Og til hvers ætti að ræða ESB?

Það er ekki eins og það þjóni hagsmunum Íslands að vera í ESB.

Ef menn geta horft framhjá fullyrðingum Eiríks Bergmanns, aðdáanda ESB #1, þá rennur upp fyrir fólki að það hefur enginn getað sett fram nein RÖK fyrir því að Ísland gangi í ESB.  Þegar gengið er á meðlimi ESB sértrúarsafnaðarins, þá byrja þeir auðvitað á sama söngnum, en að baki honum er ekkert annað en taugaveiklun og undarlega freudískur vilji til að afsala sér allri ábyrgð á sjálfum sér.

"Ef við göngum í ESB lækkar matvælaverð um marga tugi prósenta!" er algeng mantra ESB sinna.  Er það virkilega svo?  Af hverju ætti matvælaverð að lækka?  Jú, af því að tollar innan ESB eru svo miklu lægri og hagstæðari neytendum en hér á Íslandi.  Einmitt það, og síðan hvenær ráðum við ekki sjálf hvaða tollar og aðflutningsgjöld eru í gildi á Íslandi?  Ef á annað borð er vilji til að hafa lægri tolla og slíkt, af hverju ekki bara að lækka það sjálf, í stað þess að ganga í ESB og láta sambandið lækka það fyrir okkur?  Þetta er soldið eins og að ákveða að flytja til að komast í hreina íbúð, í stað þess einfaldlega að taka til.

"Ef við göngum í ESB fáum við evruna og svo miklu lægri vexti, og þá þurfa heimilin í landinu ekki að sligast undan háum vöxtum!" er annað vinsælt, sérstaklega nú um stundir.  Jahá... vissulega eru vextir lægri á evrusvæðinu, en fyrir því eru ástæður.  Háir vextir eru við lýði þegar mikill verðbólguþrýstingur er í hagkerfi, og verðbólguþrýstingur stafar af miklum hagvexti (yfirleitt).  Þessir aðilar gleyma (nú eða sleppa viljandi) að minnast á að vaxtastig hverju sinni er stýritæki seðlabanka.  Háir vextir eiga að LETJA eyðslu og HVETJA til sparnaðar, lágir vextir að HVETJA til eyðslu og LETJA sparnað.  Vextir eru verðmiði á peninga, og ef peningar eru dýrir ætti fólk frekar að selja peninga en kaupa (þ.e.a.s. spara frekar en fá lánað).  Hvar eru þrýstihópar sparifjáreigenda sem fagna háum vöxtum á Íslandi og 15% áhættulausum vöxtum á ári?  Vill þetta fólk hoppa yfir í evruna og fá 5% ávöxtun á sparifé sitt?

"Ef við göngum í ESB megum við gera ráð fyrir ca. 8% atvinnuleysi að jafnaði!" Er nokkuð sem heyrist líka oft.... nei, bíðið við, það heyrist aldrei.  En er engu að síður satt.  Innan ESB er mismikið atvinnuleysi, en að jafnaði 8% (t.d. í V-Evrópu).  Það jafngildir að um 16.000 vinnufærir einstaklingar væru án atvinnu hverju sinni á Íslandi.  Staðreynd.  Nema menn vilji trúa því sem leiðtogar sértrúarsafnaðarins hafa sagt, og að hér gildi einfaldlega ekki sömu hagfræðilögmál og annars staðar.

Lönd sem ganga vilja inn í Evrópska Myntbandalagið þurfa að halda fjárlagahalla innan ákveðinna marka, sem og verðbólgu (auk annars).  Ef vaxtaákvörðunarvaldið er fært út úr hagkerfinu til Brussel, þá hafa stjórnvöld bara eitt tæki til að halda verðbólgu niðri (og takist það ekki yrði landinu sparkað úr myntbandalaginu), og það er að stýra í gegnum atvinnuleysi.  Hætta framkvæmdum og gera verktaka atvinnulausa, draga úr heilbrigðisþjónustu og gera hjúkkur og sjúkraliða atvinnulaus. 

Jújú, í dag eru vextir háir og verðbólga mælist 11% á ársgrundvelli (ekki 28% eins og skussar í fjölmiðlum slá fram), en hér er ekki atvinnuleysi að neinu ráði.  Sem þýðir að við öll berum byrðarnar.  Það væri alveg hægt að lækka vexti og draga úr þenslu í þjóðfélaginu með því að segja upp fullt af fólki... láta fáa bera byrðarnar.  Það er líklegast það sem Guðni og Steingrímur vilja.  Lægri vexti á alla, en ca. 16,000 atvinnulausa í staðinn.  16,000 heimili án fyrirvinnu.

Já, göngum endilega í ESB og setjum 16,000 heimili í gjaldþrot.  Og tökum upp gjaldmiðil hvers vaxtastig hentar ekki hagsveiflum landsins.  Allt svo að einstaka kaffihúsakverúlantar geti fengið kósí djobb í Brussel við að skrifa langar skýrslur um nytsemi þess að staðla skilgreiningar á því hvað telst jógúrt og hvað ekki.


mbl.is Ráðherrar á rökstólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Finnbogason

„Hvar eru þrýstihópar sparifjáreigenda sem fagna háum vöxtum á Íslandi og 15% áhættulausum vöxtum á ári? Vill þetta fólk hoppa yfir í evruna og fá 5% ávöxtun á sparifé sitt?“

Þú auglýsir eftir sparifjáreigendum, og er nema von!

Ég sé þó að þú hefur tekið einhvern hagfræðikúrs miðað við þessa færslu. Þessvegna get ég bent þér á að líta á vef Hagstofunnar eða Seðlabankans, þar ættir þú að finna eitthvað um skuldir heimilanna. Ef þú lítur yfir þær tölur sér þú fljótt að heimilli á Íslandi skulda frekar en að spara. Það er vegna þess að sparnaður/eignir heimila hér á landi eru að mestu bundinn í húsnæði þeirra.

Það er allt gott um kenningar um framboð og eftirspurn og Adam Smith og hans ritverk að segja og gott að geta viðrað þær á góðum degi, en við verðum bara að horfa á hlutina eins og þeir eru.

„Já, göngum endilega í ESB og setjum 16,000 heimili í gjaldþrot. Og tökum upp gjaldmiðil hvers vaxtastig hentar ekki hagsveiflum landsins.“

Og þetta er staðreyn segir þú.

Ég veit nú ekki hvernig þú færð þetta út. Þetta er frekar absúrd.Inní þessum tölum þínum eru á nýjustu meðlimir sambandsins, þar sem fyrir var mikið atvinnuleysi sem fer mjög hratt minnkandi og er alveg frábært að fylgjast með þeirri þróun. Einu "gömlu" ESB löndin sem fara yfir 8% eru Frakkland, Þýskaland, Belgía og Grikkland. og fer lækkandi í þessum löndum, nema Þýskalandi. Þetta er rakið til stjórnkerfis og stefnu þessarra landa frekar en Evrópusambandsins.

Í öllum öðrum ESB löndum fór atvinnuleysi lækkandi milli 2004, 2005 og 2006 nema Bretlandi þar sem það stóð í stað 5.4% Það sem men gleyma gleyma gjarnan er að þessi lönd hafa mikið sjálfstæði í efnahagsmálum þrátt fyrir að hafa eigin gjaldmiðil.

Hvað um það. Það er gott að fólk ræði þessi mál opinskátt (þó að vísu þú skrifir undir nafnleynd) einsog þú ert að gera. Ég vil endilega auglýsa eftir frekari og upplýstari umræðu um þessi mál.

Sævar Finnbogason, 28.4.2008 kl. 22:02

2 Smámynd: Liberal

1) Og af því að fólk kýs að skulda frekar en að spara þegar vextir eru yfir 15%, þá á bara að láta alla hagstjórn út í veður og vind, bara svona af því bara?  Jújú, ég hef tekið hagfræðikúrs, og kosturinn við hagfræði er að hún er ansi góð grein.  Þó svo að þú sér henni ekki sammála, þá segir það meira um þig en um greinina.

2) Adam Smith bara svona til skrauts?  Veit ekki betur en að hans kenningar standist tímans tönn. 

3) Atvinnuleysið sem ég nefni bara rugl, ef frá eru talin ÖLL nýju ríkin OG þau stærstu gömlu.  Góður.

Niðurstaða þín er sú að það sem ég segi sé rangt, því á Íslandi gildi önnur hagfræðilögmál en annars staðar, og að það sé alls ekki mikið atvinnuleysi í ESB ef maður bara undanskilur löndin þar sem atvinnuleysi er mikið....

Ég hefði líka haldið að atvinnuleysi færi minnkandi undanfarin ár þegar uppsveifla hefur verið erlendis, og hækki núna, eins og raun ber vitni.  Það ber ekki vott um góða skynsemi að blása á hagfræðilögmál og ákveða sem svo að fyrst Íslendingar vilji ekki spara, sé bara best að leita eftir lágu vaxtastigi, alltaf, svo fólk geti skuldsett sig í hel.

Liberal, 29.4.2008 kl. 07:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband