hennar tvíbenta draumi um að komast í ESB (og kasta sjálfstæði landsins fyrir róða) og komast í öryggisráð SÞ (og tvöfalda þannig fjölda erindreka landsins hjá SÞ án þess að þeir hafi nokkuð þarflegt að gera).
Málið er nefnilega að hvalveiðar (og hvers kyns athæfi Íslands sem hefur í för með sér verklega sjálfstæðisyfirlýsingu eða gæti mögulega móðgað útlendinga) stríðir gegn þessum tveimur áhugamálum Samfylkingarinnar, valdaafsali og útþenslu hins opinbera.
Auðvitað vill Samfylkingin ekki hvalveiðar, en það hefur ekkert með náttúruvernd að gera. Nákvæmelga ekkert. Samfylkingin vill ekki að neitt sé GERT, og hvalveiðar fela í sér AÐ GERA eitthvað, og það sem verra er, GERA eitthvað sem EINHVER ER ÓSAMMÁLA. Í því felst fordæming Samfylkingarinnar.
Við sjáum þetta hjá öllum ráðherrum þess flokks og þeim sirkus sem þeir kalla borgarstjórnarflokk, að þá sjaldan þeir neyðast til að GERA eitthvað (þ.e.a.s. koma sér ekki undan því með skipan nefnda eða ráða), þá kokka þeir alltaf hlandvolgan graut sem engum finnst góður en engum heldur beinlínis óætur. Allt sem heitir krydd eða almennileg eldamennska eykur hættuna á að einhver, einhvers staðar, einhvern tíma verði mögulega, kannski ósáttur, og það er glatað atkvæði dán ðe læn.
Mér er slétt sama um hvalveiðar, en mér finnst hins vegar alveg góð og gild ástæða að veiða hvali þegar einhverjir sem hafa ekkert um málið að segja banna okkur það, svona bara af því bara. Nú, eða bara til að pirra Árna Finnsson, sem er án ef auðpirraðasti maður landsins.
![]() |
Hagsmunum fórnað með veiðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmenningarhugtakið er brenglað
19.5.2008 | 10:17
Tvennt í umræðu um innflytjendur er gríðarlega skaðlegt.
Annars vegar eru það vitleysingar eins og þessir í Frjálslyndu-Nýju-Afli sem eru bara á móti útlendingum, punktur, en reyna að fegra þá skoðun sína. Ísland fyrir Íslendinga, skrifaði de facto formaður flokksins um daginn, og það meinar hann. Varaformaður flokksins undirstrikaði svo þá afstöðu flokksins þegar hann sagði að miklu betra væri að "hjálpa" flóttamönnum þar sem þeir eru núna, og virðist vilja henda í þá einhverjum hrísgrjónum og teppum í flóttamannabúðum en að bjóða þeim framtíð á öruggum stað.
Hins vegar eru það blábjánarnir sem vilja leyfa hverjum sem er að koma til landsins og gera það sem þeim sýnist, meira að segja að fara eftir þeim lögum sem þeir kjósa hverju sinni. Umburðarlyndi, kalla þeir það. Víðsýni, á tyllidögum. Fjölmenningu, þegar þeir eru að ausa úr skálum heilagrar vandlætingar sinnar.
Ég vil bjóða útlendinga velkomna til Íslands. Þjáða sem hrausta, konur sem karla, hvernig á litinn sem þau eru. En hins vegar verður fólk sem hingað kemur að sætta sig við þau lög og þær reglur sem hér gilda, annars verður fólkið að finna sér annan stað að vera á. Útlendingar sem ekki hafa ríkisborgararétt, og brjóta hegningarlög (t.d. fíkniefnalöggjöf) eiga að afplána hér á landi (nema samningar kveði á um annað) og vísa svo úr landi og meina að snúa hingað aftur. Ekkert flókið.
Hér á landi er töluð íslenska, og útlendingar sem hingað flytjast eiga að læra íslensku, og engar refjar.
Útlendingar sem koma til landsins eru eins og gestir í heimahúsi, sem mögulega er boðið að gista til langframa. Gestunum verður að lítast á húsnæðið og vera sáttir við þær reglur sem gilda á heimilinu, annars geta þeir farið annað. Gestir geta ekki komið inn og sagt "jú, mér líst vel á þetta en það verður að breyta reglunum til að ég vilji vera". Húseigandi á þá að segja: "já er það? Viltu þá ekki bara fara eitthvað annað ef þetta er ekki nógu gott fyrir þig?"
Ekki flókið, ekki rasismi, ekki þröngsýni. Það er merkilegt hvernig fólk eins sem er í flokki Kolbrúnar Halldórsdóttur prédikar að það sé ótækt að skipta sér af því hvernig útlendingar haga sér á Íslandi, en hún svo sjálf setur upp höfuðslæðu þegar hún er í heimsókn í arabalöndum. Aðlagar sig að kröfum í þeirra heimalandi en vill ekki setja kröfur á þá hérna.
Rífum þetta upp úr rasismaumræðu Frjálslyndra sem vilja ekki útlendinga, en gætum þess jafnframt að detta ekki ofan í staurblindnispytt sósíalistanna sem vilja bara veita útlendingum réttindi en engar skyldur.
Við megum ekki láta Frjálslynt-Nýtt-Afl hertaka umræðuna og gera alla svo hrædda við að krefjast þess að innflytjendur takist á herðar skyldur jafnframt því að öðlast réttindi. Og að sama skapi megum við ekki láta fjölmenningarkverúlantanna stjórna umræðunni, því þeir virðast trúa því að allir útlendingar séu góðir og enginn vilji gera neitt illt.
![]() |
Dönsk stjórnmál á suðupunkti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)