Fótum troðið lýðræði í ESB

Af hverju er Samfylkingin svona hrifin af ESB?  Getur verið að meðhöndlun lýðræðis í ESB eigi sér hljómgrunn hjá hinni lýðræðiselskandi forystu Samfylkingarinnar?

Samfylkingin, undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar, hélt kosningu um framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni.  Settar voru reglur um hvort kosningin yrði "bindandi" (sem í sjálfu sér er marklaust hugtak í hugarheimi Samfylkingarinnar), og svo kom "rétt" niðurstaða en kosningin var ekki bindandi samkvæmt reglum sem settar voru.  Ingibjörg breytti þá bara reglunum eftir á til að þóknast eigin hugmyndum.

Í fyrra hélt Samfylkingin kosningu í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík, og er ótrúlegt að forystumenn flokksins þar hafi ekki orðið kleyfhugar í kjölfarið.  Íbúar felldu hugmyndir um stækkun, nokkuð sem Samfylkingin átti ekki von á, og þá var reglunum (aftur) breytt eftir á.  Bæjarstjórinn sagði að sko bara núverandi meirihluti væri bundinn af kosningunni, svo væri líka alveg mögulegt að stækka álverið á núverandi lóð.  Þetta var sem sagt allt í plati, svona fyrst kjósendur gátu ekki haft vit á því að kjósa rétt.

ESB boðaði til kosninga árið 2005 um stjórnarskrá sambandsins, flaggskip þess til framtíðar.  Kjósendur létu skoðun sína í ljós og sögðu forystumönnum sambandsins í ómyrku máli nákvæmlega hvert þeir gætu stungið þessu plaggi.  ESB ákvað þá að láta stjórnarskrána samt sem áður taka gildi, enda skiptir vilji kjósenda engu máli, og endurskýrði stjórnarskrána "Lissabon sáttmálann", og bannaði ríkjunum að láta greiða um hann atkvæði.  Nema Írlandi sem ákvað engu að síður að fara þá byltingarkenndu leið að leyfa íbúum landsins að hafa hönd í bagga með róttækar breytingar á stjórnskipun síns eigin lands.  Írar sögðu forystumönnum ESB nákvæmlega hvar þeir gætu stungið Lissabon sáttmálanum, og er þá orðið þröngt á þingi í þeirri geymslu ESB sinna.

Nú eru góð ráð dýr.  En Nicolas Sarkozy hefur sagt að það sé auðvitað til sanngjörn og einföld lausn á þessu; láta bara Írland kjósa aftur!  Jú, þeir hafa greinilega ekki gert upp hug sinn varðandi stækkun ESB (svo maður noti frasa Samfylkingarinnar þegar einhver er ósammála Ágústi Ólafi og hinum klappstýrum ESB), og því mikilvægt að þeir kjósi aftur... og aftur... og aftur... og aftur... þangað til þeir kjósa rétt, og samþykkja sáttmálann.  

Samfylkingin og ESB eiga það sameiginlegt að vera hópar lýðskrumara sem boða umræðustjórnmál og íbúalýðræði, en bara, og eingöngu, ef þeir sem tjá sig og greiða atkvæði eru sammála Samfylkingunni eða ESB.  Annað er ekki leyft.  Það kallast að vera ekki búinn að gera upp við sig málefnin.

Hæfir því skel kjafti, myndi ég segja.  Og þjóðin mun ekki samþykkja það að afsala sér fullveldi sínu til þess eins að kennari á Bifröst geti hlammað sér niður enn einn ríkisspenann, nú í Brussel, og farið í þykjustuleik í stjórnmálum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband