Greinilega próf að klárast
8.12.2008 | 15:23
Snillingar. Mótmælin eru komin í hendurnar á trukkurum sem ganga um, gáfnafarsins vegna, í mokkasínum og grunnskólakrakka sem höfðu helst áhyggjur í síðustu niðursveiflu hvor væri flottari, Tímon eða Púmba.
Nú er bara tímaspursmál hvenær menn eins og Sturla mæta með handklæði um hausinn og segjast vera að berjast fyrir okkur hin, eða að fermingarbörn segist vera að mótmæla, því það sé svo mikil stemming.
Munurinn er sá að síðari hópurinn eldist og þroskast, en fyrri hópurinn keyrir um á margra tonna stálferlíkjum á vegum landsins.
Guð hjálpi okkur.
Ólæti á þingpöllum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Guð hjálpi okkar vegna skoðanna eins og þinna.
Nemar og trukkabílstjórar hafa alveg jafn mikinn rétt á að mótmæla eins og aðrir... og greinilega bestir í því ef það er eitthvað að marka þessa frétt.
En breiddu bara upp fyrir haus og láttu eins og þú sjáir ekki að það er verið að fara illa með þig
Heiða B. Heiðars, 8.12.2008 kl. 15:29
Mótmælin eru ekki komin í hendurnar á einum eða neinum. Allir hafa rétt til að mótmæla illri meðferð eða stefnu stjórnvalda í hvaða máli sem er og það veitir sannarlega ekki af að sem fjölbreytilegustu hópar hafi sig í frammi.
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 15:42
Sammála fyrsta ræðumanni. Þetta er bölvuð vitleysa.
Helgi , 8.12.2008 kl. 15:44
Og þessu liði er frjálst að mótmæla hverju sem er, en skemmdarverk og lögbrot eru ekki mótmæli - það eru skrílslæti. Það er soldið merkilegt að hér skuli fólk halda því fram að ef menn brjóta lög í nafni mótmlæa, þá sé það bara allt í lagi.
Nú er búið að stinga þessum Hauki enn einu sinni í steininn fyrir svona barnaskap. Er næsta mál á dagskrá að brjótast, aftur, inn á lögreglustöðina og "frelsa" hann?
Þeir sem fara illa með mig eru þessir rassálfar sem þykjast mæla fyrir mína hönd (málsvarar almennings, eins og þeir kalla sig) og hegða sér eins og hálfvitar. Kannski tala þeir fyrir ykkar hönd, og þá er það bara svoleiðis. En mikið held ég að þið gætuð fengið ykkur betri málsvara en óuppalda krakkaskratta sem vita nákvæmlega ekkert í sinn haus.
Liberal, 8.12.2008 kl. 17:12
Hvaða skemmdarverk ertu að tala um? Er það skemmdarverk að hafa hátt?
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 17:16
Eva, gott að þú skyldir minnast á það. Síðast þegar ég gáði, þá er það skemmdarverk að nota trjádrumb til að brjóta rúðu í húsi (lögreglustöðin er jú hús). Það er skemmdarverk að sletta málningu á hús (Valhöll og Seðlabankinn eru jú hús). Það er líka skemmdarverk að grýta eggjum í hús, og Alþingishúsið er jú hús.
Setjum nú sem svo að mér væri eitthvað uppsigað við þig og vildi koma þeirri óánægju minni á framfæri við þig með því "að hafa hátt" eða "mótmæla". Ég myndi mæta í verslunina þína og byrja á því að brjóta þar rúður og ryðjast inn. Svo tæki ég málningu og sletti upp um alla veggi og kveddi svo með vel köstuðum eggjum á heppilega staði.
Eitthvað segir mér að þú myndir ekki hrósa mér fyrir að vera svona duglegur að mótmæla og hafa hátt, og hvað þetta hefði nú verið allt friðsælt hjá mér og fínt. Ætli þú myndir ekki frekar kæra mig fyrir skemmdarverk, nú eða leggja á mig bölvun :).
Mótmælendur mega hafa eins hátt og þeim sýnist, gala sig raddlausa hvar sem þeim sýnist á almannafæri. Þeir mega hins vegar ekki skemma eignir annara (þeir mega hins vegar alveg sletta málningu á sig sjálfa) eða ryðjast inn á eignir annarra. Þá eru þeir farnir að brjóta lög. Þér finnst það kannski léttvægt, og það er þá bara þín skoðun. En ef þú hvetur hér með alla þá sem er uppsigað við þig að mæta til þín og skemma heimili þitt og vinnustað þá skal ég alveg sleppa því að kalla þig hræsnara.
Liberal, 8.12.2008 kl. 17:29
Þú ert semsagt fylgjandi þessari aðgerð í dag, þar sem engin 'skemmdarverk' voru framin?
Ég get alveg lofað þér því að væri þér uppsigað við mig eru engar líkur til að ég myndi hundsa þig í heilar 9 vikur. Auk þess er þessu fólki ekki 'eitthvað uppsigað' við ríkisstjórnina og störf Alþingis, heldur er það fokreitt yfir að hafa verið hneppt í skuldafjötra um ókomin ár án þess að hafa nokkuð til þess unnið. Ef ég hefði stolið af þér um 5 milljónum og neitaði svo bara að gangast við því, og löggan gerði ekki neitt í málinu heldur, þá þætti þér sennilega lítið ofbeldi í því fólgið að garga á mig og kasta eggjum í vinnustað minn.
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 17:37
Nei, af því að ég er ekki sammála mótmælendum. En að því slepptu, þá hefði ég ekki séð neitt athugavert við mótmælin, sem mótmæli, ef þessir krakkakjánar hefðu ekki ruðst inn í Alþingi og brotið þar með stjórnarskrána, eða hlaupið niður starfsmann þingsins.
(36. gr. Alþingi er friðheilagt. Enginn má raska friði þess né frelsi.)
En þannig að þér finnst að það megi brjóta lög og fremja skemmdarverk ef þér finnst vera tilefni til? Það sé aukaatriði hvort það hafi verið framið lögbrot eða ekki, svo fremi að þú sért bara nægjanlega ósátt?
Það er ekki búið að hneppa einn eða neinn í skuldafjötra, því fyrir skuldunum eru til eignir. Þú ert kannski ekki sammála því, en það er þá bara þannig.
Þetta snýst ekki um það hvað þér, eða mótmælendum, finnst vera "lítið" ofbeldi, heldur þeim sem fyrir ofbeldinu verður. Nú hafa mótmælendur valdið fjölmörgum verulegum pirringi í nokkrar vikur. Megum þeir þá, sem eru pirraðir út í mótmælendur og vilja mótmæla þeim, mæta fyrir utan verslun þína á morgun og brjóta rúður og sletta málningu? Eða er það bara eitthvað sem við megum gera eftir 9 vikur eftir að hafa hvatt ykkur til að hætta, kröfu sem ég reikna með að þið hunsið? Megum við kannski gefa okkur það að þið hættið ekki að pirra okkur með þessum bjánagangi ykkar, og byrja þá bara strax að rústa búðinni þinni? Þér þætti það eflaust sjálfsagt mál, er það ekki?
Liberal, 8.12.2008 kl. 18:16
Þú gætir með fullum rétti vísað í stjórnarskrána ef yfirvöld væru ekki löngu búin að brjóta svo illa gegn henni að hún er marklaust plagg í dag. Ég nefni sem dæmi landráð Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar þegar þeir skráðu okkur í stríð gegn þjóð sem ekkert hafði gert okkur, og stofnuðu þar með öryggi okkar í voða. Margsinnis hefur lögreglan komist upp með að svívirða stjórnarskrárbundinn rétt manna til mótmælaaðgerða. Dæmdur þjófur kemur beint ur fangelsi og inn á þing. Eigum við að halda áfram?
Mér finnst allt í lagi að brjóta lög sem þjóna þeim tilgangi að tryggja vald fárra með því að kúga heildina. Það hefur ekkert með mitt persónulega ósætti að gera. Og já, skemmdarverk geta verið mjög áhrifarík aðgerð, einkum gagnvart stórfyrirtækjum.
Ofbeldi er það að nota yfirburði til að meiða eða undiroka aðra manneskjusem ekki er í aðstöðu til að verjast. Þeir yfirburðir geta t.d. verið líkamlegur styrkur, greindarfarslegir yfirburðir, vald (formlegt eða óformlegt), vopn eða auður.
Það er ekki ofbeldi að garga á þingmenn. Allra síst þegar þeir hafa þann kost að láta lögreglu (sem hefur yfir að ráða bæði formlegu valdi og vopnum) um að losa sig við óþægindin.
Ef þú ert pirraður á mér og mínum mótmælum, þá legg ég til að þú komir og ræðir málin við mig. Ég mun ekki hundsa þig heldur svara þér af rökfestu. Annars er töluverður munur á því að ráðast gegn einstaklingi sem ekkert vald hefur og hefur, eða að ráðast gegn stofnun sem er í óða önn við að kippa stoðunum undan lýðveldinu.
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 19:03
Aaaaahhhhhhhh.... nú skil ég. Þér finnst í lagi að brjóta lög, því þér finnst að aðrir hafi brotið lög á þér. Ok, nú skil ég. Þannig að af því að ÞÚ ert á móti valdhöfum, þá er í lagi að brjóta lögin og vaða gegn þeim sem kusu fyrir 18 mánuðum síðan. AF því að þú ert ósammála, er allt í lagi að brjóta réttinn. Látum okkur nú sjá... við sem þjóð kusum fyrir hálfu öðru ári. Við kusum eitthvað sem þú ert ekki hrifin af. Lýðræðið er stundum þannig, nefnilega. Og þá er í lagi að brjóta lög. Til að koma frá þeim sem þú ert á móti, því þú hlýtur að vera talsmaður allra. Þeir sem kusu annað en þú kaust, eru bara vitleysingar og vita ekki hvað er þeim fyrir bestu. Ofbeldi er t.d. að slasa þingvörðinn í smábarnalátunum í dag. Það er eiginlega ofbeldi í sinni tærustu mynd, myndi ég segja. Það er líka ofbeldi að reyna að brjóta á bak aftur lýðræðið, því við kusum í fyrra og þá kusum við aðila til að stjórna í 4 ár, sama hvað tautar og raular. Ég minnist þess ekki að við höfum kosið til Alþingis fólk sem átti að stjórna, bara ef allt væri í himnalagi en annars vildum við kjósa aftur. Ég þarf svo sem ekkert að ræða málin við þig, ekki frekar en mótmælendurnir í dag "ræddu málin". Líttu á það sem svo að nú sé ég að mótmæla, ég er með spjald þar sem á stendur: "Niður með mótmælendur!" og "Drögum Hauk til ábyrgðar!" Nú skalt þú meta það hvort þú tekur mark á mér og hættir, eða hvort þú metur sem svo að ég hafi rétt til að mótmæla mótmælum, en þú ætlar samt að halda áfram af því að við erum bara ekki sammála. Og hvernig sú aðstaða leiðir til þess að ég megi eyðileggja búðina þína og brjótast inn hjá þér er eitthvað sem ég ekki alveg skil. En þessi síðasta setning er ansi áhugaverð, þér finnst í lagi að beita ofbeldi gegn sumum en öðrum ekki, stundum en stundum ekki. Því ofbeldi er vont stundum en stundum ekki. Og hver metur það hvenær ofbeldi er réttlætanlegt og hvenær ekki? Ómennið sem lemur konuna sína af því að honum finnst hún "eiga það skilið", eða krakkakjánanum sem ryður um koll starfsmanni Alþingis því hann er hluti af "stofnun sem er í óðaönn að kippa stoðunum undan lýðveldinu"? Þú færð að kjósa í síðasta lagi eftir tvö og hálft ár. Eins og við öll. Það er ekki minn vilji að kosið verði fyrr, þó ég muni ekki kjósa þá flokka sem nú eru í framboði. Ég vil að pólitíkusar venjist ekki á það að geta verið í vinnunni bara þegar vel gengur, en hlaupið í burtu þegar á móti blæs. Þú boðar það sem reynt var í Sovét og er praktiserað í Kína, Norður Kóreu og Kúbu. Það er í lagi að brjóta lög ef þér sjálfri finnst það í lagi. Vandamálið verður til þegar aðrir eru þér ósammála. Þú vilt leyfa og banna samkvæmt því sem þú vilt, ég vil að við öll ákveðum hvað má og hvað ekki, og svo eiga allir að fara eftir því. Í því liggur munurinn.
Liberal, 8.12.2008 kl. 19:37
Þeir sem kusu Sjálfstæðisflokkinn fyrir 18 mánuðum hafa flestir hverjir skipt um skoðun, af skiljanlegum ástæðum, þannig að ég er ekki að tala bara fyrir sjálfa mig.
Ég þarf að vera mætt á byltingarfund eftir nokkrar mínútur en skal með ánægju taka mér tíma til að svara þér um leið og ég hef gott tóm til þess.
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 19:47
Liberal, það er búið að setja fólk í skuldafjötra. Með verðtryggðu húsnæðisláni á tímum verðfalls á húsnæðismarkaði og verðbólgu þá er íbúðin sem var veð fyrir skuldinni oft á tíðum ekki upp í lánið. Ef þú vilt losna við íbúð sem þú keyptir á 20mkr fyrir 4 árum núna fengirðu hugsanlega 16mkr fyrir hana í dag. Ef þú tókst 80% lán þá er það líklega farið að nálgast 18mkr svo þarna á milli vantar 2mkr. Og hérna getur fólk ekki látið bankann hafa lykilinn og losnað þannig við skuldina. Nei, það þarf að gjörasvovel að borga mismuninn eða fara í gjaldþrot. Svo þetta er skuldafjötrar. Og þú virðist undrandi á reiði fólks?
Anna (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 20:44
Djöfull ertu vitlaus
Gunnar Þór Ólafsson, 8.12.2008 kl. 21:11
Mótmælendur á pöllum Alþingis í dag verða væntanlega ráðherrar framtíðarinnar.
Allavega höfum við skýrt dæmi þess. Össur Skarphéðinsson gargaði af pöllum Alþingis af minna tilefni en í dag þegar hann var stúdent.
Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 21:42
Get ekki sagt annað en að mér sýnist Liberal vera sá eini með viti hérna.
Finnst þessi hringavitleysa í henni Evu Hauks vera viti borinni manneskju til skammar. Hún segir að það sé "í lagi að brjóta lög vegna þess að lög hafa verið brotin". Ókei, skv. þínum siðferðiskvarða má gera það.
Segjum nú að skv. siðferði einhvers Jóa úti í bæ sé í lagi að brjóta lög gagnvart þér vegna þess að þú brýtur landslög. Segjum að Jói, í þeirri trú, brenni húsið þitt (... og nei, ég er ekki að hóta þér, ég er bara að taka dæmi). Er það í lagi?
Værir þú ekki að nota nákvæmlega sömu rök og Jói fyrir því að brjóta lög? Finnst þér Jói hafa rétt fyrir sér?
Þú skalt hugsa um þetta áður en þú mælir lögbrotum bót.
Gummi (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 22:42
Gummi: Siðleysi þess að valdhafar sem eru búnir að spila rassinn jafn rækilega úr buxunum og þessi ríkisstjórn eigi að víkja, er ekki neitt einkasiðferði hjá mér. Það myndi hvergi í hinum Vestræna heimi viðgangast að enginn yrði rekinn og enginn þyrfti að segja af sér ef eitthvað sambærilegt hefði skeð. Þegar valdhafar sýna af sér hegðun sem brýtur svo alvarlega í bága við almenna réttlætiskennd þá rís fólk gegn þeim.
Einnig skaltu gæta þess að Jói úti í bæ þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að ég sjálf, eða vinir mínir, verði látnir um að rannsaka meintar sakir á hendur mér. Það er hinsvegar eins og að ganga í gegnum nálarauga að ætla að fá valdhafa sakfellda.
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 23:29
Liberal; varðandi ofbeldið þá réðist enginn á þennan þingvörð. Mér skilst að hún hafi dottið í troðningnum. Slíkt hefur margsinnis hent mig án þess að hafi hvarflað að mér að kalla það ofbeldi.
Já og Liberal, ef þér tekst að draga þúsundir manna á útifund til að mótmæla mínum aðferðum, þá mun ég taka það til rækilegrar íhugunar.
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 23:34
"Þegar löghlýðni getur valdið meiri skaða en óhlýðni, er rétt að óhlýðnast"
Immanuel Kant
http://en.wikipedia.org/wiki/Immanual_Kant
Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 00:05
Þú virðist ekki gera þér grein fyrir Eva, að þú ert ekki málsvari fólksins. Ég get vel tekið undir að þetta sé ekki "einkasiðferði" þitt, en þú verður einnig að gera þér grein fyrir því að þetta er ekki allsherjarsiðferði allra. Ekki nærri því.
Það má vel vera að einhverjir ráðherrar megi víkja, eins og Árni Mathiesen. Það kemur hinsvegar ekkert málinu við. Það sem málið snýst um er að lögbrot eru ekki rétta leiðin. Það að æsa óharðnaða krakka upp í einhver skrílslæti og ofbeldisverk kallar ekki fram kosningar.
Mér finnst bara alveg ótrúlega skrýtið að fólk leyfi sér að tala um lýðræði um leið og það talar um valdarán. Valdarán er einmitt andstæðan við lýðræði. Þeir sem sitja núna við völd eru lýðræðislega kjörnir og fyrr eða síðar færð þú að hafa þín áhrif á hvort þeir sitji þar áfram.
Það er því ekkert lýðræðislegt við það að brjóta lög eða reyna að ná völdum með ofbeldi, sama hvað þú segir um siðgæði stjórnmálamanna. Hvorki siðferði þitt, mitt né annarra verður nokkurntíman réttmætur mælikvarði á hvað sé rétt og rangt. Slíkt ákveðum við í kosningum, beinum og óbeinum, ekki með valdaránum, ofbeldi og lögbrotum.
Gummi (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 00:15
Þeir sem ekki þora að skrifa undir nafni, eru einfaldlega ekki marktækir. Því miður, vinur.
Torfi Magnússon (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 16:27
Hvað er það nákvæmlega sem gerir nafnlausa "ekki marktæka"?
Sýnist fólk nota þessa afsökun aðallega til þess að víkja sér undan því að svara.
Auk þess get ég vel skilið nafnleysi fólks þegar það er trítilóður lýður anarkista, sem er tilbúinn til þess að ganga ansi langt í skoðanakúgun sinni, sem veður hér upp með ofbeldi og kastar málningu á opinberar stofnanir og hús í einkaeigu, jafnvel hús venjulegra borgara.
Já, nú er gósengtíð hjá ykkur lýðskrumurunum. Jánkið öllu sem maðurinn með míkrófón segir í vitstola múgæsingu án þess að skeyta hið minnsta um staðreyndir málsins.
Gummi (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 18:07
Margur er argur þótt ei sé hann vargur.
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 21:01
Ég held að í öllum þessum æsingi gleymist oft að stjórnvöld séu í raun og veru að reyna sitt besta til þess að laga málin. Það er alveg á hreinu að í aðdraganda bankahrunsins voru mörg mistök gerð. Það má kenna stjórnvöldum, Seðlabanka, viðskiptabönkunum, útrásarjöfrunum og almenningi Íslands líka um þessi mistök. (ég segi almenningi því það var jú almenningur sem skuldsetti sig upp fyrir haus með erlendum lánum og lifði lífinu langt umfram það sem efni stóðu til)
En núna þegar komið er stórt vandamál sem þarf að leysa, þá fara furðufuglar eins og Eva Hauksdóttir og afkvæmi hennar á stjá og tala um að ráðamenn séu að sýna valdníðslu og séu að stela af sér. Þetta er bara fólk sem er að vinna daga og nætur við að reyna að leysa málin. Það er ekkert auðvelt að vera ráðherra þessa dagana, það er ekki eins og ríkisstjórnin fari í peningabað saman og flissi yfir því hvað þeim tókst að stela miklu frá almenningi.
Við stöndum frammi fyrir miklum erfiðleikum um þessar mundir og ég held við munum komast fyrr og betur í gegnum þetta ef við reynum samhuga að leysa málin.
Ég veit hinsvegar að ég tala fyrir tómum eyrum hjá fólki eins og Evu, hún sér glæpamenn í hverju horni.
Liberal, ég mundi vilja standa við hliðina á þér í næstu mótmælagöngu gegn mótmælendum ef ég má.
Friedman, 9.12.2008 kl. 23:01
Einfaldlega vegna þess að ef þú ert ekki nógu mikill maður til að standa með skoðunum þínum þá áttu bara að hafa þær fyrir þig.
Torfi Magnússon (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 23:46
Semsagt ég má ekki tjá mig nema segja til nafns?
Rosalega væri illa komið fyrir þjóðinni og tjáningarfrelsi undir þinni stjórn.
Gummi (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 08:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.