Sósjalistar vilja stunda fjárhættuspil með almannafé

Dr. Dagur er ef til vill ágætis læknir, en hann er ekki maður sem þú vilt treysta fyrir peningunum þínum, alla vega ekki ef marka má orð hans um hvað honum finnst tilvalið að eyða þeim í.  Litli fótgönguliðinn hans, hún Sigrún Elsa, er ekki mikið marktækari.

Þú borgar skatta og skyldur til borgarinnar.  Á móti á borgin að veita ákveðna þjónustu sem ekki á að vera á hendi einkaaðila, þ.e.a.s. þú borgar í einn stóran pott sem svo er notaður til að gera hluti sem ýmist einkaaðilar geta ekki gert eða við sem samfélag erum sammála um að almenningur borgi ekki sérstaklega fyrir.

Skynsemin segir okkur að allir eigi að borga fyrir sem flest sjálfir, af hverju ætti ég t.d. að hafa rétt til þess að þú borgir í þennan samneyslupott svo hægt sé að borga niður tónlistarnám frænku minnar?  Frænka mín og hennar fólk getur bara borgað sjálft fyrir hennar nám, enda ekki lífsnauðsynlegt eða hluti mannréttinda. 

Sósjalistum eins og Degi finnst að hið opinbera eigi að taka sem mest af peningunum þínum og mínum og setja í þennan pott, því það sjálft (dr. Dagur og hans kónar) séu bestu og frábærustu aðilarnir til að útdeila þeim aftur til samfélagsins.  Fólk sem vinnur sér inn peningana og ákveður hvernig líf þeirra ætti að vera hefur ekkert vit á peningum eða hvað er því fyrir bestu.  Þess vegna hækkuðu sósjalistar (á tíma undir forystu dr. Dags) skatta og álögur í borginni upp í hæstu hæðir og bönnuðu fólki svo að segja allt nema það fengi sérstakt leyfi frá hinum alvitru sósjalistum.

En nú hefur komið í ljós önnur hlið á sósjalistunum.  Hinn læknisfræðimenntaði dr. Dagur vill ekki bara taka af þér peningana til að setja í hluti sem Íslendingar geta vel sjálfir borgað fyrir, kjósi þeir svo, heldur vill hann líka pína þig til að borga enn meira af þínum peningum svo hann, og dr. Össur, geti stundað fjárhættuspil í Afríku og Asíu.

Við þekkjum öll hversu snjall fjármálamaður Össur er, eftir yfirlýsingar hans um glæsta framtíð fiskeldis á Íslandi, og við þekkjum líka siðferði sósjalistanna eftir yfirlýsingar þeirra um hversu frábært það sé að geta notað skattfé til að fjárfesta í vanþróuðustu ríkjum heims, þar sem allsendis óvíst er með hvort þú sjáir peningana þína nokkru sinni aftur.  En það er víst svo spennandi og gaman.  Svo mikið "rush" að gambla.

Hvernig væri að dr. Dagur og dr. Össur létu peninga okkar almennings í friði og fjárfestu frekar sjálfir sínu sparifé í fyrirtækjum sem sérhæfa sig í áhættufjárfestingum, og taki þannig sjálfir áhættuna á tapi?  Frekar en að redda sér einhverju adrenalínkikki í gegnum skattfé almennings og firra sjálfa sig þannig skaða?

Lífið væri mun betra ef færri létu glepjast af Blaðri vinstrimanna.


mbl.is Útrásin á að geta haldið áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki er nú hátt risið á frjálshyggunni þessa dagana, hver um annan þveran að reyna að fela glapræðið.

Hvaðan komu peningar þessir sem nú eru að brenna upp ?

Jú frá almenningi í gegnum lífeyrissjóði og sparnað almennings.

Nú er svo allt tapið lagt á skrílinn með verðbólgu og gengisbrölti.

Ég get enganveginn séð þetta vera betri leið en að borga skatta og fá þjónustu í staðinn.

Magnus Jonsson (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 08:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband