Vinstri Grænir = Afturför og lífsgæðakúgun
25.6.2008 | 21:06
Vinstri Hreyfingin Grænt Framboð (eins og leiðinlegri þingmenn þess flokks kalla samkundu sína undantekningalítið) er með þessu að kalla eftir algeru hruni hagkerfisins á Íslandi. Sem er svo sem það sem þeir hafa boðað og kallað eftir undanfarna áratugi í margnefndum kommúnistaflokkum þeim sem landsins stækustu afturhaldsseggir hafa prýtt.
VHGF virðist ekki skilja hvernig hjól efnahagslífsins virka. VHGF virðist halda að til sé einhver dularfull uppspretta auðs (frá auð-valdinu, væntanlega) sem á réttilega heima hjá öðrum en þeim sem skapa verðmæti í samfélaginu.
VHGF virðist vera á þeirri skoðun að auðlindir okkar skuli ekki nýta, því nýting þeirra getur haft í för með sér breytingu á þeim eða röskun.
VHGF virðist, samkvæmt veikburða og veruleikafirrtum málflutningi kaffihúsakverúlantanna sem tala sífellt fyrir hönd þess flokks, vera alfarið á því að fólk sé miklu betur sett sveltandi úti í vegkanti, með öllu óheimilt að sjá sér farborða, en með ósnortna náttúru til að deyja í, frekar en að sýna stórhug og dug og sjá sér og sínum farborða með nýtingu þeirra auðlinda sem landið okkar prýða.
Ef fólk virkilega leggur við hlustir þegar VHGF byrjar grátkór sinn, þá komast menn fljótt að því að þeir eru búnir að eyða hverra einustu skattkrónu um það bil 12 sinnum með "tillögum" sínum. Í huga hinna veruleikafirrtu VGHFista snýst réttlæti um að þjóðnýta allt og alla (enda er í þeirra huga engum treystandi til eins eða neins nema ríkið hafi fulla og algera umsjón með öllu okkar lífi), og "skynsemi" um að hreinlega banna alla nýtingu auðlinda.
Ég fagna hins vegar því þegar kjánaprikin í þessum hjákátlega flokki hefja sinn rammfalska forræðishyggjusöng. Forsöngvarinn mótmælir harðlega lögleiðingu bjórs í fyrsta erindi lagsins, en notar svo bruggverksmiðju sem dæmi um frábæra einyrkjastarfsemi í erindi tvö. Hinn laglausi hljómborðsleikari glamrar á gamlan skemmtara um það hversu dásamlegt það væri ef allt þetta viðbjóðslega bankamannapakk myndi verða rekið úr landi, þá yrðu sko allir glaðir.
Ég fagna því, vegna þess að við sjáum þá hvar vitleysismörkin liggja. Þegar VHGF treður upp, þá vitum við um leið hver er heimskulegasta afstaða í hverju máli fyrir sig. Og þar af leiðir getum við alltaf haldið umræðunni hægra megin við þennan núllpunkt sem VHGF færir okkur. Jú, VHGF er Leoncie stjórnmálanna, sjálf sannfærð um eigið ágæti, en í huga flestra annara mælikvarði á botninn.
Þá væri ekki úr vegi að spyrja VHGF bandið hvað þau leggja til í staðinn fyrir eðlilega nýtingu auðlindanna? Hvaðan eiga allir peningarnir að koma til að þjóðnýta þjóðfélagið og leggja af allt sem heitir einstaklingsfrelsi og einkaframtak? Svörin sem hafa hingað til komið í viðlögum sveitarinnar eru "bara eitthvað annað" og "frá hinum ríku". Gallinn er bara sá að "bara eitthvað annað" er doldið óljóst, og "hinir ríku" færa sig bara út úr landi ef þessi falska hljómsveit kemst í aðstöðu til að banna alla aðra tónlist nema sína eigin.
VG: Vilja bjarga Þjórsá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Grein Líberals hér að ofan, er hvorki meira en né minna en skólabókarbæmi um hugsunarhátt lítilla pabbadrengja sem uppfullir eru af pabbapólitík. Svona kútar, veit ég, hafa aldrei komist svo langt á þroskabrautinni, og komast flestir aldrei, að hafa myndað sér sjálfstæða skoðun á einu eða neinu og allrasíst pólitík. Ekki vefst samt fyrir þessum grænjöxlum, að kalla meinta pólitíska andstæðinga sína fífl og asna, já og ýmislegt þaðanaf verra; ásaka þá um að hafa ekki vit á stjórnmálum né heldur hvernig auðmagnið verður til og hverra hendur skapa það auðmagn. Auðvitað blása litlu pabbadrengirnir á náttúrvernd, félagsleg viðhorf og þjóðfélagslegan jöfnuð og líta hiklaust, af einhverjum ástæðum, á umhverfisvernadarsinna og sósíalista (jafnaðarmenn) sem svarna óvini sína.
En það skulu Líbéral og hans nótar vita, að þeir eru skemmtilegir, að ég ekki segi hægilegir, á sinn hátt, um það vitnar fölskvalaus hreintrúarstefna þeirra, þrátt fyrir að hún haldi hvorki vatni eða vindi þegar á reynir.
Jóhannes Ragnarsson, 25.6.2008 kl. 22:24
Ég er aldeilis ekki kominn af róttækum vinstrimönnum, öðru nær. Hinsvegar gaf ég mér tíma tiltölulega snemma á lífsleiðinni til að hugsa pólitíkina frá fleiri hliðum en þeirri einu sem reynt var að innprenta mér í æsku.
Því miður á ég afar bágt með að líta á VG sem vinstriflokk, af ástæðum sem ég ætla ekki að tíunda hér, en leyfi mér að vísa í staðin á bloggsíðuna mína, en þar hefi ég oft og iðulega viðrað skoðanir mínar á VG.
Jóhannes Ragnarsson, 25.6.2008 kl. 23:44
Í hverju liggur þessi týpíski málflutningur sem þú nefnir, SkúliS? Þú verður að útskýra það betur svo fólk skilji fræðin þín.
Jóhannes Ragnarsson, 26.6.2008 kl. 09:12
Jónína er búin að fá að borða, sé ég.
Það er nú svo merkilegt að það er víst algerlega bannað að gagnrýna og hæðast að vinstrimönnum, en þeim leyfist sjálfum að ata aur yfir hægrimenn; finnst það sjálfsagt mál.
Vinstrimenn hafa í gegnum tíðina verið orsakavaldar mestu félagslegu hamfara samfélagsins, við munum síðast eftir ógnarstjórn þeirra í Reykjavík sem skildi borgina eftir með sviðna jörð fjárhagslega.
Þessi týpíski málflutningur, Jói, er að pappakassar eins og þú telja að vinstrimennska sé svo göfug því allir "sjálfstætt hugsandi" aðilar hljóti að vera vinstrimenn, en allir hægrimenn séu slíkir til að herma eftir forfeðrunum.
Í því felst heimska ykkar, og þetta er ástæðan fyrir því að ég, og fleiri hægrimenn, teljum ykkur vinstrimenn vera almennt verr gefna en gerist og gengur. Ekki vegna hugmyndafræðinnar, heldur vegna hinnar ímynduðu mórölsku yfirburðarstöðu sem þið teljið ykkur hafa. Mínir forfeður héðan og þaðan úr stjórnmálum, og ég sennilega sá pólitískasti í minni fjölskyldu í marga ættliði. En ég er hægrimaður af því að ég trúi ekki á ríkisafskipti, forræðishyggju, eða sósjalisma. Þeir sem eru ekki sammála mér eru það ekki, gott og vel.
Að segja að heimskingjar séu yfirleitt vinstrimenn (heimskingjar í sérstökum skilningi þess orðs) er ekki hið sama og að segja að vinstrimenn séu almennt heimskingjar. Ef þú ert sæmilega vel gefinn (getur verið heimskingi þó þú sér klár) ættirðu að skilja það. Ég reikna ekki með að hin svanga detoxdrottning skilji það, hins vegar. Ég hef einhvern vegin rosalega litla trú á því að Steingrímur og Ögmundur séu mennirnir til að ákveða hvað hver einasti landsmaður má og má ekki gera.
Dæmi um heimskuna í vinstrimönnum er umræðan um ESB. Í huga þeirra (ykkar?) er bara hægt að hafa eina skoðun á ESB, þeir sem eru á annari skoðun en þeirri tilteknu eru bara að kæfa umræðuna. Drepa hana. Vinstrimenn skilja hreinlega ekki að til sé fólk sem er þeim ósammála, og vilja helst útrýma því með öllu svo hægt sé að stunda almennilegt lýðræði.
Og svo tek ég fram að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki hægriflokkur í dag, heldur illa dulbúinn krataflokkur sem skrönglast um á miðjunni og þorir ekki að taka afstöðu í einu eða neinu. Hægriflokkur myndi lækka skatta, draga úr ríkisafskiptum og hætta að endalaust miða umræðuna við lægstu samnefnarana í þjóðfélaginu.
Liberal, 26.6.2008 kl. 12:40
Takið eftir því, að í svörum Jóhannesar felast engar lausnir á vandamálinu. Hann reynir ekki einusinni að verja málstaðinn, kannski vegna þess að hann getur það ekki. Þess í stað ræðst hann með níð gegn greinarhöfundi.
Gulli (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 14:45
Ekki hef ég orðið var við að hægrimenn reiði vitið meir í þverpokum en aðrir menn, Líbéral litli, og er skemmst að lesa skrif þín til að sannreyna það.
En hvaða ,,vandamál" er það, Gulli, sem ég svara ekki og hef ekki lausnir á? Og ennfremur: Hvaða níð er það sem ég hef notað á greinarhöfund?
En hvernig stendur á því að Líbéral, svona helvíti kotroskinn sem hann er, og auk þess handhafi hins eina sanna tóns í stjórnmálum, skuli vera svo óhuggulega blauður að hann þori ekki að skrifa undir nafni?
Jóhannes Ragnarsson, 27.6.2008 kl. 12:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.