Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Sturla nýtir sér frægðina

Gaman að sjá að Sturla Jónsson, trukkari, skuli gefa sér tíma frá því að mótmæla háu bensínverði og auglýsa sama háa bensín fyrir N1.

http://visir.is/article/20080426/LIFID01/243269982

Sturla er alveg samt á móti háu bensínverði, en bara þeim hluta háa bensínverðsins sem ríkið innheimtir.  Sá hluti sem N1 innheimtir er bara fínn og hann sér ekkert athugavert við að auglýsa fyrir það fyrirtæki.

Hann er nú líka orðinn svo frægur, kallinn.  Hálfgert selebrití.  Hann kemur örugglega í Séð og Heyrt bráðum "Sturla í góðum gír" og mynd af honum brosandi í Leónardódíkapríó stellingu ofan á stýrishúsi bílsins síns.

Látum okkur nú sjá... hann mótmælti háu bensínverði og kenndi ríkisstjórninni um.  Svo þegar í ljós kom að ríkisstjórnin stjórnar ekki bensínverðinu, og hefur meira að segja lækkað álögur sínar talsvert og meira en gerist og gengur í löndunum kringum okkur, þá er það fyrsta sem hann gerir að hringja í N1 og leika í auglýsingu fyrir olíufyrirtæki?

"Ég er í stríði við ríkisstjórnina, baráttan beinist gegn þeim". Nú?  Ég hélt að baráttan bitnaði helst á saklausum borgurum og lögregluþjónum sem fá greitt fyrir að halda uppi lögum og reglu í þjóðfélaginu.

Annars er maður búinn að missa töluna á þeim kostulegu ummælum sem Sturla, og fleiri, hafa látið frá sér fara undanfarnar vikur, þessir menn vaða nú ekkert í vitinu verður maður að viðurkenna.  Vonandi hafa þeir áttað sig á því að þeirra stuðningur kemur úr herbúðum drukkinna unglinga, gagnfræðaskólakrakkar gera að þeim grín með því að apa eftir þeim vitleysuna, og almenningur í landinu hlær dátt að uppátækjum þessara manna.  Þá er spurningin, hversu klár þarftu að vera til að skilja þau skilaboð?


Norðurlandamót í rangfærslum og dramatík

Vinstri Grænir hafa verið iðnir við að setja hvert metið á fætur öðru í rangfærslum og dramatík, og má segja að dramadrottningin sjálf, Svandís Svavarsdóttir, hafi náð að toppa sjálfa sig í pöpulismanum í þessu máli.

Hinn stórglæsilegi sparkvöllur sem er á bak við húsið mun vonandi hverfa, enda skilst mér að síðasta grasstráið hafi horfið þaðan árið 1999, og er nú þarna moldarflag og mörk með rifnum netum.  Börn í Þingholtunum neyðast víst héðan í frá að notast við Hljómskálagarðinn, eða skólalóðir til að stunda knattspyrnu, og þurfa að láta yfir sig ganga að hafa gras undir fótum en ekki mold, og mörk sem hafa heil net. 

Það er líka skelfilegt, að mati Vinstri Grænna, að hús í miðborginni skuli hafna í höndum "einka"aðila, þeir gætu tekið upp á því að gera þau glæsileg og jafnvel (sé ósvífnin þeim mun meiri) gera þau að bæjarprýði.  En slíkt er víst sérstaklega bundið við hina hötuðu "auðmenn" sem eru eitur í beinum vinstrisinnaðra stjórnmálamanna um þessar mundir.

Já, því miður verður Svandís að sætta sig við það að hún fær ekki alltaf að ráða.  Og þessir 5 sem mættu á stofnfund "Hollvina Hallargarðsins" eða hvað sem sá söfnuður var kallaður, verða að sætta sig við það líka.  Hinir landsmenn sem vilja að húsið, sem hefur verið í niðurníðslu í stjórnartíð flokksmanna Svandísar og Sigrúnar Elsu, dafni og endurheimti fyrri glæsileika, fögnum.  Megi fleiri hús í bænum okkar "lenda í höndum" einkaaðila sem dirfast að sýna þá ósvífni að hugsa vel um þau.


mbl.is Kauptilboði Novator tekið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Starfsdagur í menntaskólum?

Gat nú verið að botnfall íslenskra ungmenna tæki sig til og mótmælti, svona bara til að vera með.

Protest is the new black!

Er nokkuð því til fyrirstöðu að handtaka þessa krakkaorma, þau eru jú að brjóta lög?  Mér finnst alveg nóg komið af því að sýna "mótmælendum" linkind, hvort sem það eru skemmdarverkamenn uppi á fjöllum að eyðileggja vinnuvélar, eða trukkarar að berja lögguna við Rauðavatn.  Hér á landi eru í gildi lög, lögreglan á að tryggja að eftir þeim sé farið, lögreglan á líka að handtaka þá sem fara ekki eftir þeim.  Krakkar, trukkarar, innfluttir atvinnunáttúruverndarsinnar.... allir eiga að vera jafnir fyrir lögum, og einhverjum háværum væluskjóðum á ekki að leyfast að brjóta lög sem við hin förum eftir.


mbl.is Ungmenni tefja umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kæmi ekki á óvart

Það kæmi ekki á óvart ef margt misjafnt liti dagsins ljós eftir langa setu vinstriflokkanna í bæjarstjórn, enda vinstriöflin þekkt af allt öðru en skynsemi í fjármálum.  Það er ábyrgðarhlutur að halda um veski hins opinbera, og í gegnum tíðina höfum við séð trekk í trekk að Alþýðubandalagsmenn og Kratar (að ógleymdum Framsóknarmönnum) eru hrifnari af því að framkvæma fyrst og hugsa svo, eða oftar en ekki; framkvæma fyrst, hrökklast svo frá völdum, láta Sjálfstæðisflokkinn leysa úr vitleysunni, og kvarta allan tímann.

Við sjáum glöggt dæmi um þetta í aðkomu Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna að Orkuveitumálinu og REI, þar sem fulltrúar þeirra flokka voru, og eru, harðir stuðningsmenn þess að taka skattfé Reykvíkinga (og Akurnesinga og Borgnesinga) og fjárfesta í áhættusömum verkefnum í svörtustu Afríku.  

Staðreyndir málsins eru einfaldar, aldrei treysta vinstrivæng stjórnmálanna fyrir opinberum fjármálum. 


mbl.is Vill taka fjármál Bolungarvíkur föstum tökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkur og Samfylking fagna hugmyndum um skattahækkanir

Þessi hugmynd er góð, innan ákveðinna marka.  Ef við höfum til dæmis ríkisstjórn sem rekur hið opinbera af ráðdeild og skynsemi, og hefur þar af leiðandi mikinn rekstrarafgang, þá á hin sama ríkisstjórn að byggja upp sjóð sem þennan, en ekki eyða afganginum í hluti eins og "Ár Kartöflunnar" eða það að hola niður Jafnréttisráðum og -fulltrúum í um allar koppagrundir.

Ef svona sjóð á að stofna með því að hækka álögur á landsmenn, þá ber að berjast gegn þessu með oddi og egg, skattar á Íslandi eru alltof háir, jaðarskattar yfirþyrmandi, og yfirbygging hins opinbera komin út í tóma vitleysu.

Ef vel á að vera ætti að lækka skatta á allar tekjur, afnema innflutningsgjöld og stórefla aðhald í útgjöldum hins opinbera.  Það má gera með því t.d. að taka upp einkarekstur í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu í mun meiri mæli en nú er gert, taka upp miklu öflugara eftirlit í bótakerfinu og útrýma svikurunum sem þar fá að ríða röftum, og með því að laða að erlenda fjárfestingu til landsins.

En því miður virðist sem svo að Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur komið sér kyrfilega fyrir á vinstrihluta miðjunnar í íslenskum stjórnmálum, fagni tækifæri til að hækka skatta og leggja sérstakar álögur á landsmenn, og þannig koma sér undan því að sýna ábyrgð og aðhald í rekstri hins opinbera.

Það er miður.  Því þetta er í sjálfu sér ekki vitlaus hugmynd hjá Björgólfi (þó svo að hann virðist gleyma þeirri staðreynd að olíusjóður Norðmanna er þeirra lífeyrissjóður, á meðan við höfum lífeyrissjóði sem eru ígildi sparnaðar þjóðarinnar, og sem slíkir einstakir í heiminum), en útfærslan á henni í höndum vinstrisinnaðra stjórnmálamanna í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu væri ávísun á stórslys.

 


mbl.is Vilja skoða hugmynd um þjóðarsjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lára hlutlausa?

Er einhver sem getur haldið því fram, án þess að brosa, að Lára sé "hlutlaus" sem fréttamaður?  Man einhver eftir "fréttum" hennar af Kárahnjúkavirkjun?  Hlutlaus?  Varla.
mbl.is Yfirlýsing frá Láru Ómarsdóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talsmaðurinn kannast ekki við talsmanninn

Talaði Sturla ekki um samstöðu trukkara í gær?  Eða er sú samstaða eins og kröfugerð trukkaranna, breytanleg frá degi til dags, og gegnumsneytt án samhengis?

Var þessi sem gaggaði eins og hæna framan í lögguna ekki talsmaður þeirra um daginn?  Alla vega hefur hann komið fram í nafni trukkaranna... en Sturla barasta þekkir hann ekki neitt.  Sá þetta ekki einu sinni. 

Best var samt þegar Sturla sagði í sjónvarpinu: "Löggan ræðst bara á hann, og hann er nýkominn úr aðgerð á hné.... en ég þekki hann samt ekki neitt...."

Trukkarar hafa nákvæmlega enga samúð, þvert á móti er þjóðin búin að fá upp í kok af heimtufrekjunni og klárlega er komin fram krafa um að yfirvöld koma á röð og reglu og hleypi ekki svona vitleysingum lengra með barnalæti sín.


mbl.is Sturla: „Ekki á okkar ábyrgð"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hverju eru þeir að mótmæla?

Jú, fyrst mótmæltu trukkararnir því að bensínið væri dýrt, og þá var sýnt fram á að það væri vegna heimsmarkaðsverðsins, ekki vegna álagningar hins opinbera sem þeir í einfeldni sinni héldu.

Þegar búið var að sýna fram á að þeir voru í rugli, þá fundu þeir bara annað til býsnast yfir, í þetta sinn fannst þeim ósanngjarnt að þeir þyrftu að hvíla sig á akstri yfir daginn, þeir vilja miklu frekar fá að keyra endalaust, helst sleppa því að sofa.

Þeir eru nefnilega miklu meiri "karlmenni" en evrópskir trukkarar, sem eru víst bara kellingar sem geta bara keyrst í 10 tíma á dag, íslenskir trukkarar geta keyrt miklu lengur.

Reyndar er það smáatriði í þessu að kvaðir um hvíld trukkaranna eru ekki síst til að vernda okkur hin í umferðinni, við þessi hin sem þurfum að deila vegunum með þessum jólasveinum sem nú lemja lögregluþjóna og grýta.  Hina sömu og virðast eiga í mestu erfiðleikum með að halda málrómnum undir 80 desibelum þegar þeir tala um "sín mál".

Og núna, allt í einu, eru kröfur þeirra orðnar óljósari en fyrr, og voru þær nú ekki greinilegar áður.  Nú krefst Sturla að "þingmenn fari að vinna vinnuna sína" eins og hann orðar það, sem útleggst væntanlega sem svo að þingmenn geri eins og honum finnst.  Þegar hann talaði um tóm blöð hjá Árna Matthiesen og að það væri merki um að Árni væri ekki að vinna.... þá brosti maður, en þegar Sturla hótar enn frekari aðgerðum nema Alþingi gangi að óljósum kröfum trukkaranna, þá hverfur brosið snarlega.  Munum við þurfa að búa við það að botnfall íslenskra bílstjóra krefjist þess að Alþingi geri allt sem þeirra sjálfumglöðu hjörtu bjóða?

Vitleysingarnir sem hóta Birni Bjarnasyni öllu illu eru nákvæmlega sama tegundin og hjassinn sem réðist á lögregluþjóninn í dag, og kjánakrakkarnir sem grýttu lögguna í gær.  Undirmálsfólk í margvíslegum skilningi, andlegum að mestu leyti, og nú ríður á að stöðva þessa bjána sem virðast ekki vera í neinum öðrum leiðangri en að vekja athygli á sjálfum sér og fá útrás fyrir einhverja óskilgreinda reiði í garð þjóðfélagsins.

Lögreglan á að koma í veg fyrir upphlaup eins og þau sem við höfum séð í dag og í gær, og ef skynsamleg hegðun er ofar gáfnafari trukkaranna, þá þarf einfaldlega að berja þá til hlýðni.  Og guð hjálpi okkur öllum nú þegar við vitum hvaða persónuleiki húkir á bak við stýrið á risavöxnum flutningabílum á vegum landsins.


Hið ókræsilega birtingarform skrílslátanna

Í gær sáum við ansi nöturlega hlið á ákveðnum hópum samfélagsins.  Vörubílstjórar telja sig vera hafna yfir lög og reglur, menntaskólakrakkar telja enga ástæðu til að virða framkvæmdavaldið, og tiltekin fréttakona á Stöð 2 telur sig þess umkomna að leikstýra óeirðum til að gera fréttina sína örlítið meira krassandi.

Í gær sáum við í Kastljósinu á hvaða greindarstigi talsmaður trukkaranna er.  Hann telur það óþarfa að axla ábyrgð á eigin uppátækjum og lögbrotum, þetta sé allt ríkisstjórninni að kenna.  Í mínum huga vekur það hjá mér ugg að einstaklingur sem ekki stígur meira í vitið en þetta skuli fá að keyra um á margra tonna tryllitæki á þjóðvegum landsins.

Við sáum drukkna menntaskólakrakka (mögulega þá hina sömu og mættu í Ráðhúsið um daginn) kasta eggjum í lögregluna.  Hvernig er það, við býsnumst yfir því að "ungdómurinn" í dag skuli ekki bera virðingu fyrir eigum annara og kroti á veggi og mannvirki, en finnst svo í lagi að sömu krakkar kasti grjóti og eggjum í laganna verði. 

Viðbrögð Vinstri Grænna, gömlu Alþýðubandalagskommanna, voru að sjálfsögðu fyrirsjáanleg; fordæma framgöngu lögreglunnar og segja, án þess þó að segja það beint út, að það sé allt í lagi að brjóta lög ef málstaðurinn er rauðliðunum þóknanlegur.

Í morgun lásum við svo pósta sem dómsmálaráðherra bárust í gær, m.a. þar sem honum er óskað þess að fá banvænan og sársaukafullan sjúkdóm, og að hann ætti að skjóta sig til bana. 

Eitthvað segir mér að íslenskir rauðliðar séu innst inn hrifnir af svona framferði, enda sjá þeir í hillingum þessa penna sem möguleg atkvæði sér í vil eftir þrjú ár.

Lögreglan var að vinna sína vinnu, og hún gerði það vel.  Ef eitthvað má gagnrýna, þá er það það að hún skyldi ekki fyrir löngu hafa brugðist við af hörku, að hún skuli ekki hafa fyrir löngu síðan látið þessa trukkara skilja að lögbrot er lögbrot, og við lögbrjóta verður ekki samið.

En nei, í gær mætti Sturla í Kastljós og fór mikinn, talaði út og suður og jós úr skálum reiði sinnar.  Og í hvaða tilgangi?  Jú, hann krefst þess að hann og hans líkar fái að keyra lengur en lög og reglur kveða á um, að þeir geti fengið að keyra þreyttari en eðlilegt getur talist.  Eitthvað segir mér að þegar Sturla sofnar við stýrið eftir 14 tíma keyrslu, þá verði það fólkið í litla skutbílnum sem ber skarðan hlut frá borði, en ekki hann á sínum margra tonna trukk.

Það er von mín að trukkabílstjórar verði lögsóttir af eins mikilli hörku og unnt er, og að þeir verði látnir bera fulla ábyrgð á aðgerðum sínum.

 


mbl.is Ráðist á lögregluþjón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband