Ótrúleg heimska Ungra Vinstri Grænna

Bíðum nú aðeins við.  Múgsefjunin í kringum hinn pólitíska rétttrúnað sem VG virðist ástunda líkt og trúarbrögð lítur út fyrir að vera að ná hámarki.

Það er greinilegt að arfleifð og menning okkar er skiptimynt í huga þessara ungu og ofdekruðu krakkakjána sem þrá fátt heitar en að vera hipp og kúl og að allur umheimurinn álíti Ísland Nirvana hippakynslóða samtímans.

Við erum kristin þjóð og höfum verið í þúsund ár.  Tungumál okkar er íslenska, og hefur verið um alla tíð.  Það er ekki þar með sagt að við getum ekki sýnt öðrum tungumálum og öðrum trúarbrögðum fyllstu virðingu, kynnt þau og kennt í skólum og svo framvegis.  En eftir sem áður erum við kristin þjóð, þó ekki séu allir einstaklingarnir kristnir.

En nei, ekki í huga hinna ofdekruðu ungu kommúnista.

Þeim finnst ótækt að kennd séu kristin gildi í skólum, því það er á einhvern hátt móðgun við þá sem ekki eru kristnir.  Þeim finnst eflaust líka ósanngjarnt að útlendingar sem hingað koma séu skyldaðir til að læra íslensku áður en þeir fá ríkisborgararétt.  Því þá erum við bara forpokuð og ekki kúl.

Ég fagna þessu frumvarpi, ekki vegna þess að ég sé "virkur" í kristinni trú heldur vegna þess að ég er stoltur af menningu og sögu minnar þjóðar og þó ég fagni því að hingað komi fólk annars staðar frá, þá hef ég lítinn áhuga á að menning og saga minnar þjóðar sé sett út á Guð og gaddinn, bara til að koma í veg fyrir að kannski finnist útlendingum það oggupínupons óþægilegt að taka eftir að hér hefur fólk búið í nokkuð margar aldir.

Kannski Ung Vinstri Græn ættu að líta upp úr Stalínískum kennslubókum um pólitískan rétttrúnað og íhuga að hætta að lifa í sínum rústrauða fílabeinsturni. 


mbl.is Ung VG lýsa yfir óánægju með þingmenn VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Púkinn er þeirrar skoðunar að mikið í hinni "kristnu arfleifð" séu mistök til að læra af.

Púkinn sér enga ástæðu til að vera stoltur af því sem kirkjan stóð fyrir stóran hluta Íslandssögunnar - það er ekki fyrr en á 19 öld þegar kirkjan missir þu tök sem hún hafði áður, að hægt er líta svo á að hún geri meira gott en illt.

Púkinn, 28.5.2008 kl. 10:28

2 identicon

Íslendingar eru einungis kristin þjóð á pappírnum. Þú talar líka um pólitískan réttrúnað VG, en sérð ekki bjálkan í auganu á sjálfum þér.

 Fyrst þú telur þig vera kristnitrúar, þá skaltu líka fara eftir kristnu siðgæði. Elskaðu náungann og hættu að tala um "ótrúlega heimsku" þeirra sem ekki eru þér sammála í pólitík.

Magnús (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 10:32

3 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Ef „Púkinn“ getur ekki aðgreint á milli kristninnar og mannanna sem iðka þá trú, sérstaklega fyrr á öldum, þá held ég að hann ætti að prófa að láta vírus-skanna sig.

Magnús V. Skúlason, 28.5.2008 kl. 10:32

4 Smámynd: Ísleifur Egill Hjaltason

Stoltur af kristinni arfleifð þessarar þjóðar?! Hvað gerði kristnin fyrir okkur annað en að valda dauða fjölda manna í gegnum aldinnar og stéttaskiptingu með vald kirkjunnar manna algjört yfir landanum?  Það var ekki fyrr en við ásamt restinni af vesturlöndum fórum að hætta að hlusta á kirkjunna sem við fórum að þróast sem samfélag.

Þú ert álíka frjálslyndur og hann Goggi Runni hinumeginn við hafið, liberal. 

Ísleifur Egill Hjaltason, 28.5.2008 kl. 10:33

5 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Svo til áréttingar við nafna minn hérna, að elska náungann er ekki það sama og að elska það sem hann gerir.

Jesús elskar þjófinn en það þýðir samt ekki að hann elski það sem hann gerir, hvort sem hann gerir það í einskærri heimsku sinni eða ekki.

Magnús V. Skúlason, 28.5.2008 kl. 10:34

6 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Í þessu bloggi er gert gott grín að frjálshyggju og einstaklingsfrelsi.  Frekar ómaklega reyndar að minu mati, margir einstaklings- og frjálshyggjumenn eru heiðarlegir og sanngjarnir, en þetta er samt ágæt leið til að sýna fram á fáránleika umræðunnar.

Matthías Ásgeirsson, 28.5.2008 kl. 10:37

7 Smámynd: Liberal

Og hérna rugla menn saman því sem gert hefur verið í nafni kristinnar trúar í gegnum aldirnar, og því hvað er inntak trúarinnar.  Ísleifur virðist ekki átta sig á því og ekki Magnús heldur.

Ef maður er kristinn, má maður þá ekki vera þeirrar skoðunar að ofdekraðar pabbastelpur í UVG séu vitleysingar?  

Þeir sem ekki eru sammála mér í pólitík eru sumir heimskir og sumir klárir rétt eins og gerist og gengur.  Ég veit ekki hvort þú ert klár eða heimskur (þó mig gruni ýmislegt) en þú ert hins vegar alveg gersneyddur skopskyni. 

Liberal, 28.5.2008 kl. 10:55

8 Smámynd: Vantrú

því hvað er inntak trúarinna
Fræddu okkur um inntak trúarinnar og segðu okkur endilega hvernig skólastarf á að byggjast á því.  Hverju bætir klausan um kristna arfleifð við það sem fyrir var í frumvörpunum? 

Vantrú, 28.5.2008 kl. 11:09

9 identicon

Fyrir mér snýst nú málið frekar um aðskilnað ríkis og kirkju - mér finnst óþarfi að vera að troða trú frekar inn í löggjöf og reglugerðir en þegar er, eftir ærna fyrirhöfn undanfarnar aldir við að koma henni þaðan út.

Held að liberal sé óttalegur kjáni. 

Einn grænn (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 11:36

10 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Já, ég hefði haldið að einstaklings- og frjálshyggjumenn teldu að trúmál ættu að vera á vegum einkaaðila (heimila) en ekki hins opinbera (skólanna).

Matthías Ásgeirsson, 28.5.2008 kl. 11:40

11 Smámynd: Liberal

Matthías, þú virðist ekki alveg skilja út á hvað málið gengur.  Það er ekki verið að skylda einn eða neinn til að taka upp eina ákveðna trú.  Þetta snýst um fræðslu og kennslu í arfleifð okkar sem þjóðar.

Eða er það kannski þín skoðun að þá aðeins sé "einstaklingsfrelsi" náð að bara sé kennt það sem allir eru sammála um og enginn móðgast yfir?

Í mínum huga er skoðanakúgun sú sem andstæðingar þessa máls aðhyllast algerlega andstæð einstaklingsfrelsinu, þar sem ég vil að fólk fái sem mestar upplýsingar og móti sér svo skoðun sjálft, en sé ekki gert erfitt fyrir að mynda sér skoðanir bara af því að einstaka þröngsýnir kverúlantar vilja ekki fyrir nokkra muni segja eða gera neitt sem getur móðgað einhvern.

Fólk af öðrum trúarbrögðum eða trúleysingjar geta barasta lært þessa hluti eins og aðra í skóla, það er engin krafa gerð um að þú aðhyllist eitt eða neitt, en þetta er hluti af því sem þú þarft, og átt, að læra.  Punktur.   

Liberal, 28.5.2008 kl. 11:57

12 Smámynd: Ísleifur Egill Hjaltason

Halldór, þú telur að trú sé samfélögum nauðsynleg. Ég bendi nú bara á samfélag vesturlanda seinustu 500 ár þar sem að kristnin hefur verið sett til hliðar og almenn skynsemi  og rökhyggja komið inn í staðinn. Kristin saga okkar er full af hatri, mannvonsku og fjöldamorðum í nafni þeirra trúar. Það skiptir engu máli þótt trúin sé í grunninn góðhjörtuð því að fólk hefur seinustu 2000 ár túlkað hin mörgu og misvísandi tilsagnir biblíunnar í sinn hag.

Síðan ætla ég að vera ósammála með þér að kristin trú sé skárri en hin trúarbrögðin. Ég hef mun meiri trú á trúabrögðum eins og wicca, búddisma og íslam þó þar sé einnig hægt að finna galla á. 

Ísleifur Egill Hjaltason, 28.5.2008 kl. 12:13

13 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Matthías, þú virðist ekki alveg skilja út á hvað málið gengur.

Kæri nafnlausi frjálshyggjumaður.  Ég veit töluvert miklu meira um þetta mál en þú þar sem ég hef kynnt mér það ítarlega nokkuð lengi. 

Þetta tiltekna mál snýst ekki um kristinfræðikennslu.  Ef þú gerir þér ekki grein fyrir því, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið, er ljóst að þú tjáir þig hér af fullkominni fáfræði. 

Væri ekki skárra að þú kynnir þér út á hvað þetta gengur.

Matthías Ásgeirsson, 28.5.2008 kl. 15:32

14 identicon

Matthías, ég held að þú þjáist af "megalomania".


Þórdís (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 16:26

15 Smámynd: Liberal

Matthías, ég veit að þú telur þig vera THE AUTHORITY um þetta mál, en það vill nú svo ansi skemmtilega til að ég veit líka út á hvað málið gengur, en er ekki týndur í pólitískum rétttrúnaði eins og sumir.

Þú virðist halda að það eigi að taka upp skylduaðild að trúarbrögðum, sem er ekki raunin.  Það að kenna eigi kristna siðfræði, eða öllu heldur nota kristna siðfræði sem viðmið í skólastarfi, er í raun ekki annað en að nota samnefnara allra trúarbragða sem slíkt. 

Þú vilt væntanlega banna jólaundirbúning í skólum, því það er jú kristin hátíð.  Ekki satt?

Banna páskaundirbúning líka, kristin ítök þar.

Er það ekki málið? 

Það væri skárra ef þú hreinilega kæmir hreint fram og segðir að þú værir á móti því að halda í siði og venjur þjóðarinnar, því þú viljir ekki móðga aðra sem hafa aðra siðir og venjur.  Að þú sért hlynntur því að allir fái að vera með sínar skoðanir og viðhorf í laumi, en út á við eigi allir að vera jafnhlutlausir, jafnsteingeldir, jafnskoðanalausir.  Sem er í raun það sem sósjalisminn gengur út á.  Allir eins og enginn öðruvísi.

Veistu, ég er hlynntur því að börn fái að undirbúa jólin í skólanum, fái að undirbúa páska í skólanum.  Að siðferði (hvort sem þú kallar það kristið eða ekki, það er sami rauði þráður í öllum trúarbrögðum) sé haft í heiðri.  Og ef einhverjir sem eru ekki kristnir móðgast yfir því að börn skuli fara á jólaball í skólanum eða föndra páskaegg... þá er það bara þeirra vandamál.  Deal with it. 

Þú og aðrir sem kalla á kollsteypu samfélagsins til að þóknast háværum minnihlutahópum eiga hreinlega að hætta þessu rugli og bara díla við hlutina.  Ef þú ert ósáttur... þá gæti mér ekki verið meira sama.

Liberal, 28.5.2008 kl. 17:06

16 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

það vill nú svo ansi skemmtilega til að ég veit líka út á hvað málið gengur,

Jæja, það er gott.  Skoðum það sem þú hefur að segja.  Ég hef fylgst vandlega með umræðu um skóla og trú síðustu átta árin.  Ég hef skrifað greinar í blöðin og ótal greinar í vefrit.  

Þú virðist halda að það eigi að taka upp skylduaðild að trúarbrögðum, sem er ekki raunin.

Nei, það held ég ekki.  Þetta er glórulaus útúrsnúningur á mínum skoðunum.

 Það að kenna eigi kristna siðfræði, eða öllu heldur nota kristna siðfræði sem viðmið í skólastarfi, er í raun ekki annað en að nota samnefnara allra trúarbragða sem slíkt.

Ég endurtek.  Þetta snýst ekki um kristinfræðikennslu.  Enginn hefur mótmælt kristinfræðikennslu.  Seinni setning þín er marklaust bull. Hvernig getur vísun í ein tiltekin trúarbrögð (kristni) jafngilt því að nota samnefnara allra trúarbragða?  Þetta er alveg glórulaust.  Klausan um kristilegan grunn íslenskrar menningar fjallar um skólastarf, ekki kennsluna, um það er fjallað á öðrum stað í leik- og grunnskólalögum.  Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknar og Jón Magnússon, þingmaður Frjálslyndra, vildu fá kristinfræði þar inn en tillaga þeirra var felld.

 Þú vilt væntanlega banna jólaundirbúning í skólum, því það er jú kristin hátíð.  Ekki satt?

 Nei, jólin eins og við höldum þau eru afskaplega lítið kristin hátíð.  Hvorki að uppruna, hefð né framkvæmd.  Ég hef ekkert á móti jólaundirbúningi í skólum svo lengi sem trúboð er ekki stundað, t.d. bænahald.

Banna páskaundirbúning líka, kristin ítök þar. 

Hvað er kristið við páskana eins og flestir íslendingar halda þá?  Ekki páskaeggin, ekki skíðaferðirnar, ekki kanína í útlöndum.  Ég hef ekkert á móti páskaundirbúningi í skólum, svo lengi sem trúboð er ekki stundað, t.d. bænahald.  

Það væri skárra ef þú hreinilega kæmir hreint fram og segðir að þú værir á móti því að halda í siði og venjur þjóðarinnar, því þú viljir ekki móðga aðra sem hafa aðra siðir og venjur.

Það væri skárra ef það væri mín skoðun, en svo er ekki.  Ég tel fjölmenningu ekki vera ástæðuna fyrir trúfrelsi.  Það er ósköp þægilegt að vera ósammála fólki og rökræða við það þegar maður gerir því upp skoðanir, slíkt er aftur á móti frekar leiðingjarnt til lengdar.  Þetta er aftur á móti afar vinsælt hjá rökþrota fólki.

Að þú sért hlynntur því að allir fái að vera með sínar skoðanir og viðhorf í laumi, en út á við eigi allir að vera jafnhlutlausir, jafnsteingeldir, jafnskoðanalausir.  Sem er í raun það sem sósjalisminn gengur út á.  Allir eins og enginn öðruvísi.

Ég er ekki sósíalisti, ég er hægrisinnaður og augljóslega meiri frjálshyggjumaður en þú því ég tel að allir eigi að fá að hafa sínar trúarskoðanir í friði og það eigi ekki að vera hlutverk yfirvalda (ríkis eða sveitarfélaga) að boða trú.  Ég vil einkavæða trúna.

 Þú og aðrir sem kalla á kollsteypu samfélagsins til að þóknast háværum minnihlutahópum eiga hreinlega að hætta þessu rugli og bara díla við hlutina.  Ef þú ert ósáttur... þá gæti mér ekki verið meira sama.

Háværum minnihlutahópum eins og t.d. líberalistum? 20-30% þjóðarinnar eru trúleysingjar, 40-43% kristnir.

Það er gott að þér gæti ekki verið meira sama, mér gæti sömuleiðis ekki verið meira sama hvaða skoðun þú hefur.  Þegar nafnlausir vitleysingjar bulla út í loftið reyni ég að leiðrétta þá þegar ég veit betur.  Stundum virkar það, sumir vilja frekar hafa rétt fyrir sér en rangt.  Aðrir eru uppteknari af því að vera asnar. 

Matthías Ásgeirsson, 28.5.2008 kl. 17:44

17 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Matthías, ég held að þú þjáist af "megalomania".

Af því að ég geri athugasemdir hér og tel mig þekkja málið vel?

Jæja, þá þjáist ég væntanlega af þeim kvilla. 

Matthías Ásgeirsson, 28.5.2008 kl. 17:45

18 identicon

Að útlendingar læri íslensku sé það sama og kristnisdæmið.... lets see kristni er innflutt, förum til baka í hina einu sönnu íslensku arfleifð

DoctorE (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 18:16

19 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Liberal, afhverju þarftu að uppnefna fólkið í UVG? Afhverju kemur þú ekki bara með málefnalega gagnrýni? Þetta getur annars seint talist frjálslynd færsla hjá þér. Það er ekki eðlilegt að opinbert skólastarf eigi að mótast sérstaklega af kristinni arfleið. Skólar eru fyrir alla, hvort sem þeir eru kristnir eða ekki. Skólar eru fyrir einstaklinga, en ekki (kristnar) þjóðir. Kirkjum er svo í sjálfsvald sett að reka kristna skóla. T.d. er hvítasunnukirkjan á Akureyri með leikskóla, líkt og KFUM í Rvk.

Ég er sammála UVG hér. Gagnrýni þín á UVG byggir á upphrópunum og misskilningi. Það er t.d. enginn að segja að ekki eigi að kenna kristin gildi í skólum. Kristin gildi, sem mörg hver eru auðvitað ágæt, eru hvort sem er meira og minna ramm sósíalísk. UVG eru örugglega ánægð með mikið af boðskap Jesúsar, eins og að leggja líf sitt í sölurnar fyrir aðra, fórna sér, gefa fátækum, bjóða hina kinnina, ef þú átt tvö kritla skaltu gefa hinn, o.s.frv. 

Ég hugsa að Frjálshyggjufélagið myndi ekki vilja hafa orðalagið "kristinni arfleið" í þessum lögum, og ég hugsa að SUS þingið myndi kjósa gegn þessari breytingartillögu væri það spurt. Ekki er það sökum Stalínisma. Algjör aðskilnaður ríkis og kirkju er grunn prinsipp sem allir hægrimenn ættu að vera sammála um. (Ég var t.d. harður talsmaður aðskilnaðar ríkis og krikju að öllu leyti, meðan ég var enn á fullu í Hvítasunnuhreyfingunni, á basic hægri forsendum) Ríkið á ekki að vasast í trúmálum fólks eða reka skóla í anda einhverrar trúarbragða.

Svo mættir þú kannski lesa þetta hér

Halltu þig áfram hægra megin Liberal.

kv

Sindri

Sindri Guðjónsson, 28.5.2008 kl. 18:29

20 Smámynd: Andrés Rúnar Ingason

"hérna rugla menn saman því sem gert hefur verið í nafni kristinnar trúar í gegnum aldirnar, og því hvað er inntak trúarinnar." - Liberal ???

Kristin arfleifð íslenskrar kirkju, er enn verri en kristið siðgæði. Jesú kom nefnilega fram með margt nýtt, sem gekk þvert gegn kenningum gamla testamentisins, svo sem um kærleika. Arfleifð kirkjunnar, þar á meðal hinnar íslensku, er hins vegar sneisafull af fordómum, dómhörku, græðgi og kúgun, þvert á nokkurn kærleika. Nægir þar að nefna Stóradóm, galdrabrennur, bannfæringar, kúgun kvenna og það hvernig kirkjan sölsaði undir sig mikið af eignum og tók margvíslegan þátt í kúgun almennings. Þetta er hluti af hinni kristnu arfleifð, sem við viljum ekki byggja skólastarf á. Rétt er að geta þess að margir þjónar kirkjunnar stunduðu kærleiksverk, en það er ekki hægt að benda bara á þau og horfa framhjá öllum hinum, þegar talað er um kristna arfleifð.

Þetta innskot um „kristna arfleifð íslenskrar menningar“ er komið frá Sigurði Kára og var samþykkt sem breytingatillaga frá meirihluta allsherjarnefndar milli 1. og 2. umræðu. Þetta er mótleikur fyrir það að menntamálaráðherra tók út „kristilegt siðgæði“ úr grunnskólalögunum. Vísun í „kristilegt“ siðgæði var fellt út til þess að standast mannréttindasáttmála Evrópu og bullið sem sett er inn í staðinn er til þess að sneiða fram hjá þeim vanda og troða trúarbrögðum inn aftur. Önnur gildi sem talin eru upp í sömu lagagrein getum við vel fallist á, þar á meðal ákvæðið um að byggja á kærleika.

„Trúarleg arfleifð“ er auðvitað bara arfleifð Ásatrúar og Kristinnar kirkju, svo það er ekki til neinna bóta að breyta þessu þannig. Þessi trúarbragða skírskotun á einfaldlega ekki við. Það er full þörf á að fræða skólabörn um okkar trúarlegu arfleifð og draga þar ekkert undan. Hins vegar á hún alls ekki að vera grundvöllur skólastarfs, eins og þarna er verið að troða inn.

Andrés Rúnar Ingason, 29.5.2008 kl. 00:27

21 Smámynd: Ísleifur Egill Hjaltason

"Það skiptir engu máli þótt trúin sé í grunninn góðhjörtuð því að fólk hefur seinustu 2000 ár túlkað hin mörgu og misvísandi tilsagnir biblíunnar í sinn hag."

Boðskapurinn skiptir engu máli þegar hann er svo margur og misvísandi að þúsundir kirkjudeilda geta verið stofnaðar útfrá honum. Auk þess er gamla testamentið ógeðsleg og miskunnarlaus lesning full af hatri og heimsku.  Hvað er ekki haldbært við að skoða siðferði kristinna manna í gegnum aldirnar?

Íslam er mun hnitmiðaðri og skýrari trú heldur en kristnin nokkurntímann. Hún bannar áfengi, lætur fólk hjálpa fátækum og skilja þá og er ekki full af miskunnarlausum og gjörsamlega vitsnauðum dæmum. Þeir leggja mikla áherslu á að halda textanum á arabísku svo hann brenglist sem minnst og kóraninn er ekki eins sneisafullur af hálfvitaskap eins og biblían. Engu að síður tel ég skipulögð trúarbrögð skapa fátt annað en spillingu og vitleysisskap.

Liberal, þú mátt halda áfram í þessum barnaskap í skjóli nafnleyndar ef þú vilt, þetta blogg er lýsandi um hvernig manneskja þú ert. 

Ísleifur Egill Hjaltason, 29.5.2008 kl. 10:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband