Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Klækjastjórnmál Dags og Svandísar

Það verður seint talað um klækjastjórnmál þegar flokkar rjúfa samstarf vegna þess að annar þeirra er með öllu óstjórntækur eins og sannaðist með Ólaf F. og sýndar-flokk hans í borginni.  Litli læknirinn sem var í keisaraleik alla daga reyndist með öllu óhæfur og vonlaus í samvinnu.

Því var auðvitað best fyrir allt og alla að losa sig við hann og efna til nýs og sterkari meirihluta sem samanstendur af fagfólki í stjórnmálum.

Til þess mátti horfa til allra hinna flokkanna í borginni og hefði í raun verið fínt að stofna til samstarfs með Degi eða Svandísi, nema hvað þau tvö hafa trekk í trekk sýnt þann stórmerkilega pólitíska leik að útiloka samstarf með Sjálfstæðisflokki og semja sig þannig frá völdum nema tilteknar aðstæður komi upp.

Klækjastjórnmál sumarsins eiga bækistöð í hnípnum höfuðstöðvum Samfylkingarinnar, þar sem Dagur og Svandís hittust í gær og ákváðu að það samrýmdist heiðarlegum og opinskáum stjórnmálum að senda einn kommann af þingi til að tala við Ólaf borgarstjóra og bjóða honum að hætta í stjórnmálum, koma þar með varamanni sínum að (sem hann hefur ekki talað við í heilt ár), svo hún geti kúvent stefnu sýndar-flokks Ólafs og hlaupið í flóabæli BDSM listans og þannig náð að klekkja hressilega á Sjálfstæðisflokknum.

Degi finnst það ekki vera klækjastjórnmál.  Nú verður fróðlegt að sjá hverju hann svarar þessu í dag þegar blaðamenn spyrja hann að þessu og krefjast svara.

Dagur sýndi í gær að allt hans Blaður um heilindi í stjórnmálum og hversu æðislegur hann og hans fólk er er hjóm eitt.  Það að hann útiloki samstarf með Sjálfstæðisflokki segir okkur bara að hann vill fá að ráða sjálfur og ekki deila völdum.  Það að hann skuli senda flugumann til að reyna að leggja gildru fyrir Sjálfstæðismenn segir okkur bara það að Dagur hugsar um það eitt að komast til valda sjálfur.

Svo má líka alveg impra á því af hverju Degi finnst það svona gríðarlega óeðlilegt að stjórnmálaflokkur annar en hans eigin skuli hugnast það að hafa sjálfstæðar skoðanir, en ekki elta Dag og Svandísi eins og kjölturakkar í hvern kjánalega leiðangurinn á fætur öðrum.  Dagur skilur barasta bara ekkert í því af hverju Framsókn gerir ekki allt eins og Samfylkingin býður hverju sinni.  Maður gæti hreinlega haldið að Framsókn og Samfylking væru ólíkir flokkar! 


mbl.is Borgarbúar finni fyrir festu í stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örvænting og hroki vinstriflokkanna...

Þess verður ekki langt að bíða að Dagur mæti í viðtöl og greini frá því (löngu máli líkt og honum einum er lagið) hvað þetta er allt hið versta mál.

Hvað það sé lífsnauðsynlegt að fá Samfylkinguna sem fyrst til að stjórna borginni (af því að kommarnir stóðu sig svo vel í R-listanum og eru svo skeleggir í landsstjórninni, býst ég við) og hvað Framsókn hafi hlaupist undan merkjum.

Vinstrimenn, og þar fremstir í flokki Dagur og Svandís, virðast nefnilega ekki átta sig á því að minnihlutinn í borginni samanstendur af mörgum flokkum, og það er til marks um hrokann og yfirganginn í Degi að tala um (eins og hann gerði í gær) að það væri bara sjálfsagt mál að allir minnihlutaflokkarnir gangi í takt.

Staðreyndin er sú að borginni hnignaði gríðarlega undir járnhæl R-listans og BDSM listans (ekki átti nú Dagur í vandræðum með Framsókn þá, né að Framsókn stofnaði BDSM listann með Degi og hinum skoffínunum).  Valdabröltið náði hámarki með pólitísku fjöllyndi Margrétar Sverrisdóttur, ekki sá Dagur tilefni til að gagnrýna það að hún skyldi taka sæti sem fulltrúi í BDSM stjórninni þó hún væri varaformaður flokks sem ekki hefði boðið fram og hún hefði sagt sig úr þeim flokki sem hún þó tók sæti fyrir.

Nei, Samfylkingin og Vinstri Grænir eru rasandi vondir því upphlaupsgjörnu kommarnir þar hafa útilokað sig frá meirihlutasamstarfi trekk í trekk, nema það sé undir þeirra eigin forystu.  Og það telst ekki góð pólitík.  

Dagur þarf að fatta að hann er ekki konungur allra ekki-Sjálfstæðisflokkanna, heldur einungis blaðurgjarn oddviti eins flokkanna.  

Um leið og ég óska borgarbúum til hamingju með nýjan meirihluta, og að vera lausir við paríuna hann Ólaf F., þá vona ég jafnframt að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sjái sóma sinn í að halda sig heima næst þegar efnt er til prófkjörs fyrir flokkinn í borginni, enginn þeirra er verðugur þess að vera í vinnu fyrir borgarbúa.  Ekki frekar en kommarnir sem hanga enn eina ferðina í minnihluta af því að þeir geta ekki unnið með neinum. 


mbl.is Nýr meirihluti að fæðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin - skoðanalaus hjörð pöpulista

Samfylkingin verður seint sökuð um að hafa stefnu í málum.  Reyndar má segja að hún hafi enga stefnu í neinu máli, aðra en þá að taka undir það sem hverju sinni telst vinsælt í skoðanakönnunum.

Einstaka athyglissjúklingar innan þessa flokks, eins og t.d. kennarar við háskólann á Bifröst, nota tilfallandi ástand í þjóðfélaginu til að moka undir áhugamál sín um að afsala okkur fullveldinu... líklegast svo hinir sömu kennarar geti kannski sölsað undir sig feitum "opinberum" stöðum í Bákninu í Brussel og sötrað latte á kostnað almennings eins og alvöru menn.

ESB verður seint kallað stefnumál Samfylkingarinnar, því einhverra hluta vegna er umræðunni um ESB stungið rækilega ofan í skúffu fyrir kosningar, en svo rifið upp aftur þess á milli. 

Nú setti Samfylkingin fram plagg sem kallaðist Fagra Ísland í aðdraganda síðustu kosninga, merkilegt útspil því það gæti næstum verið túlkað sem stefna flokksins.  En engar áhyggjur, Samfylkingin er söm við sig, nú er þetta plagg túlkað út og suður eftir hentugleika og í raun marklaust (sem er vel, því það er og var ómerkilegur pappír).

En Vinstri Grænir hafa komið fyrir flugumanni, eða flugukonu, í ráðherraliðinu og ein er sú ráðfrú sem talar máli hinna stæku kommúnista og alræðissinna sem tilheyra VG, flokki sem þjóðin hefur sammæst um að halda frá völdum hvar sem við verður komið.  Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur ákveðið að aðhyllast frekar gerræðisleg vinnubrögð VG og hefur einsett sér að kafsigla efnahagslíf þjóðarinnar til lengri tíma litið með því að banna, svo að segja, alla nýtingu orkuauðlinda landsins.

Rétt eins og VG vill.

VG hefur sagt að betra sé að virkja hugvitið en náttúruna, eða eitthvað í þá veruna, og reiknar því með að allir landsmenn geti orðið heimsfrægir músíkantar eða þingmenn.  Þórunn hefur nú stokkið á vagninn sem boðar að fólk geti bara gert "eitthvað annað" og haft það þannig fínt.

Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að Þórunni verði gert að víkja úr ríkisstjórn þar sem hún er ófær um að framfylgja stefnu stjórnarinnar, og hún ætti þá í kjölfarið að íhuga það í hvaða flokki hún á heima, því fyrst hún hefur mótað sér stefnu í einhverju máli þá útilokar það strax að hún eigi heima í Samfylkingunni, og svo þegar hún hefur ákveðið að banna skuli nýtingu náttúrunnar þá á hún auðviðta heima með öllum hinum sauðunum sem vilja banna allt - í VG.


mbl.is Óhaggaður stuðningur við álver á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólóistinn og umhverfissnobbhænan

Merkilegt hvernig Þórunn lætur sig ekki muna um að láta stjórnast af eigin duttlungun frekar en að láta fagaðila sjá um sína hluti.

Ég veit ekki betur en að heilt batterí, Skipulagsstofnun, hafi skoða þetta mál (undir væntanlega miklum þrýstingi frá umhverfissnobbhæsnum landsins) og komist að niðurstöðu.  Niðurstöðu sem er hennar hátign ekki að skapi og þá grípur hún fram fyrir hendurnar á öllu og öllum.

Sumir vinstrimenn hafa löngum haft horn í síðu Björns Bjarnasonar og sakað hann um gerræðislega tilburði, en það heyrist ekki hátt í þeim hinum sömu vinstrimönnum þegar Þórunn ákveður að haga sér eins og ofdekraður smákrakki og hafa að engu faglega málsmeðferð.

Hún snuprar ekki bara Össur Skarphéðinsson svakalega með þessu "múvi" sínu, heldur hefur líklegast grafið sína eigin gröf endanlega sem ráðherra í þessari ríkisstjórn.  Hún virðist engan veginn skilja út á hvað ábyrg stefna gengur, heldur rígheldur í bjánaleg viðhorf umhverfissnobbsins - þar sem allt er bannað sem snýr að náttúrunni.

Þórunn er ekki merkilegur pólitískur pappír og undirstrikaði það með þessari ákvörðun sinni. 


mbl.is Úrskurðurinn ónauðsynlegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband